24.03.1931
Neðri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (685)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég vildi með fáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þeirra brtt., sem fyrir liggja.

Ég verð að telja, að það sé mikill skaði, að menn hafa ekki gefið þessu máli þann gaum, sem hefði mátt vænta. Hér er ekkert smámál á ferð, og mér er ekki grunlaust um, að þegar til atkvgr. kemur, muni ekki allir vera á því hreina með, hvað rétt sé að samþ. og hvað ekki.

Þessar till. eru þannig, að ekki er alveg sama, hverjar eru samþ. og hverjar ekki. Það getur raskað frv. svo, að það verði ónothæft, ef brtt. eru samþ. sitt á hvað.

Hér verður þá fyrst fyrir brtt. á þskj. 232, frá hv. 2. þm. Skagf. Ég tel þá brtt. til bóta og legg til, að hún verði samþ. þá er brtt. á þskj. 220, frá meiri hl. fjhn. Hv. þm. Dal. gerði þessa brtt. að umtalsefni og var henni mjög mótfallinn. Hvort sem það er rétt eða ekki, að þingið geti samþ. slík ákvæði, þá er þó víst, að þingið hefir samþ. lög, er farið hafa í alveg sömu att. Allt tal hv. þm. Dal. um, að þessi brtt. geti ekki komið til atkv., er að mínu áliti ekki á neinum rökum byggt. (SE: Á úrskurði forseta um daginn). Ég verð að telja skaða, að þær greinar, sem um þetta atriði fjölluðu í frv., voru úrskurðaðar frá atkvgr. við 2. umr. Vegna þess að þær voru þá felldar niður, ber meiri hl. fjhn. þessar brtt. fram nú, og þeim mun ég fylgja, enda þótt ég telji þær lakari en hin upprunalegu ákvæði frv., að þingið skyldi taka ákvörðun um þetta efni fyrir eitt ár í senn.

Þá eru samskonar brtt. á fleiru en einu þskj., sem hv. þm. Dal. og fl. flytja og hann gerði að umtalsefni aðan, um það, að útsvör og tekjuskattur séu dregin frá skattskyldum tekjum. Ég skal játa, að mér finnst, að svo ætti að vera, að annaðhvort séu allar þessar upphæðir dregnar frá eða engin af þeim. Má deila um, hvort réttara er. Ég mun ekki gera að ágreiningsefni, hvort þessi till. verður samþ. eða ekki. Mér er ljóst, að af samþ. hennar leiðir nokkurn tekjumissi fyrir ríkissjóð, og hefði því verið réttmætt að hækka skattstigann lítið eitt um leið og hún væri samþ. En með því að slíkt liggur ekki fyrir hér, mun ég láta brtt. þessa afskiptalausa.

Þá eru allmargar brtt. á þskj. 209, frá hv. þm. Ísaf. Ég mun þó ekki gera aðrar brtt. hans að umtalsefni en þær, sem ég get fallizt á. Ég hefi orðið þess var, að sumir hafa talið sjálfsagt að leggjast á móti öllum brtt. hv. þm. Ísaf. við frv. En það er auðvitað misskilningur, að eigi sé rétt að samþ. þær till. hans, sem eigi rugla efni frv., en miða hinsvegar að því að gera ýmis ákvæði þess skýrari. Í þessum brtt. eru þrjár efnisbreytingar, sem ég geri ekki að umtalsefni, þar sem ég er þeim mótfallinn.

1. brtt. á þskj. 209 tel ég rétt að samþ., þar sem hv. þm. Ísaf. vill hafa skýrara orðalag í samræmi við það, sem stendur í frvgr. um ríkisfyrirtæki.

Þá er 4. brtt., sem er í tveim stafliðum. Ég tel ennfremur rétt að samþ. hana. Þar eru þau atriði, sem um er að ræða, skýrar orðuð en í frv.

B-liður 8. brtt., sem tekur meira fram um verð hlutabréfa, er að mínu áliti líka til bóta og áa að samþykkjast.

Þá eru nokkrar brtt., sem samræmis vegna verður að fella eða samþykkja allar. Ég fyrir mitt leyti óska, að þær verði samþ. þær fjalla um tímatakmörkin fyrir starfsemi skattstofunnar í Rvík. Ég hefi leitað upplýsinga hjá skattstjóra um þetta atriði, og telur hann, að tími sá, sem ákveðinn er í frv., sé of naumur, og verði skattstofan að fá undanþágu frá því að afgreiða skattinn svo snemma sem þar er tiltekið. Skattaálagningin er mikið verk, og skattstjóri á jafnframt sæti í niðurjöfnunarnefnd, sem starfar að mestu leyti á sama tíma.

Að vísu eru í 10. brtt. tvær málsgreinar, sem gera kunna skattstofunni óþörf óþægindi. Önnur er á þá leið, að skattanefndir skuli semja skrá um tekjur og eignir framleiðenda, er ekki greiða tekju- og eignarskatt. Þetta er mikið verk, sem bætist á skattstofuna, ef till. verður samþ., og get ég eigi heldur séð, að þetta sé nauðsynlegt. Skattstjóri telur, að þetta ákvæði auki annir í skattstofunni, en megi þó standa, ef ekki sé hægt að láta fara fram sérstaka atkvgr. um þennan málslið.

Þá tel ég ennfremur síðasta málslið í 2. málsgr. athugunarverðan. Þar er svo ákveðið, að skattskrá Reykjavíkur skuli liggja frammi í skattstofunni. Þetta verður til að auka mjög átroðning í skattstofunni, og væri því gott að fella þennan lið niður. Lægi þá skattskráin frammi í bæjarþingstofu Reykjavíkur eins og í öðrum kaupstöðum.

Þá er a-liður 11. brtt. Hann er sjálfsögð afleiðing af 10. brtt., og sama má segja um 12., 13., og jafnvel 14. brtt.

Þá er 15. brtt. Í henni felst ekki efnisbreyting á frv., en hún er með ákveðnara orðalagi en frv., og hefi ég sízt á móti, að hún verði samþ.

Í 16. brtt. felst nýmæli, sem ég tel til bóta, þar sem heimilað er, að með reglugerð megi setja ákvæði um, að gjalddagar á sköttum megi vera fleiri en einn. Ég held, að það væri góð regla, a. m. k. hér í Rvík, að skattar og útsvör væru greidd mánaðarlega. Mönnum er óþægilegt að verða að greiða alla upphæðina í einu lagi. Fólk er nú einu sinni svo gert, að það borgar ekki fyrirfram og bíður unz öll upphæðin er fallin í gjalddaga á sama degi. En hér er ennfremur gert ráð fyrir 1% dráttarvöxtum á mánuði. Þetta atriði tel ég varhugavert og ætti að fella það úr brtt.

Ég býst varla við, að þessar brtt. hv. þm. Ísaf., sem ég hefi gert að umtalsefni, komi í bága við skoðun meiri hl. fjhn. og þurfi því ekki að verða ágreiningur um þær.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða málið í heild, en vildi aðeins skýra afstöðu mína til brtt. Hefi ég þó ekki gert aðrar þeirra að umtalsefni en þær, sem ég er fylgjandi að mestu eða öllu leyti.