06.03.1931
Neðri deild: 17. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (1697)

87. mál, flugmálasjóður Íslands

Gunnar Sigurðsson:

Það er náttúrlega rétt hjá hv. flmþ., að útflutningsgjöld á síld eru mjög mikil. En ég hefði heldur óskað, að lækkunin kæmi annarsstaðar fram, og byggi það einmitt á rökum hv. flm. Hann sagði, að flugmálin væru á tilraunastigi, og hann vildi ekki mótmæla, að síldarleitin gæti orðið til gagns. Það er náttúrlega leiðinlegt, þegar eins fer og í fyrra, þegar vélin bilaði, er mest reið á. En nú er komin hér flughöfn og hægt að gera við bilanir, og það ætti að fyrirbyggja slíkar stöðvanir, eða tryggja á. m. k., að þær komi mjög sjaldan fyrir. Hv. flm. er svo viðsýnn maður, að hann skilur vel, hvað flugferðir hafa að þýða í framtíðinni. Ég vildi óska, að hægt hefði verið að bíða með þessa lækkun, þangað til flugferðirnar væru komnar af tilraunastiginu. Þá verður hægt að reka þær á tryggari hátt og málinu borgið, þó að þessar tekjur væru lækkaðar.