04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (460)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Sveinn Ólafsson:

Ég hefi verið að spyrja sjálfan mig um það undir ræðu hv. þm. Barð., hvort hann mundi vera fyllilega sjálfráður athafna sinna og orða í þetta sinn. (HK: Það mætti kannske fá Helga til að skoða mig). Og ef hv. þm. er sjálfrátt, þá er ég hissa á, að honum skuli koma til hugar, að hann geti grandað þessu máli með fúkyrðum og ókvæðisorðum um aðilja málsins. Hann sagði m. a., að „ágirndar- og ránshendur“ Eskfirðinga væru að seilast eftir bráð í aðra hreppa, og fleiri orð hans voru mótuð af álíka óviturlegum meinyrðum. En hv. þm. komst aldrei að aðalatriði málsins, nauðsyn Eskfirðinga á landi. Hv. þm. veit, að þarna er saman kominn fjöldi manna, sem beinlínis líður skort á landsnytjum. Þessa menn vantar mjólk og garðávexti og þeir hafa engin tök á að bæta úr þessum skorti, vegna þess að kauptúnið er landlaust. Hv. þm. heldur því fram nú sem áður, að auðvelt sé að bæta úr þörf þessara manna með öðrum hætti en sölu Hólma, enda þótt hann fullyrði ekki nú eins djarflega um þessa útvegi og áður. Eiginlega benti hann ekki á neinar leiðir til þessa nema ef telja skyldi það, sem hann var að tæpa á kaupum á jörðinni Eskifirði. En sú jörð er líka í Reyðarfjarðarhreppi, eins og Hólmar, og er auk þess einkaeign. Er mér kunnugt, að tilraun hefir verið gerð til að fá hana keypta, en hún reyndist eigi föl, nema þá gegn afarverði. Sú jörð mundi ekki heldur geta fullnægt þeirri þörf, sem fyrir hendi er, nema í mesta lagi að einum fjórða hluta, og get ég í þessu efni vísað til álitsskjals Pálma Einarssonar ráðunauts, sem prentað er eins og fylgiskjal í áliti hv. allshn.Hv. þm. sagði ennfremur, að alla sönnun vantaði fyrir því, að hér væri um nokkra þörf að ræða. Ég veit nú ekki, hversu kröfuharður hv. þm. er um sannanir, en nokkur sönnun finnst mér þó fólgin í gögnum þeim, sem hér hafa verið lögð fram, umsögn ráðunautsins, sem ég nefndi áðan, og mannanna sjálfra, sem við þetta eiga að búa, og annara kunnugra manna.

Ýmsum staðleysum hv. þm. Barð. verð ég að sleppa, get ég ekki verið að eltast við þær. En það hugði ég, að hann mundi gjalda varhuga við að haga orðum sínum svo, sem hann gerði í þessari ræðu. Hann. talaði um, að áður hefði verið ágætt varpland á Hólmum, en hefði nú gengið mjög úr sér vegna ágengni Eskfirðinga. Þessar fjarstæður hljóta að stafa af ókunnugleika eða gremju hv. þm. Það geta allir séð, hvílík fjarstæða þetta er. Áður var mjög friðsælt og rólegt þar, sem varpið er, en nú er þar mikil umferð, sem leiðir af auknum skipaferðum og breyttum atvinnuháttum. Og það bið ég menn vel að muna, að umferðin hjá varplandinu er alls ekki til Eskifjarðar eða þaðan, heldur til Reyðarfjarðar. Eskfirðingar eiga sjaldan leið um það svæði, eins og öllum má ljóst vera, sem staðhætti þekkja. Þess vegna er það hin mesta fjarstæða, að kenna þeim rýrnun varpsins á Hólmum. Allt, sem hv. þm. sagði um þetta, var því talað út í hött, enda er hann svo gerókunnugur á þessum slóðum, að hann getur ekkert um þetta mál borið, nema eftir villandi eða misskildum frásögnum annara. (HK: Þær breytast kannske frá ári til árs, eins og upplýsingar hv. 1. þm. S.-M.).

Það sýnist mér vera nokkuð langsótt aðdróttun hjá hv. þm., er hann þykist ætla að sanna af flutningi þessa máls, að ég beri óvildarhug til sveitanna. Slíkt er ekki svara vert. En það, sem hér er farið fram á, er, að bætt verði úr brýnni þörf nokkurra kauptúnsbúa, með því að leyfa þeim að rækta arðlítið eða arðlaust land í nágrannahreppi, land sem er nú opinber eign. Og ríkið á enga aðra jörð þarna í námunda, sem tiltök eru að nota á þennan veg. Auk þessa vil ég benda hv. þm. á það, að sú aukna ræktun landsins, sem við báðir viljum efla, breiðist einmitt út frá kaupstöðum og kauptúnum, þar sem margmenni er saman komið og þar sem þörfin er aðkallandi fyrir afurðir landbúnaðarins. En sú aukna landrækt fæst ekki, nema landið sé látið falt til ræktunar.

Hv. þm. þótti það fráleitt, að í frv. er varplandið undanskilið sölunni, líklega af því, að hann býst við, að Eskfirðingar fari ránshöndum um það, eins og hann svo góðgjarnlega kveður að orði, og spilli því fyrir presti á skömmum tíma.

Nú er það svo eftir frv., að undan sölunni á fleira að skilja en varpið, sem sé öll ítök, er Hólmar eiga utan heimalands, og eru þau mikils virði. Staðurinn á t. d. rekarétt á ýmsum stöðum, ennfremur Seley o. fl. Þessi ítök hafa vitanlega alveg sama gildi fyrir prestinn, hvort sem hann nytjar þau frá Hólmum eða frá Eskifirði. Og að þeim er eftir haldið við söluna, gerir það að verkum, að heimatekjur prests verða meiri en ella, en framlag ríkisins í prestslaunasjóð að sama skapi minna.

— Það er alveg augljóst mál, að presturinn getur og haft full not varphólmanna, þótt hann búi á Eskifirði. Þaðan er ekki nema svo sem 10 mín. róður yfir fjörðinn og sem svarar stuttri stekkjargötu, eftir að á land er komið, til varphólmanna. Það er svo sem engu erfiðara að gæta varpsins frá Eskifirði en heiman frá Hólmum, því að varpið er fjarri bæ.

Vil ég nú ekki tefja málið með frekari umr. Tel ég líka víst, að það gangi rétta boðleið gegnum Alþingi og að allir heilskyggnir menn sjái og viðurkenni, að hér er um fullkomið sanngirnismál að ræða.

0461