15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

34. mál, landhelgisgæsla

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég skal strax taka það fram, að ég er sammála hv. frsm. minni hl. í þessu máli og fellst á þau rök, sem hann hefir fært fyrir því. Vil ég sérstaklega undirstrika það, sem hann drap á, að það er alls ekki svo, að þeir menn, sem mest hafa hugsað og athugað um landhelgismálin, séu alveg sammála um það, að sjálfsagt sé að hlaupa nú í að kaupa nýtt skip. Þeir líta margir svo á, að happadrýgra verði að vernda landhelgina með smærri bátum á ýmsum svæðum kringum landið.

Það er ekki svo að skilja, að ég vilji andmæla því, að landhelgisgæzlan sé í sem beztu lagi. En mér virðist hinsvegar bera nauðsyn til, að þetta mál sé athugað sérstaklega í samráði við þá menn, sem mesta hafa reynslu í því, en það eru að sjálfsögðu skipstjórarnir á okkar varðskipum.

En það var ekki þessi hlið málsins, sem ég ætlaði sérstaklega að minnast á, heldur sú staðreynd, að aukning landhelgisgæzlunnar hlýtur óhjákvæmilega að auka mjög útgjöld ríkissjóðsins. Í frv. er gert ráð fyrir, að varið verði fé úr landhelgissjóði til að kaupa eða byggja nýtt skip. Þetta rýrir að vísu aðeins landhelgissjóð, en ekki ríkissjóð, en gerir það að verkum jafnframt, að landhelgissjóður er því ófærari um að styrkja rekstur strandvarnarskipanna. Rekstur skipanna hlýtur að verða mjög þung kvöð á ríkissjóði. Það má gera ráð fyrir, að þau tvö skip, sem við höfum nú, kosti 280 þús. kr. hvort um sig í rekstri yfir árið. Og ef þriðja skipið bætist við, hygg ég, að verði mjög svipaður kostnaður við það. Þá yrði þetta samtals um 840 þús. kr. En samt sem áður yrði tæplega hægt að komast af nema leggja eitthvert fé til smærri báta til landhelgisvarna. Og þá fer nú að verða skammt upp í milljónina. Nú þegar búið er að rýra landhelgissjóðinn, verður hann auðvitað ófærari um nokkuð verulega aukin útgjöld til árlegs rekstrar. Auk þess má búast við, að því öruggari sem landhelgisgæzlan er, því minni verði þær sektir, sem í sjóðinn renna. Þá hlýtur byrðin að koma að mestu leyti niður á ríkissjóði.

Ég skal nú ekkert um segja, nema talin verði þörf á 3. skipinu í viðbót áður langt líður. En mér finnst aðeins, að ekki liggi fyrir full sönnun um það, að slíkt sé nauðsynlegt nú. Og ef að því kæmi að kaupa strandgæzluskip, þá er kostnaður við útgerðina svo mikill, að ég sé ekki, að hjá því verði komizt að útvega ríkissjóði fastan tekjustofn til að standast þann kostnað að meira eða minna leyti. Að sönnu er það svo, að nokkuð af útflutningsgjaldinu er beinlínis ætlað í þessar þarfir. En ég geri ráð fyrir, að það verði að auka við það, ef hækka á framlag ríkissjóðs til strandvarna.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi drepa á; fyrst og fremst, að ég tel miklu réttara, að þetta mál verði athugað og undirbúið, en ekki hrapað að því að kaupa skip. Og í öðru lagi, ef sú verður niðurstaðan, að ráðizt verður í þær framkvæmdir og kostnað, sem af þeim leiðir, þá sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að ríkissjóður fái auknar tekjur.