16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (667)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Mig er farið að furða á þessum umr. hér í deildinni, því þær virðast snúast um allt annað en meginatriði þessa máls. Ég minnist þess nú, að ég heyrði einn hv. þdm. tala af miklum fjálgleik um það, að ekki mætti ganga of hart að innlendum félögum og stofnunum. Ætla ég, að þetta hafi verið við 1. umr. um frv. hv. 1. þm. N.-M. um sveitargjöld. Fengu þessi orð, að því er virtist, góðar undirtektir í deildinni. Nú vildi ég mega benda þessum sömu mönnum á 7. gr. þessa frv., og mætti vel vera, að þeim rynni til rifja sú meðferð, sem þar um ræðir. Það væri eftir atvikum æskilegt, ef hv. þm. vildu láta svo lítið að athuga þessa grein, en eftir þeim umr., sem fram hafa farið, er helzt að ætla, að mjög fáir þm. hafi kynnt sér þessa gr. frv. Ég hefi reiknað út muninn á skatti tveggja félaga, sem bæði hafa jafnar tekjur skattskyldar, 30000 kr., en annað félagið hefir 10 þús. kr. hlutafé, en hitt 1 millj. kr. hlutafé. Eftir gildandi lögum og eftir frv. því, sem hér liggur fyrir, þá ætti minna félagið að greiða 8755 kr. í skatt, eða ca. 28,6% af tekjum sínum. Ég fæst ekki um þetta út af fyrir sig, en ef þetta er borið saman við það, sem stærra félagið á að borga í tekjuskatt, þá kemur það í ljós, að það félag á ekki að borga nema einar 1400 kr., eða ca. 4,6% af hinum skattskylda gróða, í stað þess að hitt fé lagið á að greiða 28,6% af sínum gróða. Ég veit ekki, hvort hv. þdm. telja það sæmilegt að ganga svo frá þessum lögum. Auk þess hlýtur stærra félagið að hafa margfalt meiri gróða til þess að hafa sömu skattskyldar tekjur sem litla félagið, því að það hefir margfalt meiri frádrátt, fyrst og fremst hundrað sinnum hærri vexti og auk þess tillag til varasjóðs, sem allt dregst frá hinum skattskyldu tekjum. Enda verður útkoman sú, að fátækara félagið greiðir allt að 30% af sínum tekjum, en hitt ekki nema liðlega 4%. Ég hygg, að hv. þdm. hefðu gott af að veita þessu athygli, áður en lengra er gengið.