24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (490)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég tel rétt að fara nokkrum orðum um þessar brtt., sem hér liggja fyrir. Ég hafði búizt við, að hv. flm. myndi gera grein fyrir þeim, eins og hann líka gerði, en sú grg. sannfærði mig um það ennþá betur, að hér veldur ókunnugleiki.

Ég skal þá fyrst minnast á brtt. á þskj. 330, sem hv. þm. virtist leggja nokkra áherzlu á, að yrði samþ. Fyrst er það, að hann leggur áherzlu á, að umsögn biskups sé fengin. Ég get ekki séð annað, en að það sé fremur þýðingarlítið, þar sem fyrir þinginu hefir legið umsögn biskups, og öllum er vitanlegt, að hann hefir lagt á móti sölunni. Ef það á að hafa nokkra þýðingu að leita umsagnar biskups, ætti það þá að vera til þess að fara eftir henni. En þingið hefir nú ekki viljað fallast á hana, og því er ástæðulaust að setja þetta inn í frv. Það hefir, að ég hygg, í mörgum tilfellum verið svo, að biskupinn hefir lagt á móti sölu prestssetra undir svipuðum kringumstæðum, t. d. um sölu á kirkjujarðarhluta úr Nesi, og þó hefir Alþingi ekki séð ástæðu til þess að fara eftir till. hans. Þetta atriði út af fyrir sig hefir lítið að segja, enda tel ég stj. ekki bundna við það, sem biskup legði til.

Um þá till. hv. þm., að jörðin skuli seld með hlunnindum, ítökum o. fl., vil ég segja það, að hún er þannig vaxin, að óhugsandi er að samþ. hana. Ég tel glapræði af þinginu, ef það færi að fyrirskipa stj. að selja t. d. Seleyri, en þetta er bara komið til af því, að hv. flm. brtt. er þarna algerlega ókunnugur. Mér er t. d. kunnugt um, að Hólmakirkja á rekaítök t. d. í Norðfjarðarhreppi. Þau liggja í landi jarðarinnar Barðsness, og væri nokkurt vit í því að selja Eskifirði slík ítök? Ef ríkisstj. færi að selja þau, væri eðlilegast, að hún seldi þeirri jörð, sem þau liggja í. — Það er því ómögulegt að samþ. þessa till.

Þá kemur í niðurlagi gr., að Reyðarfjarðarhreppi skuli gefinn kostur á hreppaskiptingu, er sanngjörn megi teljast. Þetta er málinu algerlega óviðkomandi, og ég býst ekki við, að Reyðarfjarðarhreppur óski eftir hreppaskiptingu, en hitt gæti verið, að Eskifjarðarhreppur óskaði þess. Ég vil ekkert blanda mér inn í þær hugsanlegu deilur, sem út af því kynnu að spretta. En verði Hólmar eign Eskifjarðarhrepps, verða þeir nýttir langtum betur heldur en líkindi eru til, að sóknarpresturinn geti gert, og af því leiðir, að jörðin verður Reyðarfjarðarhreppi miklu meira virði en áður. Þess vegna er þeim hreppi ekki greiði gerður með því að benda til þess, að Hólmar leggist undir Eskifjarðarhrepp. — 1. gr. brtt. er því ekki svo vaxin, að nein leið sé að samþ. hana.

2. brtt. er um að 2. gr. falli burt, þar sem ríkisstj. er heimilað að undanþiggja sölunni vissar landsnytjar, sem mætti nota handa presti, ef hann vildi heldur sitja þar en á Eskifirði. Ég held, að það væri öllum að bagalausu, þó að undan skildar væru úr Hólmalandi einhverjar landspildur, sem nægðu presti til þess að hafa 1–2 kýr. Stj. er ekkert fyrirskipað um þetta, og það verður að vera á hennar valdi, hvort hún álítur ástæðu til þess. Ég tel ekki ástæðu til, að þetta falli niður.

Þá er það síðasta brtt., sem orðuð er um á þskj. 337, um að 3. gr. falli niður; hún er um það, eftir hvaða reglum eigi að meta söluverð jarðarinnar og selja hana. Ég tel miður heppilegt að fella þessa gr. niður. Ég finn að vísu, að lögin geta náð tilgangi sínum fyrir því, þannig að Eskjfjörður fái keypta Hólma, en mér finnst óviðkunnanlegt af löggjafarvaldinu að segja ekki, á hvern hátt eigi að selja þá. Ég veit auðvitað, að engin stj. mundi selja þá fyrir óhæfilega lágt verð, en henni er þó heimilað það.

Mér fannst það skína í gegn hjá hv. flm. brtt., að þessi jörð væri allt of góð handa Eskifirði. Hann virðist vilja selja jörðina með öðrum kjörum, og ef til vill hærra verði; en ef hann vill tryggja það, þá þarf að setja nýja gr. um, fyrir hvað eigi að selja Hólma og hvernig eigi að greiða kaupverðið. Ef það er ekki gert, tel ég mjög óviðkunnanlegt, að ekkert sé ákveðið um, hvernig kaupin skuli fram fara. (JónJ: Það er venja!). Nei, í flestum tilfellum er vitnað í þessi lög frá 1907; en hitt er rétt, að það hefir komið fyrir, að ekkert væri um það sagt. En að ekki skuli farið eftir þessum lögum um sölu á þessari jörð, það finnst mér nokkuð einkennilegt og óviðeigandi. Hver ástæða er til þess að leyfa Eskfirðingum ekki að njóta sömu kjara og öðrum? Það er víst, að jörðin er ekki keypt með það fyrir augum að selja hana með braski.

Ég verð því að mæla á móti þessari till., því að það er miklu réttara af þinginu að ganga greinilega og skilmerkilega frá þessu atriði, eftir hvaða reglum kaupverðið skuli metið og hvernig það skuli greitt.

Ég geri því ráð fyrir, að hv. d. athugi vel, hvað í þessum brtt. felst og hvað af þeim myndi leiða. Ég fæ ekki betur séð heldur en að allar séu þær þannig vaxnar, að málið horfi þinginu frekar til vanvirðu, ef þær verða samþ. Enda er ósköp eðlilegt, að svo sé, þar sem alókunnugur maður hyggst að breyta frv., sem er samið af manni, sem þarna er þaulkunnugur og hefir þar að auki sem umboðsmaður Múlaumboðs mikla þekkingu á því, er lýtur að sölu slíkra jarða. Ég hygg því, að flm. frv. hafi miklu betri aðstöðu til þess að ganga svo frá því, að vel megi við una, heldur en hv. 6. landsk., því það er töluvert vandaverk að blanda sér í málefni, sem mann brestur alla þekkingu á, bæði á staðháttum og öðru.