24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (494)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Ingibjörg H. Bjarnason:

Ég get nú búizt við, að mér verði brugðið um ókunnugleika á þessu máli, ekki síður en sumum öðrum hv. þdm. Ég ætla þó að leyfa mér að koma fram með nokkrar almennar hugleiðingar í sambandi við þetta frv. áður en gengið er til atkvgr.

Ég hefi einu sinni komið á Eskifjörð og dvalið þar mánaðartíma; mig minnir það væri árið 1914. Sú dvöl gefur mér líklega litla heimild til að dæma um þarfir Eskfirðinga. Þó vil ég með tilliti til míns litla kunnugleika og þess, sem aðrir hafa sagt mér, viðurkenna, að þörf þeirra á landi til ræktunar er talsvert brýn. En það er eitt, sem hneykslar mig nú — ég segi hneykslar mig —, og það er það, að hér er verið að ræða um að selja eina hina beztu af þeim fáu kirkjujörðum landsins, sem enn eru óseldar. Því miður er nú svo komið, að búið er að selja margar beztu þjóðjarðirnar, því illu heilli eru þessi gömlu og góðu höfuðból nú seld nálega hverjum, sem hafa vill.

Það er búið að tala um, að Hólmar séu ágæt jörð, og það er öllum hv. þdm. kunnugt. Það er búið að tala um það, að biskup, sem yfirmaður kirkjunnar, leggi á móti því, að jörðin verði seld. Hefir hann þá í huga þá mörgu ágætu presta, sem þarna hafa setið með sæmd og góðum orðstír, og þá menningu, sem borizt hefir frá heimilum þeirra.

Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að ekki eigi eða megi draga úr þeirri menningu, sem stafar frá góðum og menntuðum mönnum, sem búa í sveit, — sitja jarðir sínar vel og eru þess megnugir að láta bæði orð sín og verk leiða gott af sér í héraði sínu. Ég held, að okkar marglofaða menning stæði traustari fótum, ef fleira væri eftir í sveitinni af þeim heiðursmönnum, sem áður hafa gert garðinn frægan.

Nú þegar það er athugað, að biskup hefir lagt á móti sölu þessarar jarðar, en hinsvegar er í frv. vitnað í það, að hlutaðeigandi sóknarprestur mælir með sölunni, þá finnst mér, að engum geti blandazt hugur um, hvor þeirra hefir meira til síns máls. En mér finnst, að það beri að líta á það í þessu tilfelli, að biskup er yfirmaður kirkjunnar, svo að taka verði meira tillit til hans skoðana og till. í þessu máli en prestsins, sem, hversu góður sem hann kann að vera, ef til vill hefir persónulegra hagsmuna að gæta.

Ennfremur man ég ekki betur en hv. flm. þessa frv., 1. þm. S.-M., hafi í fyrra borið fram rökstudda dagskrá til að koma í veg fyrir sölu þessarar jarðar. Þessi skoðanaskipti skil ég ekki. Ég bendi aðeins á þetta, af því að til svona skoðanaskipta hljóta að liggja einhverjar ástæður. Mér eru þær ekki vel kunnar, en ég hygg það sé máske eitthvað, sem í daglegu máli er kallað hreppapólitík, því að þetta er því miður til. Ég get sem sagt ekki fellt mig við þessa málafærslu.

Ég hefi hlýtt á þessar umr. með sæmilegri athygli. Og ég skal ekki leyna því, að ég hefi getað aðhyllzt miklu frekar allt, sem sagt hefir verið skynsamlega og öfgalaust móti sölu þessarar jarðar. Og til þess ber m. a., að ég hefi komið á þennan stað. Ég hefi ekki farið landleiðina milli Hólma og Eskifjarðar — mér er sagt, að hún sé um 8 km. —, sem þá var illfær reiðvegur. Ég fór með mótorbát frá Eskifirði. Veðrið spilltist svo á skömmum tíma, að illfært var til Eskifjarðar aftur. Við vorum jafnvot og hrakin hvort sem við vorum á þiljum eða undir þiljum. Þetta virðist mér benda á það, að maður getur ekki æfinlega reiknað með sjóleiðinni, þótt hún sé styttri. Og það hefir verið bent á það af þeim, sem mest hafa lagt til þessa máls, að landleiðin er svo löng, að erfitt verður á ýmsan hátt að nota hana til flutninga, t. d. á áburði til Hólma og afurðum þaðan.

Ég hefi heyrt talað um jörðina Eskifjörð og veit, að hún er miklu minni, eða um 30 hektarar að stærð. Þar eru ræktunarskilyrði allmikil, að því er mér er sagt af vel kunnugum mönnum. Sennilega mundi það land nægja Eskfirðingum um alllangt skeið. Og því þá að vera að fara yfir lækinn til að sækja vatnið, þegar maður hefir lækinn í túninu?

Ég gat ekki á mér setið að láta þessar almennu hugleiðingar í ljós áður en endanlega er gengið til atkv. bæði um brtt. og frv. Mér finnst við ekki hafa ráð á að henda frá okkur þessum því miður allt of fáu kirkjujörðum, sem ennþá eru óseldar. Við þurfum að hugsa okkur tvisvar um áður en það er gert. Ég vil ekki blanda mér inn í söluskilmálana eða þá samninga, sem kæmu til greina við söluna. Ég mundi ekki fylla flokk þeirra, sem vilja selja jörðina með afarkostum, ef á að nota hana til að bæta úr brýnni mjólkurþörf fyrir Eskfirðinga. En þetta vildi ég hafa sagt, að ég álít brtt. hv. 6. landsk. til bóta við frv. og mun ég geta greitt þeim atkv. En ég mun neyðast til að greiða atkv. móti frv. í heild sinni.