23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í C-deild Alþingistíðinda. (2005)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Gunnar Sigurðsson [óyfirl]:

Ég mun hafa beðið um orðið, til að svara nokkrum aths., sem gerðar voru við það, sem ég sagði um þetta mál í fyrradag.

Ég skal taka það fram, að mér leiðist þessi þingmálafundabragur hér í deildinni. Það minnir mann á þingmálafund, þegar í deilur slær milli sjálfstæðismanna og sósíalista. Það á ekki við í svo miklu stórmáli sem þessu, enda gaf frummælandi ekki tilefni til þess, því hann kvaðst fús að tala við hvern sem væri og taka á móti brtt., er til úrlausnar væru á þessu máli.

Svo er það þetta einstaklingsframtak, sem mikið hefir verið talað um í sambandi við þetta mál. Þeir hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Ísaf. virðast, hvor í sínu lagi, nokkuð hjátrúarfullir um þetta hugtak. Ég viðurkenni, að það þarf að byggja á því, en hið opinbera verður að styðja einstaklingsframtakið á meðan það er á tilraunastigi.

Þá kem ég að ræðu hv. 3. þm. Reykv., þar sem hann segist vera á móti því, að ríkið taki á sig áhættuna af málinu, meðan það sé á byrjunarstigi. Þetta er vitanlega ekki rétt. Það er svo með allar tilraunir, að ekki er hægt að vænta hagnaðar af þeim. Og það er ekki sanngjarnt að heimta að einstakir menn eða félög leggi fram mikið fé, áður en vitað er, hvort það fé fæst nokkurntíma aftur. Því finnst mér, að menn af öllum flokkum ættu að vera sammála í þessu máli, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni og kom enn betur í ljós hjá hv. 1. þm. S.-M., að ríkið taki á sig áhættuna við tilraunirnar. Það sama kom líka fram hjá hv. þm. Vestm.

Að því er saltfisklöndin snertir, sagði ég ekki orð í þá átt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði; hann gerði mér upp orð, að ég vildi hætta að selja þangað fisk. En þetta er ekki rétt. Ég vildi gera tilraunir, til að losna sem mest við að binda í framtíðinni saltfiskmarkað okkar við þessi lönd því nær eingöngu.

Ég skal viðurkenna, að margt var skynsamlega athugað í ræðu hv. þm. Vestm., enda er hann fagmaður. Og hann tók sérstaklega upp það, sem ég lagði áherzlu á í fyrri ræðu minni, að útlendingar ættu að gera tilraunirnar; þeir hefðu þekkingu, veltufé og sambönd, og því siður hætt við, að þeir tapi. Það er ekki bundið við, að þeir taki fiskverzlunina alveg að sér. Það er ekki það, sem ég vil, heldur láta þá koma tilraununum af stað. Mér fannst hv. þm. nokkuð svartsýnn á, að hægt mundi að fá markað fyrir þorsk öðruvísi en saltaðan. Við vitum það báðir, sem höfum verið í Þýzkalandi, að það er mikill munur á okkar fiski og þeim, sem Þjóðverjar verða að leggja sér til munns. Það er ekki óhugsandi, að maður gæti kennt þeim að nota þessa vörutegund þar.

Það, sem ég benti á í fyrri ræðu minni og lagði áherzlu á, var, að landið legði frekar í kostnað en hingað til á þessu sviði, að afla markaða með auglýsingum og með því að senda menn út.

Mér er kunnugt um, að aðrar þjóðir verja miklu fé til auglýsinga, og það ekki eingöngu ríki, heldur líka félög. Ég hefi átt tal við útlending, sem hér er að leita sambanda fyrir lýsi. Hann sagði, að félagið, sem hann ynni hjá, verði 3 millj. kr. á ári til að leita sambanda og til auglýsinga.

Þetta held ég að Íslendingar hafi aldrei skilið til hlítar og eigi mikið eftir í því efni. Ég get ekki talað sem fagmaður, en ég veit, að þetta verður að gera.

Ég vil ljúka máli mínu með því að vona, að þetta mál verði ekki gert að flokksmáli. Og ég vona, að menn sjái, að það er aukaatriði, hvaða aðferð hver flokkur vill hafa, bara að það takizt að halda framleiðslunni, sem heldur uppi þjóðarbúskapnum, í sem beztu verði í framtíðinni.