12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í C-deild Alþingistíðinda. (1604)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Bjarni Ásgeirsson:

Ég get verið fáorður um þetta mál, því að hæstv. dómsmrh. hefir tekið ómakið af mér. Ég ætla aðeins að taka það fram, að þótt hv. 2. þm. Skagf. mælti kröftuglega á móti frv., þá voru það í sjálfu sér engin mótmæli, því að hann sýndi fram á, að til væru ýmis fyrirmyndarbú, þar sem ungir menn gætu lært margt sér til gagns. En mér virtist það ganga eins og rauður þráður í gegnum ræðu hans, að þessi bú, sem nú er verið að tala um að stofna, verði eitthvert ónýtt fálm út í loftið, sem aldrei geti orðið til gagns, og ef hann gengur út frá því, að það sé áreiðanlegt, að svo fari, þá get ég vel skilið, að hann skuli vera á móti frv. En nú skulum við hugsa okkur, að við leituðum uppi þessa góðu bændur, sem hafa sýnt það í verkinu, að þeir kunna að búa, og við vildum sjá og læra hjá honum, hve mikið hægt væri að bæta jörðina með góðum lánum, þá skil ég ekki, hvernig þessi bóndi gæti kennt það, enda þótt hann væri fyrirmyndarbóndi.

Ég vil ganga út frá því að óreyndu, að ef styrkur verður veittur til fyrirmyndarbúa, þá verði leitað að þeim mönnum, sem hafa sýnt það, að þeir kunna vel að búa, og þeir verði styrktir til að halda áfram að sýna það gegn því, að þeir kenni og leiðbeini ungum mönnum, sem til þeirra koma og óska eftir fræðslu. Það, sem ber hér á milli mín og hv. 2. þm. Skagf., er það, að hann hefir ekki trú á því eins og ég, að það muni takast að velja nógu góða menn, en ekki það, að hann sé í sjálfu sér óvinveittur málinu.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það þarf meira en byggingarnar einar. Þær eru einskis virði, ef enginn er bústofninn, en ég geri ráð fyrir, að ef þetta kemst til framkvæmda, þá verði þeir bændur valdir til þessara búa, sem gætu haft nógu mikinn og góðan bústofn.

Ég skal þá ekki orðlengja þetta meira. Ég býst við, að málið sé orðið það mikið rætt, að öllum sé orðið það nægilega ljóst.