16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (663)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hákon Kristófersson [óyfirl.]:

Það eru færri menn í d. en hér eiga að vera. — Út af þessum ummælum, sem fram komu um brtt. meiri hl., vildi ég segja nokkur orð. Hv. 2. þm. Árn. sagði, að óskyldir menn skattanefndum semdu verðlagsskýrslurnar í hreppunum. Fyrir utan prest og hreppstjóra er í nefndinni 1 maður, sem oft og einatt er annar úr hreppsnefndinni. Ég býst því við, að hv. þm. geti verið mér sammála um það, að til þessarar n. er eins vel vandað og kostur er á í því byggðarlagi. Að ósamræmi eigi sér stað, t. d. í Árnessýslu, má vel vera, því það getur komið fyrir í öllum sýslum, og oft kemur það fyrir, að mismunur verðlagsins er ekki einungis milli hreppa, heldur líka oft og einatt innan hreppa. Ég held, að ef menn vilja fara þessa leið, þá verði ekki önnur hreinni leið farin en sú, sem meiri hl. fjhn. bendir til. Þar er ekki átt við verðlagsskrár í hverri sýslu, heldur í hverjum hreppi. Ég get ekki fallizt á þetta. Ég tel, að það yrði óveruleg skóbótarskipti, ef farið verður með þetta matsákvæði til skattanefndar. Það er ómögulegt að neita því, eins og hv. frsm. tók fram, að þetta verðlag verður að vera mismunandi. Ég vil ekki ætla, að ekki sé hægt að treysta svo hreppstjórum og öðrum, sem þar að vinna, að þeir fari að gefa falskar skýrslur. Hv. þm. Dal. minntist á í sambandi við brtt. sína á þskj. 160, hve óeðlilegt væri, að nokkur hluti útsvara væri undanþeginn frádrætti. Ég verð að segja það, að frá leikmannsbæjardyrum mínum er ég hissa á því og get ekki skilið, hvernig stendur á því, að hv. þm. skuli ekki hafa getað fallizt á till. hv. þm. Dal. Með sama rétti mætti segja, að það væri ástæðulaust að draga frá ýmsan embættiskostnað. Það var réttilega fram tekið af hv. frsm., að óréttlæti væri í þessu sumstaðar, en það á ekki að eiga sér stað yfirleitt.

Um það, hvort ákvæði, sem hv. þm. Dal. nefndi, kæmi í bága við stjskr., skal ég ekkert segja. En ég veit, að það hefir verið svo, að lög hafa ekki verið felld niður né ákvæðum breytt á annan hátt en þau hafa til orðið. Mér er kunnugt um það, að fyrir löngu síðan hefir fjhn. leyft sér að breyta gildandi lögum án þinglegra heimilda, og hún hefir fengið þegjandi samþykki þingsins til þess. Ég skal í þessu sambandi, ef menn eru í efa um þetta, benda á, að gildandi fyrirmælum um meðgjöf sjúklinga á Kleppi hefir fjhn. leyft sér að breyta og fengið til þess þegjandi samþykki þingsins. Af þessu leiðir, að sönnur eru fengnar fyrir því, að farnar eru krókaleiðir til að koma slíkum hlutum á. Ég verð að segja það, að betur ætti við, að lagaákvæðum væri breytt á sama hátt og þau eru til orðin. Þegar til kemur, mun ég greiða till. hv. þm. Dal. jákvæði mitt, því ég álít, að hún sé rétt og býst við, að ég verði frekar með brtt. meiri hl. fjhn., sem er á þskj. 159, eins og hún er, heldur en að breyta henni. En þar með hefi ég ekkert sagt um hug minn til frv. yfirleitt, því ég hefi ekki eins mikið vit á þessum skattamálum eins og nefndin, sem bæði hefir mikið vit á þessu og hefir haft mikinn tíma til að yfirfara þetta og stendur því betur að vígi en ég og mínir líkar. En ég býst við, að leika muni á tveim tungum ýms ákvæði viðvíkjandi tekju- og eignarskattinum, sem hún leggur til, og að sumu leyti hefi ég meiri tilhneigingu til að fylgjast með ýmsum till. hv. þm. Ísaf.