30.03.1931
Efri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (1008)

21. mál, innflutningur á sauðfé

Frsm. (Páll Hermannsson):

Ég get tekið undir með hv. 2. landsk., að ég geri ekki ráð fyrir, að till. n. um innflutning á karakulafénu verði gerð að neinu kappsmáli. Ég veit, að innflutningur á karakulafé getur orkað tvímælis, og aðalatriðið verður auðvitað að flytja inn bráðþroska holdafjárkyn.

Mér þykir vert að geta þess í sambandi við þennan innflutning, að ekki er hægt að komast hjá því, að hann kosti eitthvað. Ef ætti að kaupa verðlaunaða kynbótahrúta af brezku holdafjárkyni, mundu þeir ekki fáanlegir fyrir minna en 1000 –3000 kr. En við gerðum ráð fyrir, að keypt yrði gott og ungt fé og mætti þá fá veturgamlan hrút fyrir 500 kr. og veturgamlar ær fyrir 200 kr. Karakulaféð er aftur á móti miklu dýrara, og er okkur sagt, að hrútur muni varla fast fyrir minna en 1000 kr. Og ég verð nú að segja, að ef mun betra verð fæst fyrir „lúxus“vöru, þá finnst mér ekkert til fyrirstöðu að reyna það, þótt vitanlega verði það stopulla.

Fyrir okkur n.mönnum vakti fyrst og fremst að skjóta inn í frv. heimild um þetta, svo að ekki þyrfti strax að breyta lögunum, ef nota þyrfti heimildina. Hinsvegar höfum við fengið glæsilegar fregnir af þessum skinnamarkaði.

Búfjárræktarráðunauturinn sagði, að í Noregi hefðu verið gerðar um þetta tilraunir í sambandi við íslenzkar ær, og hefði komið í ljós, að okkar sauðfjárkyn væri heppilegt til þess, það gerði ullarlagið, þ. e. a. s. hvað ullin er gróf. Hann nefndi dæmi um eina á, sem drapst rétt fyrir burð og hafði í sér tvílembinga. og voru skinnin seld á 160 kr. Slíkt tilfelli er glæsilegt, þótt mér detti ekki í hug að túlka till. okkar á þessum grundvelli, því að slíkt er einsdæmi. En mér finnst, að ef innflutningstilraunirnar heppnuðust, gæti slíkt orðið búskaparbót.

Að því er snertir ákvæði frv. um tveggja ára sóttkvíunartímann, fórum við í till. okkar eftir bendingu dýralæknis. Hann hélt því fram, að eftir misseri, eða a. m. k. ár, gætu dýralæknar fullyrt um heilbrigði fjárins, að svo miklu leyti, sem þeir gætu nokkuð um það sagt. En það er óheppilegt að hafa þetta tveggja ára ákvæði, ef svo kynni að reynast, að þess væri engin þörf, því að það er ókostur, að þetta útlenda fé þurfi að bíða hér svo lengi, áður en nokkurs hagnaðar er af því að vænta.