31.03.1931
Efri deild: 38. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Þetta mál hefir verið talsvert umtalað hér í þessari hv. deild áður, en sökum brtt., sem meiri hl. menntmn. vill leggja fram, vil ég aðeins segja fáein orð.

Ég verð að játa, að hv. Nd. hefir farið með skilningi með þetta mal, en það finn ég þó að meðferðinni, að hún bindur styrkinn við fjárlagaákvæði, þannig að Alþingi verður að ákveða styrkinn í hvert sinn. En brtt. gengur út á það, sem upprunalega var í frv., að stj. verði heimilt á ári hverju að veita 2–5 prestum 2000 kr. styrk á ári. Ég fyrir mitt leyti vil halda mér við þetta, og meiri hl. n. álítur, að þetta sé tryggilegast fyrir prestana og miklu betra en að þurfa að setja þetta í fjárlögin í hvert sinn og þau eru til meðferðar í þinginu.

Það eru víst allir sammála um það, að prestar þurfi að fá þennan styrk. En hann kemst í miklu fastari skorður með því að ákveða hann með lögum í eitt skipti fyrir öll, og því held ég fast við frv.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. hafi þegar ákveðið, hvorum megin þeir ætli sér að vera í þessu máli, og sé ég því ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það.

Ég hefi átt tal við allmarga menn um málefnið, og hafa þeir látið þá sömu skoðun í ljós og ég, að þetta gæti orðið til þess, að stundum yrði ekkert fé veitt í fjárlögum í þessu skyni, og hafa þeir því talið miklu æskilegra, að till. n. verði samþ.

Í þeirri brtt., sem hér er borin fram, er aðeins farið fram á, að tveimur prestum verði veittur þessi styrkur, þ. e. a. s. 2000 kr. á ári til hvors fyrir sig.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, sem þegar hefir verið rætt allýtarlega hér í hv. d.