31.03.1931
Neðri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í C-deild Alþingistíðinda. (1593)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hér hefir komið fyrir óvenjulegt atvik. 2 stjórnmálaflokkar landsins hafa samþ. með atkvgr. að taka fyrir mál, sem ekki er á dagskrá. Þessi mál eru fyrir tiltölulega skömmu fram komin, en fjöldi nauðsynjamála bíður.

Þessi mál eru hagsmunamál fyrir Rvík eina, og er því ekki undarlegt, þótt þm. Reykv. séu með þeim. En hitt sætir meiri furðu, að aðrir hv. þdm. skuli ljá þessu atkv. sín.

Vel gæti ég trúað því, að þegar þm. Reykv. væru orðnir 9, þá á væri rétt að taka upp þá nýbreytni, að láta þá ljúka sér af, með því að tala í 2–3 mán., áður en hinir aðrir þm. eru kvaddir til þings til þess að greiða atkv. — Skal ég að svo stöddu ekki fara lengra út í þetta. Virðist mér, sem þetta frv. um virkjun Sogsins sé árangur af frv. undanfarinna þinga um raforkuveitur til almenningsþarfa; vil ég þá aðeins benda á, að með þessu frv. er ekki bætt úr almenningsþörfum.

Ef þetta frv. verður samþ. og ríkissj. gengur í 7 millj. kr. ábyrgð, þá álíta flm., að allt sé í lagi með rafmagnsmál yfirleitt. Þeir segja, að þetta sé stórt spor í áttina til þess, að sveitir landsins fái rafmagn, a. m. k. Suðurlandsundirlendið. Þessi upphæð nægir aðeins til þess að virkja og flytja rafmagnið til Rvíkur. En hverju eru svo sveitirnar nær? Enginn þarf að halda, að þetta leysi rafmagnsmál sveitanna. Að auki á svo að veita stórfé úr ríkissjóði til þess að gefa í þetta fyrirtæki. Síðan yrði ríkið að láta sérstakar ábyrgðir til handa sveitarfél. víðsvegar um land.

Viðvíkjandi ábyrgðinni yfirleitt vil ég segja það, að það er mjög varhugavert fyrir ríkið að hlaupa í útlendar ábyrgðir fyrir hin og þessi héruð eða kaupstaði.

Ég álít, að hefja þurfi betri undirbúning um það, hvernig virkjun skuli haga. Og ég tel ekki útilokað, að bæjarfélög, sem legðu saman, gætu fengið lán í útlöndum til virkjunar, ef hægt væri að leggja fyrir erlenda sérfræðinga, hvernig skipulögð hefði verið virkjunin og það félli þeim í geð. En þegar talað er um, að ríkissjóður skuli ganga í 7 millj. kr. ábyrgð fyrir Reykjavík, þá mega menn ekki gleyma því, að Rvík hefir rafmagn og ýms önnur þægindi, sem sveitirnar hafa ekki. Og þó að Rvík fái þetta rafmagn, þá eru sveitirnar í sama kulda og sama myrkri eins og áður.

Í þessu frv., sem er stórmál, finnast smámunir, eins og t. d. það, að ríkið leggi til fé í veg, til að flytja á efni að Soginu. Sú vegargerð er ekki nauðsynleg fyrir ríkið. Það datt mér aldrei í hug, að bæjarfélagið mundi fara út í aðra eins smámuni og þessa.

Að síðustu skal ég taka það fram, að ég tel málið svo illa undirbúið, að ekki sé rétt að ákveða neitt um það nú.