14.03.1931
Efri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (593)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Halldór Steinsson:

Mér virðist málið komið inn á öfugar brautir. Hér liggur fyrir þáltill. um dýrtíðaruppbót embættismanna, en umr. snúast um almennt verkakaup í landinu. Þessari till. var vísað til n. Meiri hl. hennar leggur til, að hún verði samþ. En aftur á móti liggur ekkert mál fyrir n. um almennt kaupgjald í landinu, og þess vegna hefir hún enga ástæðu til þess að láta í ljós álit sitt um það.

Sannleikurinn er sá, að ekki hefir verið rannsakað til hlítar, hvort almennt kaupgjald er of hátt eða ekki, og er því ótímabært að leggja dóm á það. En þegar ríkisstj., sem hefir á bak við sig meiri hl. þings, flytur þessa till., þá rísa flokksmenn hennar upp á móti till., sem þeirra eigin stj. flytur. Þetta er eitt af óvenjulegustu tilfellum á öllum þingum síðaðra þjóða. Ég hefi ekki átt sæti á Alþingi nema 18 ár, en það hefir aldrei komið fyrir, að allir stuðningsmenn stj. hafi lagzt á móti henni. (JBald: Það á að kjósa í vor!). Hv. þm. þurfti ekki að minna mig á það; ég hafði það í huganum. Ástæðurnar fyrir þessu undarlega framferði eru fljótfundnar: Það eru komandi kosningar, sem gera það að verkum, að allir þessir fylgismenn stj. eru alveg á nálum. Mér finnst nú, að þeir þurfi ekki að vera svo ákaflega hræddir við kjósendur sína, því að yfirleitt munu kjósendur landsins vilja launa sínum starfsmönnum sæmilega. Þess vegna held ég, að það sé gagnslítið tromp hjá stjórnarflokknum að vilja lækka kaupið. Það mun ekki ráða úrslitum kosninganna. En satt að segja finnst mér hæstv. fjmrh. vera heldur hart leikinn af flokksmönnum sínum, þar sem hann stendur einn uppi og enginn þeirra leggur honum liðsyrði, heldur þvert á móti.