03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (484)

43. mál, lækkun vaxta

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. þm. Borgf. var að finna að því, að stj. hefði ekkert gert í þessu máli. Það kemur ekki af öðru en hví, að hún gat ekkert gert, hafði ekkert vald til þess. (PO: Reyndi ekkert til þess). Það kemur mér ekkert á óvart, því að ég man, að ég sagði hæstv. forsrh. það í fyrra, þegar hann var að berjast fyrir þessari till., að það þýddi ekkert að vera að búa til áskorun á sjálfan sig, sem maður ekki gæti orðið við.

Þegar ég talaði um Búnaðarbankann, átti ég ekki við þær deildir, þar sem ríkið hefir gert sérstakar ráðstafanir til þess að hafa vextina lága. Ég talaði um sparifjárdeildina, sem stendur eins að vígi þar og í öðrum bönkum. En hæstv. atvmrh. hefir komið því til leiðar, að vextir þar væru ½% lægri en í Landsbankanum. Þetta dró ég fram til að sýna, hvort hugur hefði fylgt máli hjá honum. Hv. þm. Borgf. sagði, að vextir hefðu hækkað í veðdeild Búnaðarbankans. Fyrst var í bráðabirgðareglugerð gert ráð fyrir 5% vöxtum, en búizt við, að afföll yrðu þeim mun meiri af lánunum. eins og t. d. hjá Veðdeild Landsbankans. En bankastjórnin áleit, að það yrði þægilegra fyrir lántakendur að láta bréfin halda nafnverði, og þá var ákveðið að sleppa afföllum, en færa útlánsvexti upp í 6%. Það er því ekki hægt að segja, að lánin hafi orðið dýrari eða raunverulegir vextir orðið hærri, þó að þessu vaxtaákvæði reglugerðarinnar væri breytt.

Hv. þm. Borgf. sagði enn, að sama aðstaða hefði verið, þegar þál. var borin fram 1927, og nú. Ég þarf þá að benda honum á, að einn til tveir mánuðir voru þá eftir, þangað til hin nýju bankalög áttu að ganga í gildi. Á þessum mánuði mátti þó alltaf eitthvað gera, ef með áhuga hefði verið fylgt. Mánuðurinn sá er nægilega stór gloppa fyrir hv. þm. Borgf. að detta gegnum, þótt hann sé stundum nokkuð fyrirferðarmikill. (PO: Nei, nei, nei. Enginn gerði ráð fyrir að nota þann mánuð).