03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (491)

43. mál, lækkun vaxta

Ólafur Thors:

Ég hefi ekki haft þá ánægju að hlusta á umr. um þetta mál hér í dag, og vil því nota þær mínútur, sem hæstv. forseti veitir mér til stuttrar aths., til þess að athuga nokkur atriði í ræðu hv. flm. um málið í gær.

Hv. flm. sagði, að ég hefði viljað draga úr heim ummælum mínum, að bankarnir væru svo illa staddir að þeir mættu illa við að taka á sig nýjar klyfjar. Var þetta hreinn óþarfi hjá hv. flm. Ég vék að vísu engu orði að þessari hlið málsins í síðari ræðu minni. En af þessu má hv. flm. ekki álykta, að ég renni frá þessum ummælum mínum. Hér á Alþingi ætti að vera óþarft að endurtaka sömu staðreyndirnar ræðu eftir ræðu. Þegar Landsbankinn var rannsakaður nú fyrir nokkrum árum, kom það í ljós, að hagur hans var allt annað en góður. Og í fyrra sýndi það sig, að hagur Íslandsbanka var ekki heldur neitt glæsilegur. Sneiði ég í engu að þeim mönnum, sem bönkunum hafa stjórnað, með því að segja þetta. Orsökin liggur í eðli íslenzks atvinnulífs. Afkoman er léleg þegar illa árar, því að þá eiga atvinnurekendur erfitt með að standa í skilum við bankana. Bankarnir verða að vera reiðubúnir til að taka á móti töpum, og verður sú ábyrgð ekki af þeim tekin á meðan atvinnuvegir okkar eru ekki betur staddir en nú eru þeir.

Hv. flm. var að tala um það, að hinir þau vextir stöfuðu af því, að Alþingi hefði ekki skipt sér af rekstri bankanna. Ég verð nú að segja það, að afskipti Alþingis af bönkunum hafa verið svo mikil til þessa, að ekki er eðlilegt, að við þau sé aukið. Þó að Alþingi kunni að taka þá ákvörðun, að rétta bönkunum hjálparhönd, veita slíkar ráðstafanir Alþingi ekki heimild til að grípa inn í einstakar ráðstafanir bankanna, er snerta daglegan rekstur þeirra. Og þessi hjálparhönd, sem Alþingi réttir bönkunum á krepputímum, er rétt atvinnuvegum landsins. Það er að vísu ekki nýtt, að Alþingi skipti sér af rekstri bankanna, en slíkt er alls ekki rétt, því að af þessu getur stafað voði fyrir afkomu þessara stofnana, sem ríkið er að leitast við að styrkja. Ég renn ekki aftur með það, að þeir, sem fara daglega með stjórn þessara mála, eiga að vera hæfari um þau að dæma en ósérfróðir þm.

Hv. flm. sagði ennfremur það, að ég teldi háa, vexti allra meina bót. Þetta er með öllu rangt. Ég sagði þvert á móti, að ég fyrir mitt leyti óskaði eftir sem lægstum vöxtum, þó að ég hinsvegar játaði, að í þessum efnum þýðir ekki að berja höfðinu við steininn. Slíku verður ekki breytt, þó að ódómbærir alþm. geri samþykktir í þessa átt. Ég álít hina háu vexti mikið böl, sem við þó verðum að búa við, og sætti mig við þá af þeim ástæðum.

Mér þykir hv. flm. næsta ófeiminn um framkomu á Alþingi, þar sem hann lætur sér sæma að flytja aðra eins grg. fyrir till. sinni og hann gerir, því að af grg. er bert, að hv. flm. hefir ekki gert sér hina minnstu grein fyrir þessum málum.

Þó að það komi að vísu ekki málinu við, þá fannst mér það undarleg speki, þegar þessi hv. flm. ætlar að slá sig til riddara á manni, sem er miklu reyndari í þessum sökum, sem er hv. 3. þm. Rvík. Honum þótti það goðgá, þegar hv. 3. þm. Rvík gat um, að á slíkum krepputímum væru bankarnir neyddir til þess að taka á sig fleiri áhættulán en í góðærum. Eftir erfitt árferði standa atvinnuvegirnir oft höllum fæti. Þá dugir ekki að skera allt niður, og bankarnir verða því að tefla á tæpara vað. Þetta eru nú þau hversdagsrök, sem eru mjög svo auðskilin, fyrir staðhæfingu hv. 3. þm. Rvík., sem hv. 2. þm. Árn. vildi telja allt að því goðgá.

Ég skal að endingu aðeins geta um það, að það er mikill misskilningur, þegar hv. flm. þessarar till. vildi byggja vonir sínar í fjármálum á mér, vegna þess að ég hafi staðhæft í fyrra, að ég gæti útvegað 5 millj. kr. lán með 5% vöxtum. Ég hefði nú talið réttara fyrir hv. flm. að kynna sér þetta dálítið nánara. Ég man að vísu ekki orðrétt, hvað ég sagði þá, en ég þykist muna, að ég hafi skýrt frá því, að einstaklingsfyrirtæki hér á landi hefðu leitað hófanna um lántöku í London og getað fengið betri lánskjör en ríkisstj, sætti sig við. En annars vil ég segja hv. flm. það að jafnvel þótt ég hefði verið maður til þess að útvega ríkinu lán með vægum vaxtakjörum í fyrra, þá verður ekki hins sama krafizt í dag, því að það er öllum ljóst, að síðan haustið 1929 hafa gerzt þau tíðindi í íslenzkum fjármálum, að við munum lengi súpa seyðið af. Lokun Íslandsbanka með þeim ummælum ríkisstj., sem þar féllu, voru ekki til þess fallin að vekja traust á íslenzku fjármálalífi. Þegar banki, sem hefir forsrh. að yfirmanni og meiri hluta bankaráðs skipaðan af ríkisvaldinu, lendir í öngþveiti, viðhafa æðstu menn bankans þau ummæli, að bezt sé að velta öllu af sér. Við þurfum ekki að hugsa til þess, þótt við séum fáir og smáir, að við getum dulið nekt okkar svo, að við súpum ekki seyðið af slíku atferli.

Hver hugsandi maður hlýtur því að gera sér ljóst, að það er allt annað að útvega lán nú en í fyrra. Og varla býst ég við, að sú staðreynd bæti hér nokkuð um, að á 18. millj. kr. hafi verið eytt af ríkisfé á síðasta ári eftir skýrslu hæstv. fjmrh., og mun það þó nær 23 millj., þegar öll kurl koma til grafar.