03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (492)

43. mál, lækkun vaxta

Jóhann Jósefsson:

Þessar umr. eru að vísu orðnar nokkuð langar, og mætti segja, að ekki væri þörf á að lengja þær mikið, enda skal ég ekki verða til þess.

Hv. 1. flm. þessarar till. kvað hafa viðhaft þau ummæli á opinberum landsmálafundi fyrir síðustu kosningar, þar sem hann var að predika fyrir þjóðinni fyrir austan fjall, að Framsóknarflokknum riði á því að ná yfirráðum yfir Landsbankanum, til þess að geta lækkað vextina. Ég veit ekki, hvort nokkur ástæða er til þess að væna þennan hv. flm. um það, að hann hafi talað þetta í fullri alvöru. Því hann hefir nú í annað sinn gerzt flm.till., sem miðar að því að lækkaðir yrðu útlánsvextir bankanna. Að vísu er hér ekki um stórt atriði að ræða, en þó verður því ekki neitað, að nokkur léttir yrði það atvinnurekstri landsins, ef lækkun fengist. En ég held, að hv. flm. hljóti að komast að þeirri niðurstöðu eftir það, hvernig flokksbræður hans hafa tekið till., að skoðun hans um vilja flokksins hefir ekki verið sem bezt grundvölluð, þegar hann lýsti yfir ástæðum flokks síns til að ná yfirráðum yfir Landsbankanum.

Af ummælum hæstv. fjmrh. verður ekkert það dregið, sem maður geti skilið á þann veg, að hann ætli sér að gera nokkuð í þessu efnum, þótt till. verði samþ. Hann ætlar aðeins að koma till. á framfæri; en þó að sú greiðvikni hæstv. fjmrh. að senda till. niður í Landsbanka, geti sparað þinginu sendisvein, þá eru það ekki tilþrifamikil átök til að lækka vextina.

Annar flokksbróðir hv. flm., hv. 1. þm. S.-M., hefir viðhaft þau orð um þessa till., að hún væri meinlaus og gagnslaus, og þegar hér við bætist, að hæstv. fjmrh. líkti henni og þessu tiltæki við boltaleik, þar sem hann sagði, að verið væri að hafa bankann fyrir bolta í þinginu, þá verður varla sagt, að af hálfu flokksbræðra hv. flm. sé hægt að gera öllu minna úr till. en gert hefir verið. Þótt hér hefðu átt í hlut andstæðingar hv. flm. og þeir lagt sig í líma til að sýna honum og till. hæfilega lítilsvirðingu, hefði þeim varla tekizt það betur en hæstv. stj. og einum virðulegum flokksbróður hv. flm. hefir tekizt.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu til fulls, benda hv. þm. V.-Húnv. á það, að samanburður hans á lánsstofnunum í landinu var ekki réttur, þar sem hann vildi gera samanburð á sparisjóðum og lánum þeirra og aðalbönkunum og lánum þeirra. Sparisjóðir vinna eingöngu með innlánsfé landsmanna, og af því eru ekki goldnir háir vextir. En bankastarfsemin er rekin bæði með sparifé og oft og tíðum með mjög dýru útlendu fé. Þess vegna er það ekkert kraftaverk, þótt sparisjóðir geti lánað með lægri vöxtum sitt fé. En hér kemur líka að því atriði, sem hv. þm. N.-Ísf. minntist réttilega a, að hér ræður miklu um, en það er, með hvaða kjörum hið útlenda lánsfé er fengið. Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að það væri fjármálastefna landsstj. og afskipti hennar, sem réði hér um miklu, ef ekki mestu. Það þoldi hv. þm. V.-Húnv. ekki að heyra og vildi gera ummæli hv. þm. N.-Ísf. að engu, vegna þess að hér væri á ferð andstæðingur stj. En ég vil leyfa mér að varpa fram þeirri spurningu: Hvers vegna hrekkur hann svo í kút, ef andað er á stj.? Er það af því, að hann er flokksmaður hennar, eða kominn að bitlingajötunni og vill vinna fyrir laununum?

Hinsvegar skal ég kannast við það, sem hv. þm. V.-Húnv. hélt fram, að töp bankanna réðu hér miklu. En hv. þm. minntist eingöngu á þessar orsakir, en lokaði algerlega augunum fyrir stærri orsökum, sem er atferli og ráðsmennska þeirra, sem ráða þjóðarbúinu.

Það er ástæða til að benda á nokkrar staðreyndir, þótt flokksmenn stj. þoli ekki, eins og raun ber vitni um, að verk stj. séu gagnrýnd. Ein staðreyndin er sú, að í tíð fyrrv. stj. var tekið lán handa veðdeildinni með alveg hliðstæðum kjörum og lán voru veitt til hliðstæðra starfa í Danmörku. Þá vorum við settir á sama bekk í þessum efnum og Danir, sem eru okkur fjölmennari og ríkari, enda reis veðdeildin þá úr rústum. En nú hefir veðdeildin ekki nokkurn eyri til að lána, aðeins bréf, sem ekki er hægt að selja. Hingað til hefir það verið hlutverk ríkisstj. að útvega veðdeildinni fé. En ástæðan til þess, að núv. stj. sér sér það ekki fært, hlýtur að vera annaðhvort sú, að ekkert lán sé fáanlegt, eða þá sú, að það fáist ekki nema með svo slæmum kjörum, að ekki sé við því lítandi.

Þetta eina atriði er nægilegt til að sýna hv. þdm. fram á, að undirstaðan, sem hv. þm. N.-Ísf. benti á, er enganveginn tilbúningur pólitísks andstæðings til þess að hallmæla stj., heldur raunverulegir þættir í fjármálalífi þjóðarinnar, sem ekki verður komizt hjá að hafa hliðsjón af, þegar verið er að tala um, af hvaða ástæðum vextirnir séu háir.

Menn kveða upp áfellisdóma yfir töpum bankanna og lánum til áhættusamra fyrirtækja. Það er yfrið hægt fyrir okkur að standa hér og dæma um lán til fyrirtækja á undanförnum árum, fyrirtækja, sem hefir ef til vill litið blómlega út fyrir í fyrstu, en sem hafa af ófyrirsjáanlegum atvikum orðið fyrir töpum, sem lent hafa á lánsstofnunum. En kemur þetta ekki fyrir í öllum löndum? Og ef áhætta fylgir atvinnurekstri í nokkru landi Norðurálfunnar, þá er það á Íslandi. Þetta veit hv. þm. V.-Húnv. vel. Því að þótt margir beri brigður á, að hann beri fjármálavitið bæði bak og fyrir, þá er hann samt svo kunnugur atvinnulífinu, að hann veit þetta. — Sú atvinnugrein, sem bankastarfsemin hefir hingað til lifað á, er sjávarútvegurinn, sem jafnframt er áhættusamasti atvinnuvegur landsmanna. Með rekstri hans kemur það auðvitað fyrir, að sumir hníga í valinn og verða ekki menn til þess að standa straum af því, sem þeir hafa tekið til láns. Auðvitað er hægt að sparka í þessa menn og þá, sem hafa lánað þeim. En par með er ekkert sannað í því, að einmitt þeir menn, sem tönnlast á slíkum ásökunum í ræðu og riti, hefðu reynzt nokkru þrekmeiri heldur en hinir.

Mér finnst ástæða til þess að taka þetta fram, vegna þess að hv. þm. V.-Húnv. dró hér algerlega einhliða fram þá orsök fyrir háum vöxtum bankana, að lánað væri til áhættusamra fyrirtækja. Og það er því fremur ástæða til að minnast á þetta, sem viðhorfið er enn óbreytt; og vilji hv. þm. V.-Húnv. og þeir, sem honum fylgja, breyta til og láta bankana aðeins lána til þess, sem er algerlega hættulaust, stendur fyrir dyrum meiri kyrkingur í atvinnulífinu en í snöggu bili er hægt að sjá út yfir.

Það er ekki hægt að komast hjá því við atvinnurekstur hér á landi að taka á sig mikla áhættu. En öðru máli er að gegna um meðferð á almannafé. Það er alveg áhættulaust fyrir ríkissj. að hafa samþykktir og vilja þingsins þar fyrir leiðarstjörnu. Stj. verður aldrei átalin fyrir það, þótt hún fari sem nákvæmast eftir því, sem ákveðið er með landslögum og stjórnarskrá. En þegar slíkur harmleikur, eða öllu heldur samband af harmleik og skopleik, er leikinn hér ár eftir ár, að hér sitja 42 menn á ráðstefnu í 3 mánuði á landsins kostnað, og sérstök nefnd þeirra manna situr 6–7 vikur við að hnitmiða niður kostnaðinn við hvern vegarspotta og símalínu, — og þegar þar við bætist, að Alþingi eyðir miklum tíma til að ræða hvern útgjaldalið, og svo þegar loks er búið að fá jafnvægi á fjárlögin og menn skilja sigri hrósandi, eftir að hafa t. d. áætlað gjöldin 12 millj. og tekjurnar 12,1 millj., kemur landsstj. til skjalanna og notar í heimildarleysi margar millj. umfram fjárlög í algerðu heimildarleysi — þá er ekki undarlegt þótt vaxtakjörin, sem við eigum við að búa, séu ekki sem bezt.

Þetta ætti hv. þm. V.-Húnv. og aðrir, sem vilja bera blak af núv. stj. eftir mátti, að athuga, því að ómögulegt er að komast hjá að nefna þetta ástand, þegar farið er að ræða um vaxtakjörin.

Þetta mál hefir nefnilega miklu breiðari grundvöll en þann, sem hæstv. fjmrh. lætur í veðri vaka, þegar hann býðst til að vera sendisveinn þingsins með till. þá, sem hér liggur fyrir, niður í Landsbanka. Á þessum breiðari grundvelli ætla ég að greiða atkv. með till. Hér er um atriði að ræða, sem stj. getur haft áhrif á, ef hana brestur ekki vilja og manndóm til þess.