15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

34. mál, landhelgisgæsla

Jón Þorláksson:

Mér finnst fjárhagshlið þessa máls ekki hafa verið nógu vel skýrð, þar sem því er haldið fram, að þetta muni auka ríkissjóði veruleg útgjöld, og það fært sem ástæða gegn frv. og því, að ákvörðun verði tekin um það að svo stöddu.

Ég er hinsvegar á annari skoðun í því efni, sökum þess, að sannleikurinn er nú sá, að ríkissjóður hefir ekki þurft að hafa nein veruleg útgjöld vegna strandgæzlunnar. Beinn kostnaður fyrir ríkið vegna strandgæzlunnar hefir því verið 31 þús. kr., og getur það ekki talizt gífurleg upphæð.

Við athugun þessa máls kemur og tvennt til greina, sem menn verða að hafa hugfast. Útflutningurinn hefir undanfarin ár ávallt farið vaxandi, og annað er ekki sjáanlegt en að svo muni verða í framtíðinni, ef engin sérstök óhöpp steðja að. Hitt atriðið er það, að árið 1925 var ekkert aukagjald lagt á síld, og ástæðan var sú, að mönnum þótti útflutningsgjaldið orðið svo hátt, að ekki væru leggjandi þyngri byrðar á þessa vöru. En þótt gjaldið væri ekki hækkað þá, þá stafaði það beinlínis af því, að menn álitu þess enga þörf vegna ríkissjóðs, en auðvitað er ekkert eðlilegra en að síldarútvegurinn taki sinn þátt í kostnaðinum, sem af strandvörnunum leiðir.

Ég hygg því, að engin ástæða sé til að kvarta mjög undan því, að rekstur varðskipanna hvíli með meiri þunga á ríkissjóði heldur en ýmislegt annað. Í frv. þessu er gert ráð fyrir, að varðskipin verði þrjú auk Þórs, sem nú er liðinn undir lok, eða að eitt nýtt skip verði keypt til viðbótar við hin, sem þegar eru fyrir, og gert er ráð fyrir, að kostnaðurinn við reksturinn verði 300 þús. kr. úr ríkissjóði og 300 þús. úr landhelgissjóði.

Ég verð nú að segja, að meðan kostnaðurinn er ekki meiri en það, þá verð ég að álíta, að ríkissjóður reisi sér ekki hurðarás um öxl, enda er því fé vel varið, sem fer til strandgæzlunnar. Hinsvegar geng ég þess ekki dulinn, að gæzlan við Vestmannaeyjar verður aldrei af hendi leyst nema með auknum skipastól, og sé ég því ekki ástæðu til að snúast gegn þessu frv., en mun ljá því fylgi mitt nú þegar.