02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (476)

43. mál, lækkun vaxta

Sigurður Eggerz:

Ég hefi ekki miklu að svara. Ég sagði, að hæstv. stj. hefði gefið loforð um vaxtalækkun. Það verður ekki véfengt, að forsrh. sjálfur hefir borið fram till. um vaxtalækkun. Og síðustu kosningar unnust að miklu leyti fyrir loforð um laga vexti, sem þeir menn gáfu, sem nú ráða í landinu. Ég þarf engan frest til þess að sýna fram á þetta. Allir, sem fylgzt hafa með þjóðmálunum, vita, að þetta er rétt. Hæstv. stj. getur ekki flúið af hólmi í þessu máli. Hún getur aðeins sagt, að hún hafi ekki vitað, hverju hún lofaði. Það er hennar eina vörn í þessum efnum.

Hvað viðvíkur orðum hæstv. fjmrh. um seðlaútgáfuna, þá má um það segja, að „heggur sá, sem hlífa skyldi“. Það var þáv. atvmrh., sem var framsóknarmaður, sem heimilaði mjög mikla seðlaútgáfu.

Þegar ég bauð mig fram í Dalasýslu seinast, var ráðist þar á mig fyrir fjármálastjórn mína. Ég var þá svo heppinn að geta náð í Alþt., og svo fór, að frambjóðandi Framsóknarfl. komst ekki lifandi gegnum þær kosningar.

Hvað viðvíkur skipun bankaráðsins, þá get ég ekki tekið það aftur, að Jón Árnason, einn af framkvæmdastjórum Sambandsins, var gerður að æðsta manni Landsbankans. Annað hefi ég ekki sagt og ekki gert neina persónulega áras á þennan mann. En hag bankanna hlýtur að vera bezt borgið með því, að þeir, sem ráðin hafa yfir bönkunum, séu sem óháðastir viðskiptamönnum. En þegar viðskiptamennirnir eru orðnir mestu ráðandi í bönkunum, hljóta þeir að komast í miklar freistingar, ef þeir þurfa að taka ákvarðanir, sem snerta þeirra eigin fyrirtæki. Það getur sjálfsagt orðið erfitt að vega salt á milli hagsmuna bankans og fyrirtækisins, þó réttsýnustu menn eigi hlut að máli. Formaður bankaráðsins hlýtur að geta haft mikil áhrif á lánveitingar bankans. Ég verð því að telja það óhæft, að tveir starfsmenn stærsta skuldunauts bankanna skuli vera bankaráðsformenn, sinn í hvorum banka.

Og þegar Búnaðarbankinn tók til starfa fyrir alvöru, varði hann helmingnum af láni því, er hann fékk til starfrækslu, eða 1½ millj., til þess að lána Sambandi íslenzkra samvinnufélaga. þetta sýnir, hvað ósjálfstæðir ráðandi menn eru gegn Sambandinu. Og sjálfur hæstv. forsrh. gerist „reclame“-drengur fyrir eitt af kaupfélögum landsins — lætur gefa út bók um það á landsins kostnað og skrifar sjálfur formálann.

Hvernig getur nú verzlunarstéttin og þjóðin í heild sinni borið traust til slíkrar stj., sem gerist „reclame“-drengur fyrir kaupfélag, sem er með stjórninni, og er auk þess ríkasta kaupfélag landsins og þarf á engri hjálp að halda.