23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í C-deild Alþingistíðinda. (1220)

158. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Ólafur Thors:

Ég þarf ekki miklu við að bæta það, sem ég hefi þegar sagt í frumræðu minni. — Það var ekki rétt, sem hæstv. ráðh. sagði í lok ræðu sinnar, að hann hefði haldið sér við efni málsins. Hann reyndi einmitt að halda sér fyrir utan efni málsins. Meiri partur ræðu hans var tómar endurtekningar. En efni ræðu hans er ég þegar búinn að svara í frumræðu minni. Kjarni málsins er, hvort ákvæðum þessa frv. megi fullnægja án þess að setja nýja löggjöf. Hæstv. ráðh. vildi sanna það, að ég með afstöðu minni til málsins vildi halda áfram möguleikunum til að ræna landhelgina. Ég verð að segja það, að þessi staðhæfing ber vott um frábærlega sljóa dómgreind. Ég álít það ekki mitt hlutverk að sannfæra hæstv. ráðh. og kenna honum, hvernig eigi að koma öllum þeim ákvæðum í framkvæmd, sem hann vill lögleiða með frv. En þó hefi ég gert það. Það mætti segja, að framkoma hæstv. ráðh. í þessu máli gæfi tilefni til að gruna hann um græzku í landhelgismálunum. Hæstv. ráðh. sagði þdm. frá því, að hann hefði farið til kjósenda minna til þess að fá fulla vitneskju um, að þeir væru í andstöðu við mig í þessu máli. Það er rétt, að hæstv. ráðh. brá sér þangað, en ég álít, að hann hafi farið þangað fýluför, eða sannkallaða sneypuför. Hann bauð mönnum þar til veizlu og var hinn alúðlegasti, eins og hans er vandi þegar líkt stendur á. Hófust síðan umr. og hann spurði menn, hvernig þeir litu á þetta mál, og átti hreppsnefndaroddviti að svara fyrir. Síðan hafði hann spurt, hvort þeim sýndist ekki heppilegt að láta smábáta gæta landhelginnar. Einum manni varð þá á að segja, að þetta mundi sennilega ekki takast vel, og benti á Tervanimálið. Hefði ráðh. þá orðið svo reiður, að fundarmönnum varð um og ó, og hótaði fundarstjóri að slíta fundi, ef ráðh. hegðaði sér jafnósæmilega. Síðan fór hæstv. ráðh. að dylgja með það, að ég mundi vera óheill í landhelgismálinu. Þá hafði hreppsnefndaroddviti sagt, að sér þætti undarlegt af hæstv. ráðh. að boða til þessa fundar án þess að gefa mér kost á að koma þangað. Annar viðstaddur fundarmaður, séra Eiríkur á Útskálum, hafði tekið það fram, að þetta væri óviðeigandi, þm. kjördæmisins væri á móti frv., af því að hann teldi það óþarft.

Þetta voru viðtökurnar, sem hæstv. ráðh. fékk á þessum fundi. En úr því að hann á annað borð fór að segja nokkuð frá fundinum, þá hefði hann átt að segja dálítið meira. Það kom fram fyrirspurn um það, hvort ekki væri hægt að draga úr snattferðum varðskipanna. Þegar hér var komið, stökk ráðh. upp afarreiður og lá við sjálft, að fundi yrði slitið. Hæstv. ráðh. hefði átt að hafa vit á að þegja yfir þessum fundi. Hann verður áreiðanlega ekki til að styrkja hann í þessu máli. Það, sem hér er um að ræða, er það, hvort þörf er á þessu frv. til að koma í veg fyrir þessi landhelgisbrot, sem hæstv. ráðh. álítur, að eigi sér stað. Dómur kjósenda minna er, eftir því sem fram hefir komið, í fullu samræmi við skoðanir mínar. Um það, hvort landhelgisveiðinni er stjórnað af útgerðarmönnum, skal ég ekki endurtaka neitt frá því, sem ég hefi þegar sagt.

En hæstv. ráðh. hlýtur að sjá, þegar honum er bent á það, að hann fer villigötur, ef hann álítur, að hægt sé að byggja nokkuð á þessum þrem dæmum sem hann nefndi. Hann vill halda því fram, að um fleiri dæmi geti verið að ræða en þessi þrjú. En þetta sýnir, hve veik aðstaða hans er, þegar hann nefnir aðeins þessi þrjú dæmi, en veit engin önnur.

Þá telur hæstv. ráðh., að ekki verði hægt að koma því fyrir innan laganna frá 1917, að hægt sé að svipta útgerðarmenn heimild til þess að hafa loftskeytatæki á skipum. Einmitt um þetta eru skýrust ákvæði í lögum frá 1917, í 2. gr.

Hæstv. ráðh. drap á eitt atriði í ræðu sinni, sem ég sá ástæðu til að gera fyrirspurn um, en hann neitaði að verða við henni. Hann sagði, að hér við höfnina væri leigður maður til að njósna um ferðir varðskipanna og gefa í hendur þeirra, sem á óheiðarlegan hátt vilja nota sér það. Ég skora á hæstv. ráðh. að segja hver hann er, ef þetta er ekki ein af hans venjulegu Gróusögum. Hæstv. ráðh. er ekki þekktur að því að hlífa andstæðingum sínum og hefir hann ráðizt að mörgum, sem minna hafa gert fyrir sér en þessi njósnari, ef hann er til.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að enginn vandi hefði verið að vera á veiðum í Ólafsvík á jólanóttina, þegar vitað var, að varðskipin voru í Reykjavík. Ef nokkur meining er með þessu, þá hlýtur hæstv. ráðh. að skilja, hvílík ábyrgð hvílir á honum, sem nótt eftir nótt hefir verið með varðskipin í snatti og gefið mönnum vitneskju um það fyrirfram. Ef skaðsemi hlýzt af vitneskjunni um verustað varðskipanna eina nótt, þá hlýtur hæstv. ráðh. að skilja, að hann, sem heldur varðskipunum í snattferðum fyrir sjálfan sig og auglýsir ferðirnar löngu á undan, svo að allir vita, hvar þau eru á hverri stundu, að hann er óskapa sakarmaður í þessu efni.

Hæstv. ráðh. var að segja „gamansögur“, eins og hann orðaði það, í sambandi við Aprílleitina. Mér finnst það ógeðsleg tilhneiging hjá hæstv. ráðh. að vilja draga þetta slys inn í þetta mál og nota kýmni sína við það; já, það er undarleg tilhneiging að vilja draga þennan sorglega viðburð inn í þetta soralega umtal. Ég trúi ekki öðru en að flokksmenn hans finni til þess. En ég vil ekki gera þessa hlið málsins að umtalsefni. Ég hefi bent á, að hann hefir engin rök fram að færa því til sönnunar, að íslenzk skip hafi verið í landhelgi um þetta leyti. En hann ætti að rannsaka það, ef íslenzkir menn hafa verið í landhelgi um þetta leyti, hvort það hafi verið fyrir tilverknað útgerðarmanna.

Ég vil ekki, til þess að teygja ekki umr. að óþörfu, ræða um það, hvort ráðh. hefir afsökun eða ekki fyrir misnotkun varðskipanna. Hv. þm. Ísaf. og hv. 4. landsk. neyddust til að taka því eina tækifæri, sem bauðst til þess að vera á þeim fundum, sem ráðh. boðaði til, og urðu því að vera samskipa honum. Um mig persónulega skal ég ekkert segja, — það er talið, að ráðh. sé hræddur við mig og hafi því heldur viljað verða sér til skammar með því að bægja mér frá fari en hætta á að sleppa sér á hverjum fundi. En þetta hafði pólitískan ávinning í för með sér, því að það er alls ekki víst, að við hefðum komið tveimur að við kosningarnar, ef landsmenn hafðu ekki fengið að sjá hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. sagði, að málið snerist um það, hvort þm. nenntu að rétta upp hendina til að fyrirbyggja misnotkun loftskeyta. Ég hefi sýnt svo greinilega fram á, að ég efast ekki um, að hann og hans flokksmenn skilji það, að ef um misnotkun er að ræða, þá er auðvelt að koma í veg fyrir það eingöngu á grundvelli laganna frá 1917. Nýrrar lagasetningar þarf því alls ekki við.

Forseti Sþ. (ÁÁ), sem á sæti í þessari hv. deild, hefir bæði um og eftir hátíðahöldin í sumar sagt, að ágæti hátíðarinnar færi eftir því, hver áhrif hún hefði á menn. Áhrifin, sem þessi hátíð hefir haft á hæstv. dómsmrh., má lesa í 5. gr. þessa frumvarps.