11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (914)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Magnús Guðmundsson:

Ég hefði varla haft ástæðu til að standa upp nú, ef hv. þm. V.-Húnv. hefði ekki komið með andmæli. Það hefði mátt ganga út frá því, að mál, sem samþ. var á þingi í fyrra, yrði samþ. nú líka í sömu deild, þar sem engin mannaskipti hafa orðið. Það hefði því mátt ætla, að þetta frv. yrði afgr. frá deildinni nú, eftir þeim viðtökum að dæma, sem það fékk hér í fyrra.

Það, sem mér þótti aðallega athugavert í ræðu hv. þm. V.-Húnv., var það, að hann talaði um þetta frv., sem hér væri um milljónafjárframlag að ræða, og það nú þegar á þessu ári. Hann hefði þó átt að vita það, að í 1. gr. frv. er tekið fram, að ekkert fé verði greitt úr ríkissjóði fyrr en það er samþ. í fjárl. Þetta er ekki óþekkt aðferð. Það er algengt að setja svona ákvæði, þegar um símalínur er að ræða, vegagerðir, brýr o. fl. Og hvað kostar þetta ríkið nú? Það kostar ekkert. Kostnaðurinn kemur fyrst, þegar fjárveitingin verður samþ., og þingið ræður, hvenær sú fjárveiting kemur. Þetta er ekkert nema áætlun um, hvað gera eigi í nánustu framtíð. Ég vona því, að enginn hv. þdm. láti þessa yfirskinsástæðu hv. þm. V.-Húnv. hræða sig.

Annars var mikill hluti af ræðu hv. þm. um höfnina á Skagaströnd. Hann sagði, að hún væri ekki nema lendingarbót, og því væri hún ekki sambærileg við það frv., sem hér liggur fyrir. En eftir því frv., sem hæstv. stj. flutti í fyrra um höfn á Skagaströnd, þá er þar um reglulega hafnargerð að ræða. Þannig er ekkert upp úr því að leggja, sem hv. þm. segir. Í það frv. komst sú breyt., að þar er heimilað að byrja í smáum stíl, en á Sauðárkróki er það ekki hægt; það hagar þannig til þar.

Hv. þm. var með sömu mótbárur gegn þessu frv. og komu , fram viðvíkjandi hafnargerðinni á Skagaströnd, að héruðin reistu sér hurðarás um öxl með því að ráðast í hafnargerðir. Ég veit ekki, hvers vegna hv. þm. vill gera sig þannig að fjárráðamanni fyrir norðursýslurnar; ég veit ekki, hver hefir kvatt hann til þess. Ég býst við, að þær séu einfærar um að standa fyrir sínum fjármálum án hans aðstoðar.

Ég var undrandi yfir hv. frsm. meiri og minni hl., er þeir deildu um það, hvort frv. hafi verið lesið í n., þar sem það var afgr. í fyrra og flutt óbreytt nú. Svo mikið traust ber ég til þessara manna, að ég held, að þeir muni innihald frv. frá því í fyrra. (JAJ: Kannske þeir hafi lesið það á milli funda?). Ég geri ekki ráð fyrir því, þar sem þeir hafa sjálfir tekið það fram, að þeir hafi ekki lesið það. Ég bjóst við nál. úr sjútvn. strax. Ég gerði ekki ráð fyrir, að hún þyrfti langan tíma til að athuga frv., þar sem það var afgr. í fyrra, og ekki sízt vegna þess, að hv. frsm. meiri hl. lýsti því yfir, að einna mest þörf væri fyrir höfn á Sauðárkróki af þeim stöðum, sem hann hefði séð hafnlausa. (SvÓ: Af þeim stöðum, sem beðið er um hafnir á). Það var talað um sameiginleg lög fyrir allar hafnir. En hvað á að standa í þeim lögum? Hvernig er hægt að búa til ein lög um allar hafnir, jafnmisjöfn og aðstaðan er? Á þá ekkert tillit að taka til sérstakra staðhátta?

Andmælendur þessa frv. segja, að það verði til að sökkva ríkinu í skuldir og ábyrgðir. Ég hefi tekið það fram áður, að hér er ekki verið að ræða um fjárframlag nú þegar. Það verður fyrst, þegar fé verður veitt í fjárl. Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að hv. frsm. meiri hl. flytur brtt. við fjárlagafrv. fyrir 1931 um ábyrgðarheimild. Þegar Suður-Múlasýsla á í hlut, telur hann það ekki voða, þó að ríkissjóði sé sökkt í ábyrgðir. Hv. þm. hefir nú auk þess flutt till. um ábyrgðarheimild á hverju þingi, en hefir augun fyrst opin fyrir hættunni, þegar um þetta frv. er að ræða.

Það er auðséð, að meiri hl. n. vill heimta þau skilyrði, að allt það fé, sem sýslufélagið á að leggja fram, sé fyrir hendi þegar í byrjun. En vitanlega er það alveg sama og að segja, að þetta fyrirhugaða fyrirtæki komist aldrei í framkv., því að hér er um stórfé að ræða, sem verður að leggja fram á mörgum árum. Að fá féð allt að láni og verða svo að láta það liggja lengi á lágum vöxtum, nær vitanlega engri átt. Með þessu kom meiri hl. því aðeins upp um sig, að hann er á móti því, að frv. nái fram að ganga.