26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (463)

43. mál, lækkun vaxta

Ólafur Thors:

Mér ber sjálfsagt að þakka fyrir hönd skilamannanna í landinu, sem hv. frsm. talaði um, þann hlýja hug, sem lýsir sér við flutning þessa máls. Hann og fleiri hafa gert mikið orð á því, hve þungar klyfjar skilamennirnir í landinu verða að bera vegna vanskilamannanna. Mér er skylt, sem einum af þessum skilamönnum, að þakka þennan hug. Félag það, sem ég vinn fyrir, borgar árlega nokkuð á fjórða hundrað þúsund krónur í vexti, og þó að ekki væri nema fjórðungi þess létt af þessu skilafyrirtæki, væri það þó nóg til þess, að við hv. flm. gætum lifað af því góðu lífi og deilt þó til hægri og vinstri.

Þó verður þakklætið ekki eins einlægt, af því að ég veit ekki, hvort hér fylgir hugur máli. Það vita allir, að flm. þessarar till. eru valdamiklir menn í sínum flokki. Ég minnist þess, að á Alþingi 1927 flutti hv. 2. þm. Árn. till. um að rannsaka möguleika fyrir lækkun vaxta. Hann átti þá samherja við flutning málsins núverandi hæstv. forsrh. Báðir voru þeir sammála um, að það væri leikur einn að skila þessum óskum heilum í höfn. Ég man ekki orðrétt, hvernig þeir komu orðum að þeirri hugsun, en það mun ekki rangt með farið, að þeir hafi sagt, að það væri alveg á valdi fjmrh. að lækka vextina.

Saga þessa máls hefir verið rakin á undanförnum þingum; hv. flm. minntist eilítið á hana. Það er raunasaga um þetta ágætismál, sem hefir haft slíka valdamenn að baki eins og hér hefir átt sér stað, því að reyndin hefir orðið sú, að eftir að þessir tveir hv. flm. voru orðnir æðstu valdamenn þjóðarinnar, annar forsætisráðherra, hinn forseti Sþ., urðu úrslitin samt, að vextirnir lækkuðu ekki, heldur hækkuðu. Það er þessi stóra ráðgáta, sem veldur því, að ég er ekki eins viss um, að hugur fylgi máli, nema því aðeins, að þetta mál eigi sér dýpri rætur; en þá kemur fram lítill skilningur á fjármálum í þessari till.

Þó að ég sé þakklátur fyrir það, sem ég gat um í upphafi, get ég ómögulega komizt hjá því að væna þessa menn um alvöruleysi, þegar ár eftir ár er búið að flytja þetta af þeim mönnum, sem fara með völdin í landinu, og samt kemst það aldrei í framkvæmd. Ég veit ekki, hvort það er meinleg óheppni, sem ræður því, hvernig till. er orðuð. Þar stendur: „Alþingi ályktar að skora alvarlega á ríkisstjórnina“. Þetta táknar víst, að nú sé það í alvöru, í mótsetningu við það, að áður var allt í gamni.

Ég býst við, að sannleikurinn í þessu máli sé sá, að aðrar og dýpri orsakir heldur en viljaleysi valdhafanna liggi til þess, að óskir manna í þessum efnum hafa engan árangur borið. Ég held nefnilega, að það hafi verið rangt hjá hæstv. forsrh., þegar hann á þinginu 1927 kvað upp þann dóm, að þetta mál lægi eingöngu á valdi fjmrh. Ég tel það hárrétt hjá hæstv. núv. fjmrh., að ekki sé hægt fyrir ríkisstj. að taka sér það vald að skipa fyrir á hverjum tíma, hverjir skuli vera vextir þjóðbankans.

Ég tel ekki ástæðu til að fara út í neinar teoriskar umr. um það, hvað veldur vaxtahæð á hverjum tíma. Ég vil aðeins líta á þetta frá því sjónarmiði, sem blasir við hverjum einstaklingi. Allir vita af reynslunni, að afkoma ísl. bankanna hefir verið hörmuleg og er það enn í dag. Aðalástæðan fyrir töpum þeim, sem bankarnir hafa orðið fyrir, liggja í því, hve atvinnurekstur er hér áhættusamur, og svo vitanlega ennfremur það, að bankastjórar á öllum tímum munu gera einhverjar skyssur.

En sú staðreynd blasir við, að afkoma bankanna hefir verið ill. Hvaða áhrif mundi nú þessi till., ef hún næði samþ., hafa á afkomu bankanna?

Bankarnir starfa með tvennskonar fé, erlendu lánsfé og innlendu sparifé. Erlenda lánsféð er samningsbundið til margra ára, og ekki mun hægt að hafa áhrif á vaxtakjör þess. Um innlenda spariféð er það að segja, að ef ætti að færa niður innlánsvexti, mundi það streyma úr bönkunum og án milligöngu þeirra verða fastsett í fyrirtækjum ýmsum, svo sem húsbyggingum. En ef lækka á útlánsvexti bankanna án þess samtímis að færa niður vexti af sparifé og innlánsfé, yrði um að ræða klyfjar, er mundu leggjast mjög þungt á bankana, en reynslan sýnir, að þeir eru ekki færir um að bæta á sig.

Hversu feginn sem ég yrði vegna nauðþjakaðra ísl. atvinnurekenda, ef vextir lækkuðu, verð ég yfirleitt að beita mér á móti því, að Alþingi sé að hafa afskipti af þessu máli. Alþingi hefir á fullnægjandi hátt, og meira en það, tekið í sínar hendur meðferð bankamála. Það er óviðunandi, að þingið hafi enn meiri afskipti en þau, að velja báðum bönkunum yfirstjórn. Og hv. 1. flm. ætti sem bankaráðsmaður að hafa skilning á, að slík afskipti eru óþolandi sem þau, er hann fer fram á.

Ég veit, að hv. þm. mun fallast á rök mín, ef hann vill minnast orða, sem hann viðhafði í frumræðu sinni. Hann sagði, að sökina á vaxtahæðinni ætti þjóðbankinn, því að eftir höfðinu dansi limirnir, og aðrir bankar væru neyddir til að fylgjast með honum. En alveg eins og það er rétt, að t. d. Útvegsbankinn getur ómögulega fært niður vexti, nema Landsbankinn geri hið sama, þá er víst, að Landsbankinn getur ekki lækkað vextina, meðan hann starfar með erlendu fé með samningsbundnum vöxtum.

Ég skal samt ekki fullyrða, að með öllu sé ótækt að lækka vexti í landinu, en við verðum að sætta okkur við, að þeir dómar séu kveðnir upp af okkur færari mönnum, bankaráðsmönnum og fjmrh.

Að því er við kemur tilgangi flm., að bæta úr kreppunni með vaxtalækkun, þá er það flókið mál, hver áhrif breyting vaxta hefir á kreppuna, og fer það eftir orsökum kreppunnar. Ég er ekki viss um, að hv. 1. flm. hafi gert sér grein fyrir sambandinu milli vaxtahæðar og eðlis þeirrar kreppu, sem er skollin yfir íslenzkt atvinnulíf. Ef hitt vakir fyrir honum, að þjökuðum atvinnufyrirtækjum verði léttir að lækkun vaxta, þá er ekki um það að deila. En ég hygg, að atvinnufyrirtækjunum eigi að rétta hjálparhönd á annan hátt, með því að lækka á þeim skatta og tolla.

Hinu er náttúrlega ekki að leyna, að ef við eigum að hafa von um, að fjárhagsafkoma ríkissjóðs leyfi, að skottum sé létt af, verður að gæta meira hófs í meðferð ríkisfjármunanna en gert hefir verið. En í þetta skipti mun ég ekki fara út í þá sálma.