01.02.1930
Efri deild: 11. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

34. mál, landhelgisgæsla

Jón Þorláksson:

Því fer fjarri, að búið hafi verið að semja um sjóðþurrð Karls Einarssonar, þegar stjórnarskiptin urðu, og að sé enn klappað og klárt með þá skuld. Það þarf ekki annað en að líta á LR. til að sjá, að svo er ekki. Ég hefi ekki hjá mér tölurnar, en mig minnir, að skuldin sé eitthvað ofan við 70 þús. kr., fremur en fyrir neðan.

Að mér sé kunnugt um annan sýslumann, sem skipaður hafi verið í embætti í minni tíð og líkt staðið á fyrir, minnist ég ekki. Ég minnist heldur ekki, að neinn maður hafi hjá fyrirrennurunum fengið embætti, sem hefir skilið þannig við, að ríkið hafi tapað stórfé á embættisfærslu hans. En það er ómótmælanlegt, að þannig skildi Karl Einarsson við. Og þó að hann sé vinsæll maður, eins og undirskriftarskjalið bendir til, þá ber það þó vott um lágt siðferðisþrek hjá þeirri stj., sem ákveður slíkum manni eftirlaun og notar hann sem dómara yfir öðrum landsmönnum, eins og ekkert hefði í skorizt.