03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (380)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Ólafur Thors:

Með því að þessi fundur er fyrsti opinber fundur á Alþingi um Íslandsbankamálið, tel ég rétt, að nú þegar komi fram nokkru ítarlegri skýrsla í málinu heldur en hv. 1. flm. frv. gaf í frumræðu sinni.

Ég vil því gefa nokkrar viðbótarupplýsingar, og mun um forsögu málsins styðjast eftir föngum við það, sem ég man úr framsöguræðu hv. 3. landsk. (JÞ) á lokaða fundinum í nótt, en hann gaf skýrslu sína fyrir hönd bankaráðs Íslandsbanka samkv. ósk hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. N.-M. (HStef), er einnig eiga sæti í bankaráði Íslandsbanka.

Í árslok 1920 var hag Íslandsbanka þannig komið, að þingið 1921 taldi ástæðu til að samþykkja lög, sem heimiluðu ríkisstj. að leggja fram 4½ millj. úr ríkissjóði til aukningar á hlutafé bankans. Heimild þessi var þó eigi notuð, en í þess stað sá ríkisstj. bankanum fyrir rekstrarfé með nokkrum hluta hins svonefnda enska láns, sem flestir kannast við.

Lög þessi eru enn í gildi, og frv. það, er hv. 1. þm. Skagf. og ég berum fram, er breyting á þeim lögum.

Samkv. þessum lögum er bankinn skyldur að draga inn seðla sína með 1 millj. kr. á ári frá 1. okt. 1922, en þá var seðlavelta bankans talin 8 millj. kr. Inndrátturinn byrjaði eins eg lögin mæltu fyrir, og 3 fyrstu árin dró bankinn árlega inn 1 millj. af seðlum sínum. En eftir það treystist bankinn ekki til frekari inndráttar, þar til í október síðastl., að fjórða milljónin var inndregin; en Alþingi veitti bankanum árlega undanþágu frá inndráttarskyldunni.

Út af seðlainndrættinum og öðrum örðugleikum, er að bankanum steðjuðu, komst Íslandsbanki í allstóra skuld við Landsbankann. Hefir skuld þessi verið yfirdráttur, tryggður með víxlum viðskiptavina Íslandsbanka. Hámark skuldarinnar hefir verið 3360 þús. kr., en annars hefir hún verið breytileg, eftir þörfum Íslandsbanka.

Á árunum 1926 til 1927 varð enn órói um bankann, sem ásamt fleiru olli því, að bankinn missti 6–7 millj. kr. af því sparifé, sem landsmenn höfðu falið honum til ávöxtunar. Slík blóðtaka hlaut að sjálfsögðu að skapa bankanum nýja og óvænta örðugleika, sem leiddu til þess, að hann neyddist til þess að leita á náðir stjórnarvaldanna um aðstoð við útvegun þess fjár, er bankanum var nauðsynlegt til áframhalds þess atvinnurekstrar, sem rekinn hafði verið með lánsfé frá bankanum. Stjórnarvöldin ákváðu að greiða götu bankans með þeim hætti, að ábyrgjast lán fyrir Landsbankann, en Landsbankinn skyldi svo aftur lána Íslandsbanka nokkurn hluta lánsins. –Upprunalega var svo til ætlazt, að teknar yrðu að láni 3 millj. kr. danskar, en úr því varð þó eigi, heldur var tekið lán í New-York, að upphæð 2 millj. dollarar, eða um 9 millj. kr. Var upphæð þessi að vísu miklu hærri en þörf var fyrir, en lánveitandi mun hafa tilskilið, að upphæðin væri ekki lægri, og þar sem kjörin þóttu góð, var lánið tekið. Af þessu fé fékk svo Íslandsbanki 1 millj. kr. hjá Landsbankanum, en að öðru leyti var lánið ekki notað. Gaf Íslandsbanki víxil — hinn svonefnda dollaravíxil — fyrir skuldinni, tryggðan með víxlum viðskiptamanna bankans.

Árið 1928 fékk Landsbankinn lánið í New-York fært niður í 1 millj. dollara, og á síðasta ári taldi Landsbankinn óþarft að halda láninu lengur opnu, greiddi það að fullu og sagði upp lánssamningnum. Eftir það var sú 1 millj. kr., er Íslandsbanki hafði fengið af fé þessu, orðin hrein skuld við Landsbankann, og greiddi Íslandsbanki helming skuldar sinnar 1. júlí 1929, en hinn helmingurinn er enn ógreiddur.

Um fé það, sem Íslandsbanki að öðru leyti starfar með, er það að segja, að auk innstæðna íslenzkra manna hefir bankinn erlent lánsfé, sem hann verður að standast árlegar afborganir af.

Aðallán bankans eru þessi:

1. Hluti bankans af enska láninu er um 5.6 millj. kr. Ríkissjóður ber ábyrgð á láninu gagnvart skuldheimtumanni, en hefir aftur tryggingar í víxlum viðskiptamanna Íslandsbanka. Árleg afborgun af láninu er um 100 þús. kr.

2. Bankinn skuldar ríkissjóði Dana 3.9 millj. danskar krónur. Lán þetta, sem er án sérstakra trygginga, á að greiðast á 15 árum. Árleg afborgun nemur um 400 þús. kr.

3. Til skamms tíma skuldaði Íslandsbanki Privatbankanum í Kaupmannahöfn á 4. millj. d. króna. Það er tryggt með víxlum viðskiptamanna Íslandsbanka, og svo um samið, að það afborgist með því, er greiðist inn á tryggingarvíxlána. Á síðasta ári nam sú upphæð 400 þús. kr.

Af þessum þremur aðallánum bankans hefir því bankinn greitt á síðasta ári 900 þús. kr., en auk þess greitt inn á dollaravíxilinn 500 þús. kr., og þrengt að sér vegna inndráttar seðla um 625 þús. kr. Samtals 2 millj. 25 þús. kr.

Því mun nú hafa verið haldið fram af hendi stj. Landsbankans, að Íslandsbanki hafi ekki innt þessar greiðslur af hendi af eigin rammleik, heldur með því að hækka skuld sína við bankann að sama skapi. — Þessu til sönnunar bendir Landsbankinn á, að yfirdráttur Íslandsbanka hjá Landsbankanum hafi í árslok 1928 aðeins numið 1.8 millj. kr., en í árslok 1929 3.3 millj. kr., og þannig vaxið um 1.5 millj. kr. á árinu. En Íslandsbanki telur þetta vera rangt hjá Landsbankanum, a. m. k. að miklu leyti, og gefur þær skýringar, að í árslok 1928 hafi bankinn lítið fé haft í sjóði, en í árslok 1929 hafi sjóðurinn numið 1 millj. kr. Bankinn hafi eftir atvikum talið réttara að liggja með það fé heldur en að leggja það inn á reikning sinn í Landsbankanum, til niðurfærslu á skuldinni. Íslandsbanki sýnist þannig á síðasta ári hafa grynnt á skuldum sínum af eigin getum um a. m. k. 1½ millj. kr., en með þessu virðist einnig, að bankinn hafi ofboðið getu sinni.

Á síðastl. hausti, eftir að bankinn dró inn þá 1 millj. kr. af seðlum sínum, er ég gat um áður, sneri hann sér til stj. Landsbankans og óskaði þess, að hún endurkeypti víxla af honum, er næmu 5/8 hlutum seðlainndráttarins, eða 625 þús. kr., en 69. grein landsbankalaganna frá 1928 leggur þá skyldu á herðar Landsbankanum, að kaupa slíka víxla af Íslandsbanka, fyrir upphæð, er nemur 5/8 hlutum þeirra seðla, er Íslandsbanki á hverjum tíma dregur inn, en fyrir 3/8 hluta seðlanna er ætlazt til, að Íslandsbanki selji Landsbankanum hluta af gullforða sínum.

Landsbankinn neitaði þó að verða við þessari ósk Íslandsbanka og færði fram þau rök fyrir synjuninni, að hinn ógreiddi hluti dollara-víxilsins væri fallinn í gjalddaga, án þess þó að Íslandsbanki hefði náð samningum um gjaldfrest. Ennfremur leit Landsbankinn svo á, að af þeim 3360 þús. kr., er Íslandsbanki skuldaði Landsbankanum, bæri að skoða 1875 þús. kr. sem 5/8 hluta þeirra 3 millj. kr., er Íslandsbanki hefði áður dregið inn af seðlum sínum, en afgangurinr., um 1½ millj. kr., væri óumsamin skuld. Taldi því Landsbankinn sig hafa rétt til þess að draga frá þessari upphæð þær 625 þús. kr., er honum, samkv. nefndum lögum frá 1928 bar að kaupa víxla fyrir af Íslandsbanka, vegna þeirrar 1 millj. kr. af seðlum, er Íslandsbanki dró inn síðastl. októbermánuð, og skuldaði Íslandsbanki þó Landsbankanum vegna þeirra viðskipta yfir 800 þús. kr.

Bankaráð Íslandsbanka neitaði að viðurkenna þennan skilning Landsbankans á lögunum frá 1928, og benti á, að þegar þau lög voru sett, var skuld Íslandsbanka á þessum reikningi 1½ millj. kr. umfram þær 1875 þús. kr., er ég áður nefndi. Taldi Íslandsbanki, að löggjafinn hefði aldrei ætlazt til, að sú skuld greiddist jafnóðum og seðlainndráttur færi fram, enda hefði öllum þá verið ljóst, að bankinn gat ekki risið undir slíkum greiðsluskilmálum á skuld þessari.

Ég leiði hjá mér að dæma um, hvor bankinn hefir réttan skilning á þessu máli, en bendi aðeins á, að ráðh. sá, er lagði nefnd lög fyrir Alþingi 1928, hefir lýst því yfir, að hann hafi skilið lögin eins og bankaráð Íslandsbanka.

En hvort sem bankaráð Íslandsbanka hefir haft lög að mæla eða ekki, þá er það fullvíst, að Íslandsbanki hafði brýna þörf fyrir þessa peninga. Og snemma í fyrri viku var þröng bankans orðin svo mikil, að bankaráð bankans taldi tvísýnt, að bankinn mundi einfær að ráða fram úr vandkvæðunum. En samtímis fór að berast um bæinn orðrómur um erfiðleika bankans, en við það óx vitanlega hættan á, að bankinn gæti ráðið fram úr vandræðunum. Og þar kom, að bankaráðið, eða formaður þess, hæstv. forsrh., snéri sér síðastl. föstudag til fjmrh. og tjáði honum vandræði bankans. Fór bankaráðið þess á leit, að fjmrh. héti bankanum stuðningi til að annast greiðslur á þeim kröfum, sem bankanum kynnu að berast á laugardag. Tók fjmrh. vel þeirri málaleitan og hét þeim stuðningi, sem nauðsynlegur væri.

Reyndin varð þó sú, að ekki þurfti að grípa til stuðnings stj., því á laugardag voru engin veruleg brögð að því, að tekið væri fé úr bankanum umfram venju.

En óróinn í bænum fór vaxandi, svo að sýnt þótti, að ef bankinn opnaði á mánudaginn, mundi hann ekki geta greitt þær kröfur, er honum bærust, nema ný sterk öfl kæmu bankanum til aðstoðar. Bankaráðið skrifaði því fjmrh. og fór fram á það, að ríkið tæki ábyrgð á skuldbindingum bankans, að einhverju eða öllu leyti, og sæi bankanum jafnframt fyrir 1½ millj. kr. rekstrarfé. Eru till. þær nú öllum kunnar, svo að óþarft þykir að rekja þær hér.

Um málið var svo haldinn lokaðnr fundur í sameinuðu þingi síðastl. nótt, án þess þó að fullnaðarákvörðun væri tekin í því.

Samtímis sem bankaráðið vék vandkvæðum sínum til fjmrh., skipaði forsrh. þá Jakob Möller bankaeftirlitsmann og Pétur Magnússon bankastjóra til þess að rannsaka hag bankans. Hafa þeir nú skilað áliti, sem ber með sér, að þeir telja, að bankinn eigi fyrir skuldum, eða sem næst því, ef hann getur óhindrað haldið áfram starfsemi sinni.

Um mat þessara manna er það að segja, að vitaskuld verður að viðurkenna, að frestur sá, er þeim var settur, er stuttur. En hann er ekki styttri en venja er til erlendis, þegar um slíka rannsókn er að ræða undir líkum kringumstæðum, og það þótt rannsaka þurfi miklu stærri og margþættari banka en Íslandsbanka. Rannsóknin var auðveldari fyrir það, að bankaeftirlitsmaðurinn hefir áður framkvæmt nákvæma rannsókn á bankanum, sem að sjálfsögðu hefir flýtt fyrir bráðabirgðarannsókninni. En um hæfni rannsóknarmannanna til starfans er óhætt að fullyrða, að Jakob Möller hefir lengi notið viðurkenningar fyrir að vera einn gleggstur fjármálamaður þjóðarinnar, en Pétur Magnússon er í senn gáfaður maður, vel kunnur fjármála- og atvinnulífinu og óvenju varfærinn. Veit ég það af langri viðkynningu, að hann segir sízt of mikið undir slíkum kringumstæðum.

Ég tel því alveg ástæðulaust að vefengja dóm þeirra um, að bankinn eigi fyrir skuldum, ef hann fær að starfa áfram. Hitt er svo annað mál, að verði bankinn að stöðva, getur vel farið svo, að reyndin verði sú, að stórfé skorti á, að hann geti svarað út öllum skuldbindingum sínum. Í þeim efnum álykta ég aðeins út frá þeim mun, sem nú yfirleitt er á því, hvort fyrirtæki er starfandi eða neyðist til að stöðva alla starfrækslu og selja eignir sínar nauðungarsölu að meira eða minna leyti.

Eins og menn vita, hefir bankinn nú neyðzt til að loka, a. m. k. í bili, og það, sem fyrir liggur, er að ákveða, hvort löggjafinn vill veita bankanum aðstoð til þess að opna að nýju, því að öðrum kosti getur hann ekki haldið áfram.

Öllum er það sjálfsagt ljóst, að í þessu máli verður engin sú ákvörðun tekin, að eigi fylgi nokkur áhætta. Hér verður aðeins að meta, hver áhættan er minnst, og skal ég leyfa mér að gera stutta grein fyrir minni skoðun í þeim efnum.

Skal ég þá fyrst athuga afleiðingar þess, að frv. okkar hv. 1. þm. Skagf. verði samþ.

Frv. fer í höfuðdráttum fram á tvennt: að ríkissjóður kaupi forgangshlutabréf í bankanum að upphæð 3 millj. kr., en hið eldra hlutafé færist niður eftir endanlegu mati á hag bankans, og að ríkissjóður taki ábyrgð á sparifé og öðru innstæðufé í bankanum.

Fyrra ákvæðið hnígur að því að útvega bankanum rekstrarfé, og samtímis að tryggja hagsmuni erlendra skuldheimtumanna bankans, því vitaskuld er það ekki sæmilegt og mundi reynast stórhættulegt, ef aðeins væri séð fyrir hagsmunum íslenzkra viðskiptavina bankans, en hagur erlendra skuldheimtumanna, þar á meðal ríkissjóðs Dana, væri fyrir borð borinn. En eftir þeirri venju, er mest tíðkast um viðreisn erlendra banka, má telja fullvíst, að með þessum hætti telji erlendir skuldheimtumenn hag sínum borgið.

Síðara ákvæðið, um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðufé bankans, er til þess ætlað, að róa eigendur þess og tryggja, að þeir sjái ekki ástæðu til að taka fé sitt út úr bankanum.

Það er álit Sjálfstæðismanna á þingi, að þessar ráðstafanir séu fullnægjandi til þess að tryggja framtíð bankans.

Hvaða áhætta stafar nú ríkissjóði af þessari ábyrgð?

Bankinn hefir verið skoðaður og telst eiga fyrir skuldum. Áhættan sýnist því takmarkast við áhættu á rekstri bankans, þ. e. a. s. við afkomu viðskiptamanna bankans.

Sé nú sú áhætta vegin í sambandi við hina hlið þessa máls — lokun bankans —, kemur í ljós, að ekki er rétt að láta bankann falla hennar vegna, því ef það er rétt, sem haldið hefir verið fram af andstæðingum frv. okkar hv. 1. þm. Skagf., að atvinnurekstur sá, sem rekinn hefir verið með lánsfé úr Íslandsbanka, muni eftirleiðis fá fé til þarfa sinna frá Landsbankanum, þá færist þar með áhættan af afkomu þessa atvinnurekstrar yfir á ríkissjóð, vegna þess að ríkissjóður ber nú þegar, samkv. lögum frá 1926, ábyrgð á öllum skuldbindingum Landsbankans.

Þessi áhætta sýnist því vera svipuð, hvor leiðin sem farin er í málinu, ef fyrrnefnd fullyrðing andstæðinga frv. er rétt. En enda þótt hún sé nú ekki rétt, og það er hún ekki nema að nokkru leyti, þá verður þó áhættumunurinn ekki svo mikill, að hann megi ráða úrslitum þessa stórmáls, því verði bankanum lokað að fullu, munu af því hljótast mörg og mikil vandkvæði. Nefni ég þar fyrst áhrifin á lánstraust landsins út á við.

Ísland er enn lítið þekkt á erlendum peningamarkaði. Fregnin um, að annar af tveim bönkum landsins hafi neyðzt til að stöðva rekstur sinn, mun því að sjálfsögðu skapa óróa og tortryggni í okkar garð, og þá ekki sízt fyrir það, að yfirleitt mun svo litið á erlendis, sem íslenzk stjórnarvöld séu svo mjög við bankann riðin, að nærri stappi, að full ábyrgð fylgi fyrir ríkissjóð.

Þegar nú fregnin um stöðvun bankans berst erlendum skuldheimtumönnum, mun fyrst að því spurt, hvort þess hafi verið enginn kostur að bjarga bankanum, því að annarsstaðar mun það venja, að bæði þjóðbankinn og ríkið taki á sig þungar kvaðir til að afstýra slíku hruni.

Svar okkar við slíkri fyrirspurn fegrar ekki málstaðinn.

1) Bankinn er talinn eiga fyrir skuldum, ef hann fær að halda áfram rekstri, og væntanlegt tap orsakast því beinlínis af stöðvuninni.

2) Innieign þjóðbankans hjá Íslandsbanka er talin fulltryggð.

3) Ábyrgð ríkissjóðs vegna bankans er sömuleiðis talin fullkomlega tryggð með víxlum viðskiptamanna bankans.

4) En kröfur annara skuldheimtumanna eru ýmist aðeins tryggðar að nokkrum hluta eða alveg ótryggðar, og meðal hinna ótryggðu er næststærsti skuldheimtumaður bankans, ríkissjóður Dana.

Beina tapið af stöðvun bankans skellur því hvorki á þjóðbankanum né ríkissjóðnum, heldur á öðrum skuldheimtumönnum, sem þá munu hafa tilhneigingu til að telja, að þjóðbankinn og ríkissjóður hafi tryggt sig á þeirra kostnað.

Ég þykist ekkert ofmæla, þó að ég fullyrði, að af þessu muni hljótast alvarleg og ískyggileg spjöll á lánstrausti landsins erlendis. En um það, hvernig við megum við slíkum lánstraustsspjöllum, er það að segja, að hér á landi er flest ógert og verður að framkvæmast með lánsfé, enda liggur nú fyrir Alþingi frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka 12 millj. kr. erlend lán til að bæta úr bráðustu þörfinni.

Um áhrifin innanlands get ég verið fáorður. Þau standa yfirleitt flestum ljósar fyrir hugskotssjónum. En um það er ég sannfærður, að Landsbankinn mun í reyndinni hvorki vilja né geta tekið við öllum þeim atvinnufyrirtækjum, sem Íslandsbanki hefir veitt rekstrarfé. Ég fullyrði því, að verði bankinn ekki opnaður aftur, muni afleiðingarnar fljótlega koma fram á þann hátt, að margir verða gjaldþrota, atvinnurekstur landsmanna bíður stórhnekki og hið mesta atvinnuleysi mun fylgja í kjölfarið.

Og hvernig stöndum við Íslendingar svo yfirleitt, ef farið er að hrófla við okkur?

Ég ætla engan samanburð að gera á bönkunum. En sjálfsagt eru þeir báðir mjög veikir, borið saman við erlenda banka, sem svipuð hlutverk eiga að annast.

Og atvinnufyrirtækin í landinu?

Við samanburð á notkun lánsfjár í hlutfalli við sjálfseignarfé til starfrækslu atvinnufyrirtækja hér og í nágrannalöndum, sést glögglega, að það, sem nágrannaþjóðir telja, að lengst megi ganga í lánsfjárnotkun, er sú lánsfjárnotkun, er hér tíðkast hjá þeim fyrirtækjum, sem sterkust eru talin. En allur þorri atvinnurekenda notar lánsfé umfram það, sem aðrar þjóðir telja heilbrigt.

Ég tel því, að sem stendur sé mjög æskilegt að afstýra þeim fyrirbrigðum í fjármálalífi þjóðarinnar, sem gefa erlendum lánardrottnum ástæðu til sérstakrar rannsóknar á íslenzku fjármálaástandi.

Mín niðurstaða er því sú, að með því að standa undir Íslandsbanka tökum við á okkur ábyrgð, sem við getum tölum talið, en með því að loka bankanum færist yfir á okkur áhætta, sem fyrirsjáanlega er mikil, en enginn getur í bili sagt um, hversu mikil er.

Ég ræð því eindregið til, að frv. okkar verði samþ., og ekki sízt vegna þess, að ég tel ekki ólíklegt, að áður langt um líður verði talið nauðsynlegt, að ríkissjóður taki á sig a. m. k. þá ábyrgð, sem frv. fer fram á. Tel ég ekki rétt á þessu stigi málsins að rökstyðja þá skoðun mína, en leiði aðeins athygli að þessu. En ef sú skoðun er rétt, þá hljóta allir að viðurkenna, að réttara er að taka þá heldur ábyrgðina strax, og bjarga með því bankanum, heldur en að leggja fyrst bankann á höggstokkinn, en taka síðan allar þær ábyrgðir, sem nauðsynlegar eru til þess að bjarga bankanum.