18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Pétur Ottesen:

Ég á hér eina litla brtt. við 17. gr. frv., en í þeirri gr. er bannað að flytja út yrðlinga fyrir 20. sept. á haustin. Vil ég, að því sé bætt við, að atvmrh. geti veitt undanþágu frá þessu ákvæði, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Ég hefi nú nokkuð oft í umr. um þetta mál tekið það fram, hvaðan ákvæði frv. um þetta atriði eru runnin, að hverju þau stefna og hverjar afleiðingar geti orðið af samþykkt þeirra. Fyrst ekki tókst að fella þessi óeðlilegu þvingunarákvæði alveg úr frv., finnst mér ekki mega minna vera en að atvmrh. hafi leyfi til að veita undanþágu frá þeim. Og á það vil ég leggja áherzlu, að nái brtt. mín fram að ganga, ætlazt ég til, að atvmrh. beiti heimildinni, sem honum er fengin, ef honum eru færðar kannanir fyrir því, að það verði til að lækka verðið á yrðlingunum, að heimildin sé látin ónotuð. Ég fer ekki fleiri orðum um þessa brtt. Mér finnst sjálfsagt; að hún verði samþ. Ég sé ekki, að neinn hv. þdm. geti haft neitt á móti henni og yfirleitt enginn, nema eigendur refabúanna.

Út af brtt. hv. landbn. við 6. gr. vil ég segja nokkur orð. Hv. n. sýnist ætlast til þess, að það komi skýrt fram, að landeigandi og ábúandi geti því aðeins vænzt nokkurs ágóða af yrðlingum, sem teknir eru í landi þeirra, að hreppsnefndin eigi jafnframt rétt til slíks ágóðahlutar. Ég býst við, að margur landeigandi reki upp stór augu yfir því, að í frv. þessu er öðrum þræði viðurkenndur eignarréttur hans á yrðlingum, sem í landi hans eru teknir, en hitt veifið er sá réttur að engu metinn. Hreppsnefndum er sem sé heimilt að semja svo um við refavinnslumann, að hann fái allan gróða af refavinnslunni, og mundi landeigandi þá ekkert fá í sinn hlut. Ég býst nú við, að margur mundi freista að fara í mál, áður en hann léti hlut sinn á þann hátt, og brtt. hv. landbn. er engan veginn svo skýrt orðuð, að slíkt mál væri vonlaust.

Hv. n. hefir ekki tekið til greina þann árekstur, sem ég benti á að væri milli 9. og 17. gr. um það, hvenær fyrst má flytja út yrðlinga og hvenær reikningar hreppsnefnda um refavinnslu eigi að vera tilbúnir. Ef hreppsnefndirnar hafa refabú sjálfar, er það augljóst mál, að reikningarnir geta ekki verið tilbúnir þegar til er tekið. Ég er satt að segja alveg hissa á hv. n. að vilja halda í þetta óeðlilega ákvæði. Ástæðunnar er líklega helzt að leita í þeirri skoðun einstakra nm., að engir aðrir en n. megi segja orð um þetta frv.