27.03.1930
Neðri deild: 64. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

6. mál, sjómannalög

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þetta frv. er samið af sömu mönnum og ráðuneytið skipaði til þess að gera till. um breyt. á siglingalögunum. N. hefir haft hina sömu aðferð og tíðkazt hefir hér á landi um siglingalöggjöf, að taka til fyrirmyndar nýjustu löggjöf Norðurlanda og víkja í fáu þar frá. Það vill svo vel til, að Norðurlandalöggjöfin hefir nýlega verið endurskoðuð með tilliti til siglingalöggjafar annara þjóða, svo þetta má telja traustan grundvöll — enda ávallt nauðsynlegt að siglinga- og sjómannalög séu áþekk í nálægum löndum og höfum.

Þessi hv. d. samþ. 1928 að skora á stj. að breyta íslenzku siglingalögunum í samræmi við þessa nýju norðurlandalöggjöf. Nefndin hefir haft þá aðferð að skipta lögunum í tvo bálka, sjómannalög og siglingalög. Eru því tekin út úr siglingalögunum öll ákvæði, sem varða stöðu sjómanna á skipi.

Þetta frv., sem hér er borið fram, er um ráðningarsamning skipstjóra og skipverja, um rétt skipstjóra yfir öðrum skipsmönnum o. s. frv. Aftur eru önnur ákvæði um skipverja, sem helzt kunna að valda ágreiningi, ekki tekin upp í þessi lög, t. d. um hvíldartíma þeirra.

Sjútvn. hefir farið rækilega yfir frv. og borið það saman við núgildandi siglingalöggjöf á Íslandi og Norðurlöndum og hvernig breytt hefir verið til með tilliti til íslenzkra staðhátta. Skoðun sjútvn. er sú, að frv. sé vel og sanngjarnlega samið, og leggur til, að það verði samþ. með tveimur smábreyt., og er hvorug efnisbreyting. Brtt. n. eru á þskj. 298. Auk þess hefir hv. 2. þm. G.-K. borið fram nokkrar sértill., sem ekki komu fram fyrr en n. hafði skilað áliti sínu. N. hefir farið yfir þessar till. og tekið afstöðu til þeirra, og mun ég lýsa henni, þegar þm. hefir gert grein fyrir máli sínu.