12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í C-deild Alþingistíðinda. (1602)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Sigurðsson:

Það virðist ekki vera ágreiningur nema um einn lið þess frv., sem hér liggur fyrir, um það, hvort 4. gr. þess skuli niður felld eða ekki. Hv. þm. Mýr. og hæstv. dómsmrh. hafa nú mælt gegn því, að hún væri felld úr frv. Færðu þeir fram þau rök, að nauðsynlegt væri að koma upp fyrirmyndarbúum sem víðast, til að annast tilraunir og verklega kennslu; lagði hæstv. ráðh. aðaláherzluna á kennslu í fjárhirðingu. Sagði hann, að hvergi væri til staður á landinu, þar sem menn gætu komið og sagt, að þeir vildu læra fjárhirðingu. Þetta er mesti misskilningur. Það eru fleiri eða færri heimili í hverju héraði, sem mundu taka menn til að nema fjármennsku, ef nokkrir vildu læra hana. Og þau myndu eflaust veita betri fræðslu heldur en þó farið væri að tildra upp svokölluðum fyrirmyndarbúum. Reynslan hefir þegar nokkuð sýnt þetta. Ýmsir menn hafa sótt um að koma upp kynbótabúum; þeir hafa fengið meðmæli sýslunefnda og síðan fengið styrk frá Búnaðarfélagi Íslands. En hver hefir svo útkoman orðið? Hún hefir orðið sú, að víða er féð hjá þessum mönnum verra heldur en hjá bændunum í kring. Fyrirmyndarbú verða ekki til fyrir það, þó einhverjir komi og segist ætla að koma upp fyrirmyndarbúi. Fyrirmyndarbú eru til í hverjum fjórðungi, í hverri sýslu, hverjum hreppi á landinu. Þau eru sköpuð af framtaki og hagsýni einstakra ágætismanna, sem aldrei hafa styrks notið. Til slíkra manna er eitthvað að sækja fyrir þá ungu menn, sem vilja læra að búa. Þeir hafa sýnt það með dugnaði sínum og atorku, hverju hægt er að ná upp af hinum íslenzka jarðvegi, sýnt, að hægt er að komast lengra heldur en fjöldanum tekst að komast.

Ég álít alls enga tryggingu fyrir því, þó farið sé nú að veita einhverjum 4 mönnum byggingarstyrk, að hjá þeim rísi upp bú, sem skara fram úr. Og það reka engir fyrirmyndarbú með tómum byggingum. Þessa menn mundi vanta rekstrarfé. Og búpeningur þeirra gæti hrunið niður úr bráðapest eða önnur óhöpp hent þá, og þá væru byggingarnar til lítils gagns. Það er því fremur vit í 4. gr. frv. óbreyttri heldur en brtt. hv. þm. Mýr., því eftir henni hefði mátt halda „fyrirmyndarbúunum“ alveg uppi. En það var aftur brot á tilgangi sjóðsins og gegn anda þessara laga.

Af þessum ástæðum tel ég ekkert unnið við að samþykkja þessa lánsheimild handa bankastjórunum. Hinsvegar gæti Búnaðarfélagið stuðlað að því með litlum tilkostnaði, að menn geti fengið tilsögn í fjármennsku á góðum heimilum, og fengið þar þær fyrirmyndir, sem almenningi kæmu að beztum notum.

Ég býst við, að þá yrði leitað til þeirra, sem reka fyrirmyndarbú og hafa sýnt það í verkinu, að búrekstur þeirra sé til fyrirmyndar. Til slíkra bænda eiga menn alltaf erindi til að afla sér fræðslu, bæði um vinnubrögð, fjárrækt og jarðrækt. Það getur verið eins og hæstv. dómsmrh. sagði, að sitt lærist í hverjum staðnum, eitt í þessum og annað í hinum, og þá geta menn valið um. Með þessu fyrirkomulagi mundi það tvennt vinnast, að menn gætu lært af beztu bændunum, og það mundi kosta búnaðarfélögin mjög lítið fé. Svona vil ég að fyrirkomulagið sé, en ekki, að farið sé að reisa stórbú fyrir mikið fé. Afleiðingin af því yrði sú, að búnaðarfélögin og ríkissjóður yrðu nauðbeygð til að kosta allan rekstur búanna, hvernig sem hann gengi. Ég sé því fyrir minn part ekki ástæðu til að samþ. þessa till. út af fyrir sig af þessum ástæðum, sem ég tilgreindi.