03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (483)

43. mál, lækkun vaxta

Sigurður Eggerz:

Ég vil spyrja hæstv. forseta, hve langur tími mér er útmældur. (Forseti: Fimm mínútur). Lítið er það, en þá er að reyna að nota þessar fáu mínútur til þess að svara því helzta, sem þarf.

Ég vil undirstrika það, að Landsbankinn einn hefir vald til þess að ráða vöxtum hjá sér, og landstj. hefir aldrei haft það vald. Þau mál eru svo margbrotin, að það væri óeðlilegt og enda óhugsandi, að Alþingi gæti ráðið um slíkt beinlínis, en hitt er eðlilegt og sjálfsagt, að þm. geti látið í ljósi óskir sínar, skoðanir og till. í þessu máli. Í þessu sambandi skal þess getið, að fjármálaraðherra Dana hélt nýlega fund með banka- og sparisjóðsstjórnum þar í landi, til þess að leita hófanna um lækkun vaxta. Um árangur er mér ókunnugt.

Hv. þm. Mýr. átaldi mig fyrir að hafa gert að umtalsefni eina sérstaka fjárveitingu eins bankans, nefnilega þessa 1½ millj. kr., sem Búnaðarbankinn lánaði S. Í. S. Ég sagði ekki, að bankinn hefði ekki heimild til þess að lána Sambandinu þetta fé, hefi ekki rannsakað það; hitt sagði ég ekki heldur, að Sambandið væri ekki nægilega tryggur skuldunautur. En ég átaldi það með réttu, að stærsta viðskiptafirma Landsbankans ætti formenn bankaráða beggja bankanna, Landsbankans og Útvegsbankans, og auk þess hefði sama firma fengið nær helmingi þess fjár, sem Búnaðarbankinn hefði yfir að ráða, þrátt fyrir það, þó Landsbankinn væri aðalviðskiptabanki Sambandsins. Ég tel, að gjalda þurfi varhuga við slíku, enda mun það nálega einsdæmi í öllum heimi, að stærsta viðskiptafirma bankanna sé látið hafa svo mikil umráð yfir þeim. Og það er áreiðanlega gagnstætt öllum meginreglum viðskiptalífsins, enda ósamræmanlegt heilbrigðri skynsemi. Ætla ég, að hv. þm. Mýr. hafi ekki tekizt að hnekkja þessum rökum.

Þá eru það að lokum nokkur orð til hæstv. fjmrh. Hann var að tala um það, að ég hefði ekki viljað líta við góðum tryggingum. Ég hefi ekki tíma til þess að fara út í sögu bankanna að þessu sinni, en það er einkennilegt, þegar báðir bankarnir hafa orðið fyrir miklum töpum samtímis, að taka annan bankann fyrir og ráðast á hann með offorsi og svívirðingum út af skuldatöpum hans, en hefja samtímis hinn bankann til skýjanna, eins og skuldatöp hans væru einhver helgur dómur. Þetta kalla ég, vægast sagt, litla sanngirni, en mun ekki tímans vegna fara frekar út í þá sálma að sinni. En það er nú svo með þessa stj., að þegar henni finnst hún þurfa að sverta andstæðing sinn, þá er ekkert lengur til, sem heitir réttlæti né sanngirni, enginn drengskapur né mannlund, þá er einskis svifizt og jafnvel gripið til hinna fáheyrðustu meðala til þess að geta þjónað lund sinni sem bezt.

Þá sagði hæstv. ráðh., að verkin töluðu. Jú, sjálfsagt, en ætli tölurnar fari ekki bráðum að tala? Þegar Íslandsbanki var stöðvaður, skuldaði hann Landsbankanum ca. 3,8 millj. kr., en nú kvað skuldin vera farin að nálgast níundu milljónina. Um þetta þýðir sjálfsagt ekki að sakast, en stj. á að skilja þetta, hvort sem andstæðingar eða fylgifiskar eiga í hlut, því að það tjáir ekki að lofa einn og lasta annan fyrir sama verknað. Annars ætti hæstv. ráðh. að tala sem minnst um skuldir, hann, sem hefir stýrt fjármálum þjóðarinnar undanfarin ár, sem hafa verið eindæma góð og uppgripatekjuár fyrir ríkissjóðinn, svo að tekjur hafa farið margar millj. króna fram úr áætlun árlega, en samt er útkoman ekki betri en svo, að ríkiskuldirnar eru nú orðnar 42 — fjörutíu og tvær — millj. króna. — Nei, ég held nú, að það færi bezt á því fyrir hæstv. fjmrh. að spara sér allan rosta út af þessum hlutum og minnast spakmælisins gamla, að þeir skyldu ekki kasta grjóti, sem búa í glerhúsi. Þetta vildi ég leggja hæstv. ráðh. ríkt á hjarta.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um eyru þjóðarinnar. Það er ósköp eðlilegt, að hæstv. ráðh. sé hræddur við það, að þjóðin hlusti, því að hann veit það, að ef nokkuð berst til eyrna þjóðarinnar annað en lofsöngurinn og skjallið í stjórnarblöðunum, þá er stj. bráður bani búinn. Þess vegna mundi stj. helzt kjósa, að hún gæti skorið eyrun af þjóðinni, til þess að hún gæti ekki hlustað á mál sjálfstæðismanna í landinu. En það skal ekki takast, og þjóðin skal hlusta eftir því, sem sjálfstæðismenn leggja til málanna; á þá er og verður hlustað um endilangt Ísland.

Loks talaði hæstv. ráðh. um það, að ég væri farinn að verða hræddur um mig í Dölunum. En ég er nú ekki hræddur ennþá, enda þótt stj. hafi þar mann á launum til þess að ganga fyrir hvers manns dyr með loforðum og fagurgala annarsvegar og róg og illmælgi um mig og minn flokk hinsvegar. Og ég skal segja hæstv. fjmrh. það, að mínir kjósendur vita vel, hvað er að gerast í stjórnmálunum, og hæstv. stj. mun aldrei geta skorið eyrun af þeim.