17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (3547)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Pétur Ottesen:

Það er dálítið einkennilegt, að það er sameiginlegt með öllum þeim, sem talað hafa á móti þessari till., að þeir standa upp ósköp hátíðlegir og segja sem svo: „Það er svo sem gott og nauðsynlegt, já, það er gott og nauðsynlegt“. En enginn þeirra er kominn einu sinni hálfa leið aftur í ræðuna, áður en þeir eru búnir að krossa sig alla fyrir því, að þeir vilji styðja þetta, sem er gott og nauðsynlegt. Ég verð að segja, að svona hræsni er blátt áfram viðbjóðsleg. En hámarkinu náði hræsnin þó hjá hv. 1. þm. S.-M. Hann talaði fyrst sem alveg bálstæltur stuðningsmaður þessarar till. Nei, það kom svo sem ekki alveg til mála, að hann færi að greiða atkv. á móti þessari till. Hann sá svo sem aðra lausn á málinu. Og hver var þá hún? Hún var sú, að vísa málinu til allshn., nú þegar verið er að slíta þingi, og þar ætti það þá að liggja til næsta þings. Nú vil ég spyrja hv. 1. þm. S.-M.: Hver munur er á að greiða atkv. á móti till. hreinlega og að vísa henni til allshn. á þennan hátt? Ég býst a. m. k. við, að ekki sé mikill munur á þessu tvennu. Hann ljómaði allur af gleði, hv. 1. þm. S.-M., yfir því, hvað hann hefði nú verið fyndinn með þessu. Hann vaknaði bara upp úr einhverjum draumi um miðnættið, þegar þetta ljós rann upp fyrir honum.

Nei, þetta er bara einber hræsni. Hvers vegna koma þessir hv. þm. ekki hreinlega fram og segjast vera á móti till. eins og þeir eru í hjarta sínu? Þeir eru að hafa útlendingana fyrir skálkaskjól. Þeir bera það fyrir, að það muni móðga útlendinga, ef vínveitingar verða bannaðar. Ætli það sé ekki heldur af því, að þá langi sjálfa í sopann. (MJ: Við fáum vín alveg eins, þó að þessi till. verði samþ.). Ekki þó í þingveizlum, því að þar yrði ekki vín.

Hv. 1. þm. Reykv. fór að tala um, að þetta væri brot á samningnum við Spánverja. Í þeim samningi stendur, að ekki megi gera neinar þær ráðstafanir, sem geri undanþáguna frá vínbanninu að engu. Ætlar nú hv. 1. þm. Reykv. að heimfæra það undir þetta ákvæði, eins og sé verið að gera útsöluna að engu, þó að tveimur útsölustöðum á landinu sé lokað í eina viku? Nei, svona lagað tal er ein óslitin runa af hræsni og fjarstæðum, ekkert annað.