08.02.1930
Neðri deild: 18. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (533)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Eins og hv. flm. tók fram, lá fyrir síðasta þingi frv. svipað þessu og um það urðu langar og miklar umr., svo að ekki er ástæða til að ræða málið nú eins og það sé ókunnugt hv. dm. Ég leyfi mér aðeins að minna hv. flm. á afdrif málsins í fyrra. Það var drepið þegar við 1. umr., enda hygg ég, að þm. hafi ekki aðeins verið mjög mótfallnir efni þess, heldur var það einnig svo úr garði gert að forminu til, að ekki var vansæmdarlaust fyrir Alþingi að samþykkja það. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp fáeinar setningar úr frumræðu minni í þessu máli á síðasta þingi. Það er um að ræða kvöð þá, sem Alþingi hefir lagt á aðilja, áður en hreppar geti orðið sameinaðir:

„Hvað hefir nú Alþingi sagt áður um þetta? Það nýjasta, sem sagt hefir verið um þetta, sést í sveitarstjórnarl. frá 1927. 19. gr. þeirra laga segir svo: „Eigi skal neinu máli, er varðar einhverja sérstaka sveit, til lykta ráðið fyrr en álits hreppsnefndar þar hefir verið leitað um það. . .“ Og 42. gr. segir: „Eigi skal neinu máli, er varðar einhverja sýslu sérstaklega, til lykta ráðið fyrr en álits sýslunefndar þar hefir verið leitað um það“.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um, hversu skýr og glögg þessi ákvæði sveitarstjórnarlaganna frá 1927. eru, því síður þar sem vilji hv. þm. kom svo greinilega fram í fyrra. Ég bendi aðeins á, að málið er enn undirbúið á sama hátt og í fyrra, þ. e. a. s. gersamlega óundirbúið.

Hv. flm. telur málið horfa öðruvísi við nú, af því að ekki er farið fram á að innlima nema nokkurn hluta Seltjarnarneshrepps í Reykjavík. En ég vil leiða athygli hv. þm. að því, að hér er verið að fara eftir kænum ráðum hins hyggna manns, hv. 3. þm. Reykv. Hann sagði í fyrra:

„Það dettur engum í hug í alvöru, að sú þröngsýni ríki lengi, að ekki verði smámsaman höggið af nesinu og lagt undir Reykjavík. En menn eru svo smámunasamir, að þeir geta frekar fallizt á, að þetta sé gert í smáskömmtum“.

Nú hefir þessi ágæti þm. fundið smáskammta við smámunasemi hv. þm., og vænti ég, að hv. þm. kunni að svara honum eins og hann á skilið. Það er svo sem auðvitað, hvert stefnir, ef við réttum fram litla fingurinn. Þá verður öll höndin tekin — smám saman. Og það er hreint og beint hlægileg viðbára, að ekki sé hægt að fullnægja lögunum frá 1927, af því að borgarstjórinn sé bara settur í embættið. Það er heilt ár, síðan þm. vísuðu þessu frv. frá og vildu ekkert um þetta heyra, en nú sýna flm. þá frekju, að leggja frv. fyrir deildina aftur.

Ég ætla til gamans að rifja upp nöfn þeirra hv. þm., sem í fyrra stóðu fastast gegn frv., sem að efninu til var það sama og þetta frv. Það voru þeir: Hv. þm. S.-Þ., hv. þm. N.-Ísf., hv. 2. þm. Skagf., hv. 1. þm. Árn., hv. þm. V.-Sk., hv. 1. þm. Skagf., 2. þm. G.-K., hv. þm. Borgf., hv. þm. Dal., hv. 1. þm. S.-M., hv. þm. A.-Sk., hv. þm. V.-Ísf., hv. 2. þm. Eyf., hv. þm. Mýr., hv. 1. þm. Rang., hv. þm. N.-Þ., hv. þm. V.-Húnv.

Þetta er álitlegur hópur af ágætum mönnum, og vona ég, að þeir standi eins fast saman nú og í fyrra og felli frv. strax.