25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Ólafur Thors:

Það hryggir mig, að þetta skyldi ekki vera mismæli hæstv. fjmrh. En ég skal bæta því við það, sem ég sagði áðan, að í síðastl. nóvembermán. var ég sjálfur staddur í London og leitaði þar eftir láni hjá tveimur bönkum, til handa vel stæðu en ekki stóru íslenzku félagi, og lánskjörin voru lægst 5%, án veðsetningar, en þó skyldu vextirnir ekki vera lægri en í Englandsbanka. Lánsupphæðin var að vísu ekki sérlega há, en þó get ég ekki neitað því, að mér finnst það til minnkunar fyrir ríkið, ef það þarf að taka lán með 1½% hærri vöxtum en einstaklingar geta fengið. Ég geri ráð fyrir, að þessu frv. verði vísað til fjhn., og þar á ég sæti og fæ þá tækifæri til að tala við hæstv. fjmrh. um þetta mál. Ég ætla því ekki að deila um það nú á þessu stigi.