15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

34. mál, landhelgisgæsla

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi ekki miklu að svara hv. frsm. meiri hl. Hann gat þess, að ekki væri hægt fyrir ríkið að hafa gæzlu á hendi við Vestmannaeyjar með þeim skipakosti, sem það hefir nú. Þetta tel ég einnig vandkvæðum bundið, en hinsvegar mun reynslan koma til að sýna, hvort svo er.

Hv. frsm. sagði, að kostnaðurinn við strandgæzluna yrði ekki tilfinnanlegur fyrir ríkissjóð, en ég hygg, að reynsla undanfarinna ára afsanni þau orð hans.

Hv. frsm. vildi halda því fram, að til landhelgisgæzlunnar þyrfti stór skip, sem gætu staðið af sér öll veður, en ég lít svo á, að betra sé að hafa skipin fleiri, smærri og staðbundnari. Hinsvegar geng ég auðvitað inn á það, að til þess að landhelgisgæzlan geti verið í góðu lagi, þurfi að auka skipastólinn, en um allt land eru uppi raddir um það, að notuð séu smærri skip.

Hvað því viðvíkur, sem hv. frsm. vék að fiskirannsóknum, þá er það auðvitað nauðsynjamál, að þær verði gerðar, en annars hygg ég, að við, sem á þingi sitjum, höfum ekki nægilegt vit á þeim hlutum eða hvernig þeim verði bezt fyrir komið. Þó verð ég nú að segja það, að mér virðist, sem það hljóti að mega gera slíkar rannsóknir á smáum skipum, engu síður en hinum, sem stærri eru.

Ég vil ekki leggja neinn stein í götu þessa máls, og mun ekki leggja á móti því, að tæki til þessara hluta verði höfð um borð, og maður, sem væri þess fær að framkvæma rannsóknirnar.

Þá lét hv. 3. landsk. sitt fjárhagslega ljós skína í þessu máli og vildi halda því fram, að aukin landhelgisgæzla hefði ekki mikinn kostnað í för með sér fyrir ríkið. Ég verð að segja það, að ég verð að álíta það gleðilega breytingu, sem hans sálarástand hefir tekið frá því 1924, því að þá man ég ekki betur en að við í Framsóknarflokknum yrðum æðimikið fyrir því að hafa að fá því framgengt, að ríkið tæki Þór og héldi honum úti til strandgæzlu. Ég skal að engu leyti lasta þessa breyt., en vil aðeins geta þess, að von mín er sú, að hv. 3. landsk. verði betri talsmaður landhelgisgæzlunnar en hann var 1924, hvort sem hann í framtíðinni verður sjálfur í stjórn eða stuðningsmaður stjórnar.