04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í C-deild Alþingistíðinda. (1591)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er aðallega fernskonar breyting á l. um byggingar og landnámssjóð, sem í þessu frv. felst.

1. gr. frv. hljóðar um það, að fella skuli niður fyrri málsl. 4. gr. laganna. En það urðu nokkur mistök á undirbúningi þessa frv., og flyt ég þess vegna brtt. við það. Við sáum okkur um hönd og leggjum til, að öll 4. gr. umræddra laga falli burt. Hún er þess efnis, að ákveða, undir hvaða lánaflokk hvert lán skuli falla. Nú eru rentuflokkarnir þrír. Virðist okkur óþarfi að hafa þá svo marga; leggjum við því til, að lægsti flokkurinn — rentulaus lán með jöfnum afborgunum á 50 árum — falli niður og að öll lán til nýbýla falli undir annan rentuflokk. Lítum við svo á, að tæplega sé rétt að ýta undir þær framkvæmdir, sem ekki geta borið lán með 3½% árlegri greiðslu í vexti og afborgun.

Þetta verður mikill stuðningur fyrir sjóðinn, og þeim mun meiri, sem minna þarf að verja úr honum til þessarar starfsemi. Sömuleiðis hefir sú breyt. verið gerð með þessu, að þau nýbýli, sem byggð eru á landi, sem að nokkru leyti er ræktað, falla undir sama flokk og endurbyggingar á jörðunum. Þetta leiðir af sér heldur lakari kjör þeirra, sem lán taka, en það er samt fyllilega réttmætt. Af brtt. á þskj. 405 leiðir, að því er slegið föstu, að einungis þessi flokkur lendir í lánaflokki með 3½% vöxtum. Öll hin lánin borgast með 5% í 42 ár.

Þá kemur 2. brtt. Hún er þess efnis, að þau býli, sem byggð eru á óræktuðu landi, skuli ekki njóta betri kjara en hin, sem byggð eru á ræktuðu landi. Það er óréttmætt, því að eðlilegast er, þegar byggja á nýbýli, að byrjað sé á því að rækta landið; enn menn verða að byrja á því að byggja til að fá betri lánskjör.

3. brtt. er við hina nafntoguðu 9. gr., um hvað dýrt megi selja. Í núgildandi lögum er svo ákveðið, að ekki megi leigja dýrara en fyrir 4% af landsverði og 2% af húsverði, en á þennan hátt er ómögulegt að lána gegn afgjaldskvöð út af kirkjujörðum. Þessu þarf að breyta og hækka ofurlítið hundraðstöluna.

Ennfremur er í 3. gr. frv. þessi klausa: „Ef lán er endurgreitt fyrir umsaminn tíma, er lánþega að jafnaði skylt að endurgreiða til sjóðsins þann vaxtamun, sem verið hefði á láninu, ef það hefði verið tekið í veðdeild bankans“.

Eins og vitanlegt er, er með byggingar- og landnámssjóði verið að veita mikil hlunnindi þeim, sem lán taka, til þess að þeir menn, sem á jörðunum búa, njóti sjálfir hlunnindanna, en ef þeir selja, er sanngjarnt, að þeir geti ekki selt hlunnindin líka, og þá verða þeir að endurgreiða lánin með venjulegum vaxtakjörum, sem sérstaklega eru miðuð við veðdeild Búnaðarbankans.

Þá kemur 4. gr., sem heimilar, að stjórn sjóðsins megi lána til fyrirmyndarbúa með sömu lánskjörum og til nýbýla. Það hefir mikið verið um það rætt að koma upp fyrirmyndarbúum í sveitum landsins, og t. d. hefir verið rætt mikið um það í Búnaðarfélagi Íslands. En margir líta svo á, að hentugast sé að reka slík bú á kostnað og ábyrgð einstakra manna undir yfirumsjón Búnaðarfélags Íslands. Ef þetta yrði gert, yrði hægt að setja sérstaklega hæfa menn til að reka þau. Ég skal í þessu sambandi geta þess, að því hefir verið haldið fram af ýmsum, að nauðsyn bæri til að koma upp fyrirmyndar búfjárræktarbúi. Ef einhver veldist til þess, sem hefði almenningsorð á sér fyrir kunnáttu í þeim efnum, væri honum mikill styrkur að geta fengið lán úr þessum sjóði, þannig að sjóðurinn yrði einskonar millileið á milli opinbers rekstrar og einstaklingsrekstrar.

Loks kemur brtt. við 18. gr. Þar er svo ákveðið, að stjórn sjóðsins skuli hafa sér til aðstoðar við lánveitingar þriggja manna nefnd, sem skipuð sé búnaðarmálastjóra, leiðbeinanda um húsagerð til sveita og þriðja manni, sem atvmrh. nefnir til. — Við lítum svo á, að þetta sé óþarft, enda hefir reynslan sýnt, að slíkt fyrirkomulag gerir alla stjórn sjóðsins þunglamalegri. Það er erfiðara að stjórna þegar um 6 menn er að ræða en 3. Stjórnin getur fengið sér sérfræðing til aðstoðar. Hún hefir þegar yfir að ráða leiðbeinanda við húsagerðir, og hann mætti hafa áfram. Þessi brtt. er því hrein sparnaðartillaga.

Ég er þá búinn að skýra frá aðalefni frv. og vil óska, að það verði afgr. sem fyrst. Það segir sig sjálft, að ekki er hægt að komast hjá ósamræmi í lánveitingum, ef nú á að byrja að veita lán á þeim grundvelli, sem lögin ákveða, og breyta þeim svo síðar meir.