12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (3363)

466. mál, frestun á fundum Alþingis

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þess gerist ekki þörf að hafa mörg orð viðvíkjandi þessari till., en það liggur í augum uppi, að það þarf að taka ákvörðun um það, áður en störfum verður hætt eða lokið á þessu þingi, hvaða fyrirkomulag á að hafa viðvíkjandi þinghaldi á Þingvöllum í júnímánuði næstk.

Það hefir verið töluvert skrafað um þetta bæði í hátíðarnefndinni og víðar, og ég hefi átt tal um það við menn úr öðrum stjórnmálaflokkum en mínum. En þótt allir séu ekki sammála um það, þá hygg ég, að flestir hafi hallazt að þeirri skoðun, að þetta myndi verða einfaldasta og óbrotnasta leiðin, að slíta ekki þinginu nú, heldur fresta því þar til það hefst að nýju á Þingvöllum hinn 26. júní næstk.

Ég vil ekki fara að telja upp allar þær ástæður, sem mæla með þessari aðferð. Sumar þeirra, eru þannig vaxnar, að ekki er rétt að draga þær inn í umr.; aðeins vil ég benda á það, að á Þingvöllum eru engin húsakynni, og ef ætti að setja þar þingið, kjósa forseta og skrifara og framkvæma aðrar kosningar, sem fara fram á reglulegu þingi, þá gæti verið mjög óþægilegt að láta það fara fram þar.

En hinsvegar hefir konungur ekki leyfi til að fresta fundum á Alþingi lengur en tvær vikur, nema samþykki Alþingis. komi til. Af þeirri ástæðu er þessi till. borin fram, til að fá samþykki meiri hl. Alþingis.

Ég sé svo enga ástæðu til að fjölyrða um málið og geri ráð fyrir að þurfa ekki að lengja mikið umr., en mér þykir þetta einfaldasta leiðin til lausnar þessu máli.