27.03.1930
Neðri deild: 64. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

6. mál, sjómannalög

Sveinn Ólafsson:

Ég vil ekki tefja umr. að óþörfu, en verð að víkja örfáum orðum að hv. 2. þm. G.-K. Mér fannst honum ekki farast karlmannlega, þegar hann í ræðulok gafst upp við sitt áhuga- og stefnumál. Mér fannst það, ófyrirsynju gert af honum að gefa þessa yfirlýsingu, því að ekki datt mér í hug að hvarfla frá þeirri skoðun, sem ég áður hafði lýst um þessa hluti, né heldur, að hann mundi gera það. Hinsvegar ætla ég ekki í trássi við hann — þegar svona stendur á — að taka upp till. af nýju.

Ég skal kannast við það, að þegar ég lagði fram brtt. á þskj. 298 og óskaði þegar nál. var samið, að þær yrðu teknar upp, þá sást mér yfir þetta ákvæði um ábyrgð útgerðarmanns á farangri skipverja, sem í sjálfu sér er mjög óeðlileg; — ella hefði ég lagt til breyting á því. Ég er ekki óhræddur um, að þetta ákvæði, að skylda útgerðarmenn fortakslaust til að vátryggja eða greiða bætur fyrir muni sjómanna, sem glatast, megi misnota. Og þess vegna hefi ég á undanförnum tveimur þingum verið á móti að lögbjóða slíka tryggingu. Ég held, að það sé ekki rétt hjá hv. þm., að þetta frv., um tryggingu á fatnaði sjómanna, hafi verið fellt. (ÓTh: Því var vísað til stj.). — Það getur verið; en ég hygg þó helzt, að það hafi dagað uppi. Þetta tryggingarákvæði fyrir skipverja má misnota á þann hátt, að skjóta undir það þeim verðmætum, sem aldrei hafa verið til, þegar skipreika ber að höndum og krefjast bóta fyrir þau. Að öðru leyti er ekki ástæða til að deila um þetta. Ég get unað við frv. með þeim brtt., sem eru á þskj. 298 og 322, þótt ekki sé mér grunlaust um misnotkun þessa tryggingarákvæðis.