09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

238. mál, útvarp

Pétur Ottesen:

Hv. 1. þm. Skagf. hefir bent á, að þetta frv. riði algerlega í bág við þá stefnu, sem tekin var upp á þinginu í fyrra um sameining pósts og síma. Og það kemur líka gersamlega í bág við þá stefnu, er ríkti um útvarpsmálið 1928. Ég vil benda á atriði, er að þessu lúta í grg. frv. 1928. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin gerir ráð fyrir, að landssímastjórnin annist rekstur stöðvarinnar og eftirlit, reikningshald, innheimtu á gjöldum og greiðslur. Verði þetta einungis fært viðvarpinu til reiknings, að svo miklu leyti sem það hefir í för með sér aukið mannahald eða aukinn kostnað fyrir landssímann. Yrði að halda fjárhag og reikningsfærslu viðvarpsstöðvarinnar alveg út af fyrir sig, og ekki blanda því á neinn hátt saman við fjárhag landssímans“.

Á þessu verður ekki villzt. Og enn skýrara kemur þetta þó fram í umr. um málið og nál. um það 1928. Í nál. allshn. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefir athugað þetta frv. allítarlega og er öll sammála um, að nauðsyn beri til, að þing og stjórn styðji að því, að útvarpsstarfseminni verði haldið áfram hér á landi og að stefna beri að því, að ríkið taki rekstur útvarpsins í sínar hendur með tilstyrk landssímans“.

Undir þetta nál. skrifa: 2. þm. Rang., 2. þm. Reykv., þm. Barð., 1. þm. Skagf. og 2. þm. Eyf. Í umr. um málið sést, að mikil áherzla hefir verið á það lögð, að útvarpið bæri að taka í hendur ríkisins og með tilstyrk landssímans.

Í áliti því, sem landssímastjóri hefir sent frá sér, er þetta ekki eingöngu talið hagkvæmara fyrirkomulag, heldur talið beinlínis nauðsynlegt, að þessar tvær stofnanir séu undir einni stjórn. Í áliti sínu, sem er fskj. III. á þskj. 415, segir landssímastjóri, með leyfi hæstv. forseta:

„Allt öðru máli gegnir um umsjón útvarpstækjanna, og er það skoðun mín, að ekki sé mögulegt, ef vel á að fara, að aðskilja verkfræðilega yfirstjórn loftskeytastöðva og útvarpsstöðva, enda mun það fyrirkomulag hvergi þekkjast í heiminum, ekki einu sinni þar, sem útvarpið er rekið af einkafélögum, því jafnvel þar, sem lengst er gengið, er verkfræðileg yfirstjórn útvarps og loftskeytatækja í landinu undir sama embættismanni, þótt þeir starfsmenn, er annast daglega reksturinn, séu ráðnir og launaðir af einkafélögum“.

Hér fer því mjög saman verkfræðileg aðstoð og hagkvæmt fyrirkomulag fjárhagslega séð, að sjálfsagt sýnist að hafa þetta undir sama hatti og nota þá krafta, sem fyrir hendi eru á landssímanum. Á þetta voru menn líka sáttir á þinginu 1928. Eru því einkennileg þau skoðanaskipti, sem hafa orðið síðan og fram kom í atkvgr. á mánudaginn var, eftir því sem ég hefi heyrt, en ég var þá fjarstaddur. Og ég hefi lesið vandlega grg. frv. og nál. og ég sé þar ekkert, sem réttlætir þessi skoðanaskipti, sem orðið hafa á svo skömmum tíma. Ég skal ekki fara út í einstök atriði frv., enda á það ekki við í 3. umr. málsins. En út af orðum hæstv. forsrh., þar sem hann sagði, að einkasala á tækjum mundi gefa arð, sem gengi upp í kostnaðinn, skal ég benda á, að það kemur algerlega í bága við umsögn landssímastjóra, sem hafði góð tök á að kynna sér þetta. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel ríkiseinkasöluna ekki heppilegustu leiðina, eins og stendur, til að tryggja notendum góð og ódýr tæki og álít það mjög vafasamt, hvort ríkið hefði nokkurn ágóða af einkasölu á þeim, nema með því að selja þau dýrara en nú er, en þá væri umsvifa- og áhættuminna að láta sölumenn greiða ákveðið gjald af hverju tæki“.

Ég hefi fulla ástæðu til að leggja mikið upp úr ummælum landssímastjóra, þar sem hann hefir haft sérstaka hvöt til að kynna sér þetta mál. Er því augljóst, að enginn hagur verður á einkasölunni. Er því þessi stefnubreyt. þeim mun einkennilegri, þar sem sýnt er, að bæði skipulagsbreytingin og einkasalan verða ekki til hagnaðar, né gera starfræksluna betri. Þá sé ég enga nauðsyn bera til vegna annara breyt., að frv. þetta gangi fram, og mun ég greiða atkv. móti því.