24.03.1931
Neðri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Benedikt Sveinsson:

Frsm. lét þá skoðun hv. menntmn. í ljós, að prestar vorir gætu sótt sér andlega og veraldlega menntun til nágrannaþjóðanna. Ég hefi nú heyrt því haldið fram af mjög merkum mönnum, að íslenzkir prestar væru víðsýnastir allra presta á Norðurlöndum. Svo hefir menntaður maður sagt mér, sem kunnugur er andlegum málum bæði í Danmörku og á Íslandi, að hinir þröngsýnustu meðal íslenzkra presta væru á borð við hina frjálslyndustu meðal danskra klerka. Er það t. d. alkunnugt, að mikil þröngsyni og heift í trúmálum ríkir manna meðal í Noregi.

Eru helzti margir frændur vorir þar fullir ofurkapps og blindrar trúarbragða þrjózku, svo sem þeir vita gerzt, sem þar eru kunnugastir. Fæ ég ekki séð, að klerkar vorir hafi annað erindi til þessara tveggja þjóða en þá, ef til vill, eins og segir í forna málshættinum, að þekkja vitin til þess að varast þau. Ég skal ekki mæla því í gegn, að klerkar vorir mættu hljóta gagn af utanförum í verklegum efnum, svo sem lagagreinin mælir fyrir, og er gott eitt um það að segja, en þar sem klerkar vorir hafa látið búskap að mestu fyrir ganga, þá er þörf þeirra minni en áður að sækja búvizku til erlendra þjóða.

Af þessu fæ ég ekki betur séð en að með þessu frv. sé lýst vantrausti á íslenzkum prestum, þar sem nauðsyn þykir til bera að senda þá til þess að læra af starfsbræðrum sínum á Norðurlöndum, sem eins og ég hefi tekið fram eru íslenzkum prestum alls ekki til fyrirmyndar. Hinsvegar tel ég hér ekki um neina hættu að ræða, því að ég hér svo mikið traust til klerka vorra, að þeir séu sjálfstæðari en svo, að þeir láti leiðast á glapstigu af þeim heimskari kennimönnum. — Hitt efa ég eigi, að þeir sjái fyrir sér ýmsa þá verklega hluti, að þeim sem öðrum megi að einhverju gagni verða. Mun ég því eigi spyrna gegn þessu lítilmótlega frv.