04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í C-deild Alþingistíðinda. (1593)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég get því miður ekki svarað þeirri fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf., hvort það sé Búnaðarbankinn sjálfur eða byggingar- og landnámssjóður, sem á að greiða þetta. Ég veit ekki til, að neitt hafi verið um það rætt við stjórn Búnaðarbankans og engin ákvörðun um það tekin. Eftir að ég kom í stjórn Ræktunarsjóðsins hefir ekkert legið fyrir um þetta þar.

Annars er ég alveg sammála hv. þm. um útreikning hans, ef 9. gr. verður látin standa óbreytt, og þess vegna eru brtt. við 9. gr. fram komnar. Hitt verður að athuga betur, hvort nógu langt er gengið. Ég skal geta þess, út af því dæmi, sem hv. þm. tók, að þó að afgjaldið hrykki ekki fyrir afborgunum, er með afborgununum verið að safna eign, svo að ekki er eingöngu um vexti að ræða. Þess vegna er ekki sanngjarnt, að leiguliði bæði afborgi og greiði vexti.

Um það, hvort lánin hafi farið í ýmsa staði, sem þau áttu ekki að lenda í, skal ég ekkert segja, en stjórn byggingar- og landnámssjóðs hefir ekkert fyrir sér annað en það, sem heimtað er samkv. fyrirmælum laganna. Slík vottorð hafa alltaf legið fyrir, og við höfum ekki álitið, að við höfum haft leyfi til að vefengja skýrslur valinkunnra manna. Annars mætti auðvitað gera það að skilyrði, að hverri lánbeiðni fylgi útdráttur úr eignaskýrslu lántakanda. Ef svo er, að menn hafi fengið lán, sem hefðu getað byggt af eigin rammleik fyrir innstæðufé, hefir sjóðsstjórnin verið of auðtrúa gagnvart þeim, sem hún átti að trúa. Það verður þá að hafa einhverja aðra aðferð til að fá vottorðin.