06.03.1930
Neðri deild: 45. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Pétur Ottesen:

Það er nú þegar komið í ljós, sem bent var á við 1. umr. þessa máls, að frv., sem mþn. í landbúnaðarmálum samdi um eyðing refa og refarækt, er að ýmsu leyti mjög ábótavant. Meðferð n., sem fékk frv. til meðferðar, sýnir þetta mjög vel, því hún leggur til, að svo margar breyt. verði gerðar á því, að ekki stendur steinn yfir steini, ef svo má að orði kveða, í hinu upphaflega frv., ef þær verða allar samþ. Í fyrri kaflanum er næstum því ekkert atriði óbreytt eftir till. n. og við síðari kaflann er einnig mörgu hreytt. Enda var það strax augljóst, að í frv. vantaði skýr ákvæði um ýms framkvæmdaratriði þessa máls, sem nauðsynlegt er að hafa í lögunum. Þó gert sé ráð fyrir, að reglugerð, byggð á lögunum, sé gefin út, þarf óhjákvæmilega að taka ýmislegt nánar fram heldur en gert var í þessu stjfrv. Ég er hv. landbn. þakklátur fyrir þá miklu viðleitni, sem hún hefir sýnt til þess að ganga svo frá þessu máli, að við það megi hlíta. Þannig hefir hún t. d. gert nánari skilgreining á því, hverjir það eru, sem standa eiga fyrir framkvæmdum refavinnslunnar. Stjfrv. gerir aðeins ráð fyrir, að hreppsnefndir annist framkvæmdirnar undir yfirstjórn sýslunefnda. En hliðstætt verksvið þessu er umsjón smalamennskunnar á haustin. Og í brtt. n. er það tekið fram, að þar sem fleiri hreppar eiga afrétt saman, skuli sá félagsskapur setja menn til að annast framkvæmdirnar. En n. hefir gleymt einum aðila, nefnilega þeim hreppum, sem eiga sameiginlegan fjallskilasjóð, en ekki sameiginlegar afréttir. Ég hefi því gert þá eðlilegu brtt. við brtt. n., að þessum aðila sé bætt inn í frv. og að þar, sem svo stendur á, skuli sameiginlegur fjallskilafundur ráðstafa framkvæmdum. Margar af brtt. mínum miða einungis að því að samræma orðalag frv. á öðrum stöðum við þessa leiðréttingu, og býst ég við, að hv. landbn. geti fyllilega fallizt á að taka þær til greina. Að hún tók þetta ekki upp sjálf, hlýtur að stafa af því, að henni hafi ekki verið kunnugt um neina slíka staðhætti, sem þessar brtt. mínar byggjast á.

Þá er gert ráð fyrir í brtt. n., að þegar greni vinnast í heimahögum einhverrar jarðar, þá skuli landeigandi og ábúandi jarðarinnar í félagi njóta nokkurs hagnaðar af því, ef annars um nokkurn hagnað af grenjavinnslunni er að ræða. Nú tók hv. frsm., fram í gær, að þetta næði ekki til þeirra heimalanda, sem notuð væru sem afréttir. Mér finnst því vanta skilgreiningu á því í frv., hvaða heimalönd njóta þessa hagnaðar og hver eiga að teljast afréttir. Ég hefi gert þá brtt., að um þetta efni fari eftir skilgreiningu fjallskilareglugerðar í hverri sýslu; eru þá þau lönd, sem menn smala sameiginlega, talin afrétt, en þau, sem eigandi á einn að sjá um smölun á, eigi. Það er auðvitað nauðsynlegt að fyrirbyggja, að nokkur misskilningur verði á lögunum, þegar til framkvæmda kemur. Mér hefir verið bent á, að brtt. mín væri einu sinni ekki nógu skýr, og getur það vel verið; en það má þá athuga betur fyrir 3. umr.

Þarf ég svo ekki fleira að taka fram viðvíkjandi brtt. mínum við fyrri kafla frv.

Þá er brtt. mín við 9. brtt. n., sem er við 8. gr. frv. Í brtt. n. er mælt svo fyrir, að sýslunefndum sé heimilt að setja með reglugerð, sem atvmrn. staðfestir, nánari reglur um „grenjaleitir, grenjavinnslu og kaupgreiðslu til skotmanna o. fl.“. Ég hefi lagt til, að í staðinn fyrir „o. fl.“ komi: „og annað, er lýtur að eyðingu refa“. Mér finnst það skýrara heldur en að hafa aðeins þessa skammstöfun á eftir upptalningunni.

Í 10. brtt. n. er gert svo ráð fyrir, að hver, sem ætlar að setja upp refaræktarbú, verði fyrst að fá samþykki sýslunefndar. Það er nú raunar vafasamt, hvort þetta verður heppilegt í framkvæmdinni. Þar sem sýslunefndir hafa aðeins einn fund á ári, getur orðið vandkvæðum bundið fyrir þá, sem eru að brjótast í að koma upp refaræktarbúi, að fá samþykki hennar. Nema þetta yrði þá svo í framkvæmdinni, að sýslumennirnir veittu þetta leyfi fyrir hönd n., eða upp á væntanlegt samþykki hennar síðar, eins og stundum er gert undir svipuðum kringumstæðum.

Í sambandi við þetta ákvæði er gerð skilgreining á, hvað telja skuli refaræktarbú, með svo hljóðandi orðum: „Það telst refaræktarbú, þar sem refir eru aldir árlangt, hvort sem fleiri eru eða færri“. Þarna legg ég til,. að bætt verði við: „en hitt refaeldi, þar sem refir eru aldir skemmri tíma“. Er það aðeins til skýringar.

Ég býst við, að það ákvæði í sömu brtt. n. að sá, sem sækir um leyfi til að koma upp refaræktarbúi, skuli láta fylgja umsókninni vottorð um, að hann hafi þá þekkingu, sem til starfrækslu búsins þarf, sé fremur þýðingarlítið.

Má gera ráð fyrir, að sýslunefndarmenn hafi yfirleitt litla aðstöðu til að dæma um gildi slíkra vottorða. Þó skaðar þetta ákvæði svo sem ekkert.

Í 13. brtt. n. er gert ráð fyrir, að atvmrn. setji reglugerð um öryggi refagirðinga. En um önnur atriði frv. er sýslunefndum ætlað að setja reglugerð. Mér finnst þetta óþarfa tvískipting; ég held, að ekkert betur sé gengið frá öryggishlið þessa máls, þó atvmrn. sé falið að gera reglugerð um þetta atriði heldur en að sýslunefndirnar gerðu það, enda hafa þær fremur aðstöðu til að sjá um að reglunum sé fylgt. En þetta skiptir auðvitað ekki miklu máli.

Ég hefi hlaupið yfir að geta um 11. brtt. n. og ætla því að drepa á hana nú. Hún mælir svo fyrir, að öll refaræktarbú og einnig annað refaeldi skuli háð eftirliti dýralæknis. Ég hefi gert þá brtt. við þetta, að refaeldi skuli undanskilið dýralækniseftirlitinu. Þar sem ekki er talið til refaeldis annað en það, þegar refir eru aldir mjög stuttan tíma í einu, þá finnst mér óþarflega strangt að leggja þar á þann mikla kostnað, sem dýralækniseftirlit hefir í för með sér víða á landi, sökum þess hvað dýralæknar eru óvíða. Aftur á móti tel ég sjálfsagt, að þar, sem refaræktarbú er starfrækt árið um kring, sé dýralækniseftirlitið gert að skyldu, enda er þar oftast að ræða um svo mikla fjárveltu, að minna munar um kostnaðinn af því.

Þá er komið að síðustu brtt. minni, sem er þess efnis, að feila skuli burt ákvæði 14. brtt. n. um það, að ekki megi flytja út yrðlinga fyrr en 20. september. Ég get ekki fallizt á, að það ákvæði sé nauðsynlegt, eða það hafi neina þjóðhagslega þýðingu, eins og hv. frsm. vildi halda fram. En það mundi vitanlega útiloka þá samkeppni, sem verið hefir nú síðustu árin um kaup á yrðlingum, því refaræktarbú eru fá hér innanlands og því ekki hægt að gera ráð fyrir mikilli samkeppni milli þeirra. En einmitt vegna samkeppninnar og sölu yrðlinganna til útlanda er nú grenjavinnslan orðin eftirsóttur gróðavegur. Þess vegna má ekki útiloka þessa samkeppni.

Hv. frsm. hélt því fram, og n. gerir það líka í nál. sínu, að meira muni á verði yrðlinganna, hvort þeir eru seldir á vorin eða haustin, heldur en sem svarar kostnaði við eldi þeirra og að þess vegna eigi ekki að selja þá fyrr en á haustin. Ég veit nú ekki, hvaðan hún hefir upplýsingar um þetta, eða á hverju hún byggir álit sitt. Hún hefir e. t. v. heyrt eigendur refaræktarbúanna hér, sem róa að því öllum árum að útiloka samkeppnina um yrðlingakaupin, halda þessu fram. Verður þá ekki mikið úr sannanagildi þess, ef hún byggir eingöngu á umsögn þeirra. Eða kannske hún geti sýnt fram á þetta reikningslega? Ef hún getur lagt sannanir fyrir þessum ummælum sínum á borðið, verður auðvitað að taka það til athugunar, en komi ekki í ljós annar grundvöllur fyrir þeim en „agitation“ refaræktarmanna, þá verður að beita þau fyllstu gagnrýni. (EJ: Slík „agitation“ hafði engin áhrif á n.). Ég vil benda á það, að meiri kostnaður er við yrðlingana til hausts en það, sem eldið sjálft kostar; það þarf eftir kröfum þessa frv. að koma upp dýrum girðingum. Ég byggi brtt. mína á þeirri reynslu undanfarandi ára, að samkeppnin hefir skapað mjög hátt verð á yrðlingum, og ég vil ekki útiloka áhrif hennar á verðið, í óvissu um, hvað við tekur.

Hv. frsm. var að tala um það í gær, að gæði dýranna, sem út eru flutt, væru mjög misjöfn og að Norðmenn misnotuðu það þannig, að þeir teldu betri dýrin af grænlenzkum stofni, en hin af íslenzkum. En nú hefir hv. n. tekið upp í brtt. sínar það ákvæði, að ekki megi flytja út neina refi nema eftir nákvæma dýralæknisskoðun. Og það hefir maður, sem er nákunnugur þessum efnum, sagt mér, að það mætti sjá það á yrðlingum mjög ungum, hvort þeir muni gefa af sér góð skinn eða ekki. Svo framarlega að dýralæknisvottorð hafi nokkra þýðingu — og n. gengur út frá því —, má þess vegna jafnt byggja á þeim, hvort sem um eldri eða yngri dýr er að ræða. Ég vil því skora á hv. þd.samþ. brtt. mína um að fella niður úr brtt. n. þetta ákvæði, að ekki megi flytja út yrðlinga fyrr en eftir 20. september; það er mikið hagsmunaatriði fyrir þá, sem vinna að grenjavinnslu, hvort þeir geta selt yrðlingana í frjálsri samkeppni eða ekki.

Ég sé ekki ástæðu til, fyrr en útséð er um afdrif þessarar brtt. minnar, að benda rækilega á það ósamræmi, sem er á milli 8. og 14. brtt. hv. n., eins og hún hefir gengið frá þeim.

Í 8. brtt. er ákveðið, að hreppsnefndir og aðrir, sem sjá eiga um framkvæmdir við refaeyðingar, skuli leggja sundurliðaðan reikning yfir tekjur og kostnað við refaeyðinguna fyrir fjallskilafund, sem haldinn er í september á haustin. En aftur á móti ef 14. brtt. er samþ. óbreytt, munu margir neyðast til að koma upp refagirðingu og geyma yrðlingana sjálfir fram yfir 20. september, en þá er vitanlega ómögulegt fyrir þá að gera reikningsskil á fjallskilafundi, sem oftast er fyrr heldur en hægt yrði þá að selja refina.

Annars hefir, þar sem mér er kunnugt um, verið venja, að refareikningar hafa verið lagðir fram með fjallskilasjóðsreikningum á sýslufundum, og þeim, sem hefir verið falið að endurskoða hreppareikningana og fjallskilasjóðsreikningana, hefir líka verið falið að endurskoða refaveiðakostnað, og ég sé enga ástæðu til að víkja frá því. En verði till. mín samþ. og þessi liður falli niður, er þetta vitanlega framkvæmanlegt hjá þeim, sem selja yrðlinga skömmu eftir að grenin eru unnin. Að öðru leyti stangast þetta í till. nefndarinnar.

Ég ætla ekki að tala meira um brtt. mínar. Ég vænti þess, að hv. d., eða þeir af hv. dm., sem annars fallast á brtt. n., geti líka greitt mínum brtt. atkv., þar sem þær eru aðeins tilraun til að færa í betra horf og taka upp nauðsynleg ákvæði í frv., sem hv. n. hefir sézt yfir.