27.06.1930
Sameinað þing: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (3468)

589. mál, milliríkjasamningar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ennþá einn merkur atburður hefir borið við á þessum söguhelga stað, og vorum við öll, sem hér erum stödd, þingheimur og aðrir, vottar þess, að undirritaðir voru hér að Lögbergi gerðardómssamningar milli Íslands annarsvegar og frændþjóðanna fjögurra á Norðurlöndum hinsvegar, og eru þeir samningar nú lagðir undir samþykki hins háa Alþingis.

Það varð að samkomulagi með þingheimi öllum, að það mál, sem fengi afgreiðslu í þetta sinn, væri sú þáltill., sem hér liggur fyrir. Í raun réttri eru þetta 4 mál, samþykkt á 4 samningum milli Íslands annarsvegar og hinsvegar Norðurlandaþjóðanna fjögurra.

Forsaga þessa máls á Alþingi er sú, að 1927 komu allir flokkar þingsins sér saman um að bera fram þáltill. um það, að skora á landsstj. að leita slíkra gerðardómssamninga við Norðurlandaþjóðirnar. Stóð svo á, að þær höfðu gert eða voru að gera með sér slíka samninga, og þótti fara vel á, að íslenzka þjóðin tæki og sinn sjálfstæða þátt í því verki.

Eftir að utanríkismálanefndin var stofnuð, hefir hún haft á hendi undirbúning þessa máls með ríkisstjórninni. Eru samningar þessir sniðnir eftir hinum samningunum, er fyrr voru gerðir, en að hinni „teknisku“ hlið hefir verið unnið af utanríkismálaráðuneytinu í Kaupmannahöfn. Nú hefir fengizt fullt samkomulag innanlands um að gera þessa samninga, og að fengnu umboði og samþykki hans hátignar konungsins hefi ég undirritað þessa samninga við öll hin Norðurlöndin.

Tillagan um, að þessir samningar yrðu undirritaðir á Þingvöllum við þetta hátíðlega tækifæri, kom fram í utanríkismálanefnd og var borin fram af hv. 3. landsk. Það mun engum blandast hugur um, að vel fari á því á þúsund ára afmæli íslenzka ríkisins að undirrita samninga um gerðardóm og æfinleg friðsamleg úrslit mála milli okkar og frændþjóðanna. Þær hafa allar orðið við ósk okkar um þessa tilhögun á undirskriftunum og sent hingað sína virðulegu fulltrúa, og þannig hjálpað okkur til þess að varpa ljóma og söguhelgi yfir þessa hátíð, sem við nú erum að halda. Ég þakka þeim fyrir Íslands hönd komuna hingað og þá virðingu og vinsemd, sem Íslandi er sýnd með sendingu slíkra fulltrúa, og bið þá flytja þakkir og frændakveðju heim.

Það er kunnugt, að Norðurlandaþjóðirnar hafa á ýmsan hátt haft forgöngu um að stuðla að friðsamlegum viðskiptum þjóðanna í milli. Ég er viss um, að síðar á öldum verður Norðurlandaþjóðunum reiknað það til mikils hróss, eins og margt annað. Við viljum gjarnan vera í þessum hópi Íslendingar, og er okkur sérstök ánægja að taka þátt í þessu sem jafnrétthár aðili.

Ég óska þess, að till. um samþykkt samninganna megi að afloknum umr. verða einróma samþ. af þinginu. Og að síðustu vildi ég mega biðja þingbræður mína um að samfagna fulltrúum frændþjóðanna, sem hér sitja á meðal okkar, og votta þeim samúð og virðingu með því að standa upp.

[Allir þm. stóðu upp úr sætum sínum.]