23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í C-deild Alþingistíðinda. (1219)

158. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. þm. G.-K. hefir farið nokkrum orðum um þetta frv., og verð ég að segja það, að betri rökstuðning gat frv. ekki fengið en að maður, sem er í stj. einhvers stærsta togarafélagsins hér á landi og jafnframt í stj. Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, skyldi verða til að andmæla því. Ef einhver réttarbót felst í frv., var enginn knúðari til að mæla í gegn því en einmitt sá maður sem hefir forustuna fyrir þeim skipum, sem hafa oft hag af að verða brotleg í þessu efni. Hefði verið hyggilegra fyrir hv. 2. þm. G.-K. að fá einhvern annan til að andmæla frv. í sinn stað. (ÓTh: Sbr. það, að hæstv. ráðh. lætur hv. 1. þm. S.-M. flytja frv. fyrir sig). Það stafar nú af því, að frv. varð svo seint fyrir, að það gat ekki orðið stjfrv. Annars lítum við hv. 1. þm. S.-M. báðir svo á, að okkur hafi borið til borgaraleg skylda að bæta úr þeim ágöllum, sem nú eru í þessu efni. — Ég endurtek það, að það hefði verið hyggilegra af hv. 2. þm. G.-K. að láta einhvern annan andmæla frv. í sinn stað, t. d. hv. þm. Barð., sem aldrei hefir verið riðinn við togaraeign, og enn síður nokkurt afbrot í þessum efnum. Að hv. þm. gerði þetta ekki, skoða ég svo, að þm. játi með andmælum sínum sannleik franska orðtaksins: Sá, sem afsakar sig, ásakar sig. — Það var auðséð, að þm. var mikið niðri fyrir, þó að hann reyndi að stilla sig venju fremur, því að hann talaði með mikilli gleði um það, hversu frv. hefði hlotið hér, að hans dómi, háðulegan dauðdaga í fyrra. Og gremja hv. þm. yfir frv. var engin uppgerð. Hún var sama eðlis og ég get ímyndað mér, að gremja Al Capone verði, þegar lögreglunni loks tekst að handsama hann og hann verður leiddur í fangelsi eins og hver annar stórafbrotamaður, eins og ég hefi ástæðu til að ætla, að hv. 2. þm. G.-K. sé, a. m. k. í þessu efni. (ÓTh: Það er auðheyrt, að hæstv. ráðh. getur sett sig inn í hugsunarhátt Al Capone). Það er hv. 2. þm. G.K., sem er í þessari aðstöðu. Hann er þegar búinn að játa sekt sína.

Eins og ég sagði áðan, var hv. 2. þm. G.-K. mjög glaður yfir afdrifum þessa frv. hér í þinginu í fyrra. Hann hlakkaði einnig yfir því, að frv. hefði verið drepið á 3 þingum í röð. Út af þessu vil ég segja hv. þm. það, að mörg frv. hafa orðið að bíða lengur samþykkis Alþingis. Frv. um einkasölu á útlendum áburði var þannig drepið 4 sinnum, eða allt það kjörtímabil, sem Íhaldsflokkurinn var í meiri hl. Þegar þingið svo sá, að frv. var réttmætt og samþ. það, fór árangurinn að koma í ljós, eins og allir sjá, sem um landið ferðast. Aldrei hafa vaxið hér eins stórar grænar lendur eins og eftir að þetta frv. hafði náð fram að ganga, sem flokkur hv. 2. þm. G.-K. barðist á móti, meðan hann gat, og skapaði þannig landinu stórtjón í mörg ár, aðeins vegna þess, að nokkrir kaupmenn, aðallega hér í Rvík, græddu á því að hafa áburðarsöluna í sínum höndum.

Hefi ég nú með þessu dæmi úr þingsögunni sannað það, að það skiptir engu fyrir eitt mál, hversu oft það er drepið, heldur hitt, hvort það er réttmætt eða ekki, því að ef það er réttmætt, verður það að lokum samþykkt. Svo er og um þetta mál. Það er ekki hægt að halda niðri máli, sem styðst við eins mikinn rétt sem þetta mál. Það hefir jafnmikla þýðingu fyrir sjávarútveginn og málið, sem ég nefndi áðan, hafði fyrir landbúnaðinn. Frá því að útlendir togarar fóru fyrst að stunda veiðar hér við land, og ekki síður eftir að ísl. togararnir komu til sögunnar, hefir landhelgin verið plægð af veiðiþjófum. Ég get sagt hv. 2. þm. G.-K. það, að það er oft hægt að sjá það á því, hvernig togararnir selja afla sinn í Englandi, hvort þeir hafa laumast inn í landhelgina í Ólafsvík eða öðrum þvílíkum stöðum. Þetta sést af aflaskýrslunum og verðinu. Þegar togari selur fyrir £ 2500, má fara nærri um, að það skip hefir komið nærri Ólafsvík eða Bolungavík. Munu þess jafnvel dæmi, að íslenzkir togaraskipstjórar hæli sér af því við þá útlendinga, sem afla þeirra kaupa, að nú hafi þeir látið greipar sópa um landhelgina. Það er því engin furða, þó að sjómenn hvaðanæfa af landinu kvarti undan því, hversu íslenzkir togarar sækja fast í landhelgina, og sumir af ekki miklum drengskap. Þeim, sem efast um, að þetta sé rétt, vil ég benda á það, sem Ágúst Flygenring, fyrirrennari hv. 2. þm. G.-K., sagði hér í þinginu fyrir nokkrum árum. Hann sagði blátt áfram, að ísl. togarafélögum væri það spursmál upp á líf eða dauða að geta veitt í landhelgi, og að skipunum væri stjórnað úr landi við þessa iðju. Flygenring var og er áreiðanlegur maður, og segir hér frá hlutunum eins og þeir eru. — Þeir þm., sem kunnugir eru á Akranesi og Vesturlandi, vita það, að ísl. togararnir eru verstir í þessu efni, vegna þess að þeir leiða erlendu togarana inn í landhelgina. Það þýðir því ekki að vera með nein mótmæli við þessu. Það vita allir, að mótspyrna hv. 2. þm. G.-K. gegn þessu frv., sem miðar að því að draga úr þessari miður göfugu starfsemi, er af því sprottin, að hann er formaður í Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda og vilt því halda þessum möguleika opnum. Ég segi ekki, eins og Ágúst Flygenring, að hv. þm. neyði sín skip til þess að veiða í landhelgi, enda kemur það ekki þessu máli við. Það, sem þjóðfélaginu kemur við, er það, að ýmsir gera þetta og hafa gert það. Bakar þetta fiskiverum stórtjón, auk þess sem óorð kemst á landið, ef það spyrst meðal erlendra þjóða, að íslenzkir togarar séu leiddir inn í landhelgina.

Hv. 2. þm. G.-K. var hissa á því, að ég skyldi fara að leggja lykkju á leið mína til þess að tala við kjósendur hans, eins og menn víða annarsstaðar á landinu, um þetta mál. Ég gerði þetta vegna þess, að ég vildi vita af eigin sjón og heyrn, hvort hinir leiðandi menn í kjördæmi hv. þm. væru sömu skoðunar sem hann í þessu máli. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að svo var ekki, heldur eru þeir þvert á móti fúsir til að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að hindra þessa leiðinlegu iðju. Hefir nú tekizt samvinna með útgerðarstjóra varðskipanna og þessara verstöðva, þrátt fyrir það, þó að hér eigi hlut að máli stuðningsmenn hv. 2. þm. G.-K., því að ég býst við, að fæstir þessara manna séu sammála mér nema í þessu eina máli.

Ég hefi tekið nokkur dæmi þess í grg., hversu togararnir verða fljótt varir við, hvað ferðum varðskipanna líður. Sannast þar, að það er lítið, sem kattartungan finnur ekki. Þó að við höfum nú á að skipa 3 varð- og björgunarskipum, auk hins danska varðskips og nokkurra báta, til eftirlits, er óhugsandi með öllu, að hægt sé að verja landhelgina, meðan njósnum er haldið uppi um allar ferðir varðskipanna og „spíónar“ eru á hverri höfn, sem síma skýrslur sínar hingað til höfuðstaðarins. Meðan ekki tekst að hindra það, að loftskeytin séu misnotuð, er ekki hægt að koma í veg fyrir landhelgisbrotin. Ég segi ekki, að allir togaraeigendur yfirleitt misnoti loftskeytin í þessu augnamiði, en svo margir þeirra gera það, að brotin eru áberandi.

Þau dæmi, sem ég hefi tekið í þessu efni upp í frv., eru ekki tæmandi, því að þau segja ekki frá því, þegar togararnir eru á veiðum í landhelgi í náttmyrkri og sjómennirnir eru ekki á sjó. Sjómennirnir segja einungis frá því, sem þeir vita með vissu. Enn eitt dæmið frá Ólafsvík er, að bátur þaðan, sem af tilviljun var á ferð að næturlagi, rak sig á nokkra togara á landhelgisveiðum vestur þar. Hafði þessum togurum verið símað, að þeim væri óhætt að heimsækja landhelgina þá nótt. Er þetta eitt af mörgu, sem gerir erfitt fyrir um landhelgisvarnirnar, og hefi ég því reynt að koma því til leiðar í sumum þessum verðstöðvum, sem mest verða fyrir ránskap togara, að menn væru styrktir til að fara út á litlum bátum til eftirlits, þegar ætla mætti, að hætta væri á ferðum.

Þetta er víða erfitt, t. d. í Ólafsvík, af því að þar er svo mikið útfiri, og ef vont er í sjó, geta togararnir verið að veiðum ljóslausir, án þess að þurfa að hræðast að komið verði að baki þeim úr landi.

Mér er minnisstætt, að á jóladag í vetur fengum við skeyti frá oddvitanum í Ólafsvík um það, að þar hefðu verið 6–7 togarar um nóttina. Og það vita allir, að það er nafngreindur maður hér í bæ, sem er „spion“ við höfnina; hann njósnar og gefur bendingar til þeirra togara, sem vilja gerast brotlegir. (ÓTh: Hver er þessi nafngreindi maður?). Ég nefni engin nöfn, en tel þessa iðju miður skemmtilega. — Þegar tíðindamaður lögbrjótanna símar það að vestan, að Óðinn sá hjá Bolungavík og hitt skipið að taka jólahvíld það ár, þá sjá allir, að þeir, sem eiga togara fyrir vestan land, geta hættulaust sagt þeim að halda jólanóttina í Ólafsvík, og þeir sópa víkina vandlega. Jafnskjótt og ég fæ skeyti, sendi ég Óðni dulskeyti þess efnis, að kvartanir væru komnar frá Ólafsvík, en þegar Óðinn er kominn þangað, er allt á bak og burt.

Ég hirði ekki um það, hvernig þeir hafa farið að, þegar Ægir var að leita að Ulv, en þá var líka komið í Ólafsvík. En ég get ekki komizt hjá að minnast á þann merkilega ránskap, er hafður var í frammi, þegar verið var að leita að Apríl, og verð ég að segja þá sorglegu sögu eftir oddvitanum í Garðinum, sem er mikill stuðningsmaður hv. 2. þm. G.-K., að togararnir hafi orðið svo bíræfnir, að þeir voru þá ekki einungis í landhelgi á nóttunni, heldur líka um hábjartan daginn, eins og áður en nokkur gæzla var hér.

Ég býst ekki við að þurfa að útskýra það, hve sterk freisting það er fyrir mennina að brjóta, þegar þeir gátu fengið af sér að nota aðstöðuna, þegar verið var að leita að einu af íslenzku skipunum í ofsaveðri, til þess að vera í landhelgi í Garðsjó. Þetta er sönnun fyrir því, að það er stórt mál að reka hér úr túninu. Fyrst Múhameð kemur ekki til fjallsins, þá verður fjallið að koma til Múhameðs. Fyrst freistingin er svona mikil að veiða í landhelgi, þá er ekki um annað að gera en að vera á varðbergi um, að slík afbrot geti ekki átt sér stað jafnauðveldlega og hingað til, og það er það, sem þetta frv. stefnir að.

Ég hefi bent á, að hin beztu mál þurfi oft langan tíma til að vinna viðurkenningu, einkum ef um hagsmunamótstöðu gegn þeim er að ræða. — Ég held ég verði að segja ykkur sögu, sorglega eða gleðilega, eftir því hvernig á er litið, í sambandi við þennan ránskap, sem gerður var meðan verið var að leita að Apríl. –Þessi saga gerðist í Garðinum, sem hv. 2. þm. G.-K. er fulltrúi fyrir. Þessa daga, sem ránskapurinn var framinn, sem kjósendur hv. þm. hafa sínar hugmyndir um, hverjir hafi valdið, var eyðilagt heilmikið af netjum, sem Garðbúar áttu; en litlu síðar kemur maður héðan úr Reykjavík með talsverða peningagjöf, og eru ýmsar sögur um það, hvaðan gjöfin væri, en gjöfin var frá góðum mönnum héðan úr bæ. Hinsvegar höfðu Garðbúar misst 70 net. Þessi góði maður kom með peningana og dreifði þeim til manna, sem orðið höfðu fyrir barðinu á ísl. togurunum þegar þeir óðu þar uppi dag og nótt, meðan verið var að leita með báðum varðskipunum að Apríl.

Þetta mál er nú í rannsókn, og er ómögulegt að neita því, að þetta er lagt svo út, að samvizkan hafi slegið einn eða fleiri menn hér í bæ í sambandi við þessa veiðiferð, og hafi átt að hylma yfir þetta brot, með því að sletta hundsbót í þá, sem urðu fyrir netjaskaðanum. En hv. þm. getur verið viss um, að suður með sjó er það almennt álitið, að brotlegu togararnir hafi haft margfalt meira upp úr því að veiða í Garðsjónum en sem því svaraði, sem slett var í Garðbúa.

Þessi dæmi sýna, að þetta er alvarlegt mál, jafnþýðingarmikið fyrir smábátaútveginn og áburður og girðingar eru fyrir bóndann, og er fullkomin vörn fyrir þessum ágangi nauðsynleg.

Þess vegna er það undarlegt, að í svo stóru máli skuli form. Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda hafa kjark til þess að biðja flm. að hjálpa sér til að ekki megi ganga fram sérstök löggjöf um þetta mál. Það er ekki hægt að misskilja þetta, fremur en gjafapeningana í Garðinum. Hv. 2. þm. G.-K. segir ekki opinberlega, að hann vilji ekki vinna að þessu, en hann segir, að of mikið sé að greiða þrisvar sinnum atkv. með þessu. Þótt lítið ynnist fyrir þetta málefni, þá get ég ekki vorkennt hv. þm., þótt hann þurfi að rétta þrisvar upp hendina hér, úr því að það er mesta hagsmunamál kjósenda hans. Nú eru aðaldrættir málsins þeir, að á stríðstímunum voru hér sett lög til að hindra, vegna hlutleysis hins íslenzka ríkis, að loftskeyti væru misbrúkuð hér; þessi lög eru enn í gildi. Þess vegna er það eðlilegt, að þessi lög, sem stefna að öru takmarki, sem hafa pólitíska þýðingu gagnvart útlöndum, eigi ekki við gagnvart jafnólíku vandamáli eins og því, sem hér ræðir um, þegar 40–50 skip vilja hafa rétt til að veiða í landhelgi.

Það verður aldrei sannað fyrr en reynslan sýnir það, að hve miklu leyti hefði verið hægt að gera einhverjar ráðstafanir með gömlu lögunum, en ef ætti að taka þetta mál föstum tökum, þá verður nauðsynlegt að hafa sérstaka nýja löggjöf um það. Það kemur oft fyrir með reglugerðir að sökudólgarnir eru sýknaðir, af því að reglugerðin hefir ekki nægilega stoð í lögunum; ég nefni dæmi um það, hvort megi hafa 2 menn frammi í í bifreiðum; það eru til lög um þetta efni, því að það er álitið, að 2 menn frammi í þrengi að bílstjóranum, og slys geti af hlotizt.

Í Hafnarfirði er góður og reyndur dómari, sem hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að reglugerðirnar hafi ekki næga stoð í lögunum. Annarsstaðar á landinu. t. d. í Reykjavík er dæmt eftir ákvæðum þessara reglugerða. Þetta sýnir nauðsyn þess að hafa skýr og ákveðin lög, sem ekki er hægt að deila um, ef mikið er í húfi með niðurstöður.

Ég kem þá að þeim einstöku leiðum, sem hv. 2. þm. G.-K. taldi greiðar, að ekki þyrfti nema litla reglugerð um loftskeytatækin.

Í 1. gr. segir, að í öll botnvörpuskip skuli vera komin fullkomin loftskeytatæki eigi síðar en í árslok 1931. Þetta kemur af því, að þegar talað hefir verið um að þrengja eitthvað að í þessu efni, þá hafa komið fram hótanir um það frá togaramönnum, að þeir skyldu hefna sín og taka loftskeytatækin af togurunum, ef þeir mættu ekki nota þau til að stýra óhindraðir inn í landhelgina. Væri þrengt að kosti brotlegu togaranna, þá hafa þeir svarað: „við tökum þá tækin“, — og ef togararnir lentu í hættu, þá yrði núv. ríkistjórn um kennt. ef illa gengi.

Gagnslaust er að bollaleggja, hvað reglugerðin frá 1917 dygði í þessu efni; en hér er gerð tilraun til að hindra landhelgisbrot, og mætir hún mótspyrnu. Það er því aðeins um eitt að ræða. Vill hv. þd. styðja viðleitni landsmanna og núv. stj. í að hindra togarana í þessari óheiðarlegu iðju?

En að hugsa sér, að með reglugerð, sem byggð er á lögunum frá 1917, má svipta skipstjóra réttindum til að nota loftskeyti, eða koma því þannig fyrir, að menn, sem eiga brotlegu skipin, missi rétt til skipstjórnar í eitt ár eftir fyrsta brot o. s. frv. En ef hv. 2. þm. G.-K. hefði verið sjómaður suður í Garði, og slíkur maður hefði komið sem fulltrúi og sagt, að spara mætti pappír og blek við að gera reglugerð, þá væri öðru máli að gegna, en ég held það séu krókódílatár, sem hv. form. Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda fellir, er hann harmar, að ekki sé sett reglugerð til að hindra lögbrotin.

Hv. þm. segir, að ekki sitji á mér að vilja bæta landhelgisvarnirnar, þar sem ég hafi sjálfur oft verið á varðskipunum, en ég held, að kjósendur hv. þm. Snæf. séu ekki óánægðir yfir ferð þeirri, sem ég gerði þangað, því að þá kom ég á nætursambandinu hingað við útgerðarskrifstofuna. Síðan þá hefir brugðið svo við, að togararnir hafa varla komið þangað í landhelgi.

Ég get sagt það, að á fjölmennum fundi í Ólafsvík og á Sandi var kveðið upp úr með það að gæzlan hafi alltaf verið að batna síðan núverandi stj. tók við.

Ég get sannað hv. þm. (ÓTh), einmitt með lýsingum sjómanna sunnan- og vestanlands, að á þeim tíma, sem ég, hv. þm. Ísaf. og hv. 4. landsk. vorum á ferð, var forsvaranlega séð fyrir landhelginni, þar sem tvö skip höfðu þá gæzluna með höndum og togarar þá lagstir frá landinu, þegar vornóttin er björt. En hv. þm. hefir máske komið illa, að þessir fundir voru haldnir í vor. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja, mér er nóg, að ég veit, að landhelgisgæzlan er alltaf að batna hér, síðan núv. stj. tók við völdum. Og áhugi manna fer alltaf stórvaxandi fyrir landhelgamálum. En ég veit, að hv. þm. þykir það leiðinlegt, og svo er ef til vilt um fleiri. Ef hv. þm. gerir þetta mál pólitískt. mun það áreiðanlega koma fram við kosningarnar í vor. hvernig þjóðin lítur á málið, því að þjóðin óskar ekki eftir því, að forusta landsmanna komist í hendur manna, sem eru á sama pólitíska stigi og í samvinnu við form. ísl. botnvörpuskipæigenda.

Ef flokkur hv. þm. tekur upp á því að láta eina 10 menn tala sig dauða í þessu máli, þá hefi ég hvorki orku né vilja til að halda eins margar ræður og þessir menn. En ég hefi þegar komið fram með rök, sem nægja þeim, sem líta á þetta sem þjóðarmál, en ekki hagsmunamál einstakra manna. Eins og Á. Flygenring sagði, að togurunum hefði verið skipað inn í landhelgina, hefi ég ástæðu til að halda, að svo sé enn. Og ég hefi sýnt fram á, að sú löggjöf, sem nú er, getur ekki nema að nokkru leyti orðið að gagni í þessu efni, en þá verður að breyta henni, og mun ekki standa á mínu atkv. til þess, og ég treysti því, að hv. þm. líti eins á málið, en gleymi því, að 10–20 menn hér í Rvík kunna að bíða tjón við það. Ég sé ekki ástæðu til að segja meira að sinni; ég hefi reynt eins og unnt er að halda mér við efni málsins.