12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

34. mál, landhelgisgæsla

Hákon Kristófersson:

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir undirtektir hans, sem mér komu reyndar ekki á óvart. En ef hann heldur, að ég hafi verið að stinga eitthvað að sér í þessu máli, þá er það mesti misskilningur, þótt hinsvegar væri ekki laust við, að hann byggist við því.

Ég geng fastlega út frá því, að engin brtt. verði að þessu sinni samþ. við frv., því að það væri ekki gert í öðrum tilgangi en til að málið gengi ekki fram, svo fremi að komið er að þingslitum.

Hæstv. ráðh. minntist á, hver aðstaða stuðningsmanna frv. yrði að veratiltekjuauka. Mér þykir þetta bera vott um fyrirhyggju, sem við getum virt, og ég mundi alls ekki standa á móti slíku, ef ég væri þá fyrirfram viss um, að hafizt yrði handa strax.

Hinsvegar býst ég við, með tilliti til undanfarinnar reynslu, að ef gætt væri alls sparnaðar á öðrum sviðum betur en verið hefir að ýmsu leyti, þá mundi það vega nokkuð upp í skipakaupin. En það er réttilega tekið fram hjá hæstv. ráðh., að það er rekstrarféð, sem mestu máli skiptir. En ef skipið verður útbúið með botnvörpu, þá er ekki fyrir synjað, að það sæti aflað einhvers, sem kæmi þá upp í útgerðarkostnaðinn, þó að hinsvegar sé vafasamt að gera ráð fyrir slíkum tekjum, ef skipið á að annast bæði landhelgisgæzlu, sjómælingar og björgun.

Ég ætla svo ekki að segja meira um þetta mál, en vil endurtaka þakklæti mitt til hæstv. ráðh., því að ég veit, að þar fylgir hugur máli.