23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í C-deild Alþingistíðinda. (1217)

158. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Frv. þetta um eftirlit með loftskeytanotkun veiðiskipa er nú í 4. sinn borið fram hér á Alþingi. Má því svo að orði kveða, að hér sé gamall gestur á ferð, og ég vil bæta við, góður gestur, því að ég lít svo á, og það er trúa mín, að ef ákvæði þessa frv. verða lögfest, þá mundi landhelgibrotum fækka mjög og þau hverfa að mestu.

Ég hygg líka og tel það nokkurn veginn víst, að lögfesting frv. mundi hnekkja verulega þeirri skoðun ýmissa útlendra manna, að við sjáum í gegnum fingur við innlenda lögbrjóta, en beitum hinum mesta strangleika gegn útlendingum.

Þetta hefir heyrzt í útlendum blöðum og af vörum útlendra farmanna hér á landi. Slík ummæli eru, sem betur fer, oftast tilefnislaus og þannig tilkomin, að þeir sem illmælin flytja hafa sjálfir orðið fyrir barðinu á varðskipunum við óheimil veiðibrögð. Reyna þeir þá eftir getu að ófrægja landhelgivarnirnar hjá okkur á allan hátt.

Ég veit, að frv. eins og það liggur fyrir muni ekki vera öllum hv. dm. aufúsugestur, enda hefir það mætt allharðri mótspyrnu hér að undanförnu. Og hefir mér skilizt, að sú mótspyrna væri sprottinn af því, að sumir hér liti svo á, að í 1. nr. 82, frá 1917, um notkun loftskeyta, mætti fá bakhjarl öruggan til að aftra misnotkun loftskeytatækja á veiðiskipum.

En það er nú einu sinni svo, að þessi l. frá 1917 veita enga heimild til slíkra ráðstafana, sem þörfin kallar eftir, enda eru þau lög í raun og veru um annað efni og gefa ekkert tilefni til þess, að samkv. þeim sé haft sérstakt eftirlit með notkun loftskeyta á veiðiskipum.

Frv. kemur nú fram að mestu í sama búningi og á síðasta þingi. En þá var því vísað frá með rökst. dagskrá með skírskotun til l. nr. 82, 14. nóv. 1917.

Það, sem nýtt er í frv. nú, er hin lögfræðilega grg., sem sýnir, að full nauðsyn er þess, að þetta frv. verði að lögum.

Ég tek því fram aftur það, sem ég hefi áður sagt, að ég eigna ekki þá mótspyrnu, sem frv. fékk á síðasta þingi því, að nokkur maður vilji beinlínis eiga þátt í því að hilma yfir landhelgibrot, heldur hinu, að þeir menn misskilji lögin frá 1917.

Áður hefir að vísu verið bent á þennan hastarlega misskilning, en aldrei þó eins glögglega og nú er gert í hinni lögfræðilegu grg., sem frv. fylgir. Og vænti ég þess fastlega, að eftir að hafa lesið hana og athugað, sjái hv. dm. sig um hönd og líti á þetta mál öðrum augum en þeir gerðu á síðasta þingi og hleypidómalaust.

Það mætti nú ef til vilt virðast svo, að þar sem þetta frv. hefir átt við ramman reip að draga hér á Alþingi, þá væri sérstök ástæða til að gera nú vandlega grein fyrir því í einstökum atriðum. En ég tel það óþarfa, vegna þess, að frv. er nú orðið hv. þm. svo kunnugt, að málalengingar allar eru óþarfar. Ég vil aðeins benda á tvo atriði í frv., sem ég tel verulega máli skipta, þegar um er að ræða að koma í veg fyrir misnotkun loftskeyta milli skipa og útgerðarmanna í landi. Það er ákvæði 3. gr. um það, að útgerðarmenn skuli skyldir að afhenda lykil að hverju því dulmáli, er þeir kunna að nota og sem þeir af eðlilegum ástæðum oft verða að nota. Hitt atriðið er ákvæði gr. um drengskaparvottorð þeirra manna, sem senda loftskeyti, um að ekki sé neitt í þeim ætlað til að stuðla að lögbrotum eða hilma yfir þau. Því hefir stundum verið haldið fram á undanfarandi þingum, að lítið mætti byggja á slíkum drengskaparvottorðum, og heldur væri ekki mikið upp úr því að leggja, þótt útgerðarmenn ættu að skila lyklum að dulmálum sínum. Þetta tel ég þá herfilegustu firru, sem fram hefir komið gegn þessu frv. Með því er dróttað að nokkrum hluta þjóðarinnar, að hann virði eigi drengskap eða eiða. Ég hefi þá trú á drengskap alls fjöldans af landsmönnum, að þeir virði orð og eiða, og ákvæðin séu því hin öruggasta leið, sem hægt er að finna, sú leið, sem í langflestum tilfellum er nægilega trygg til að aftra landhelgibrotum hjá innlendum veiðiskipum. Það geta að vísu verið til menn, einnig á meðal vor, sem ekki virða gefin drengskaparheit. Slíkum mönnum er með engum lögum hægt að innræta drengskap né tryggja löghlýðni þeirra. Þótt einstaka menn virði ekki landslög eins og vera ber þá má það eigi aftra nauðsynlegri lagasetningu um varnir gegn lögbrotum þeirra. Strangleiki laganna er einmitt þeirra vegna nauðsynlegur.

Annars ætla ég nú ekki að vera að endurtaka það, sem margoft hefir áður verið sagt um þetta frv. Af umr. um það fyrri þingum og af lestri grg. þess nú, hljóta hv. þdm. að hafa áttað sig til fulls á málinu. Þó get ég búizt við, að einhverjar umr. verði um það, áður en til atkvgr. kemur.

Um leið og ég lýk máli mínu, ætla ég að lýsa yfir því, að þótt þetta mál ætti eftir þingvenju að fara í n. að lokinni þessari umr., þá finnst mér það lítill þarfi, þar sem það er þrisvar áður búið að vera í n. og er borið fram nú í sama búningi og áður. Ég mun því ekki gera neina till. um að vísa frv. til n.; aðrir geta gert það, ef þeir vilja.