25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (696)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

ég hefi af tilviljun ekki verið viðstaddur allar umr. málsins, og getur því verið, að eitthvað það hafi fram komið, sem ég hefði viljað svara, en ég verð þá vitanlega að sleppa því.

Hinsvegar býst ég við, að búið sé að ræða að mestu þær brtt., sem fyrir hafa legið, svo að þær séu hv. dm. kunnar orðnar og þeir hafi tekið afstöðu til þeirra. Sé ég því ekki ástæðu til að ræða mjög ýtarlega allar þær mörgu brtt., sem hér liggja fyrir.

Vil ég þó minnast á einstakar till. og atriði, sem fram hafa komið í umr. meðan ég hefi hlýtt á.

Er þá fyrst 4. brtt. á þskj. 209, við 10. gr. frv., b-liður. Við fyrri hluta till. er ekkert að athuga, þar sem sagt er, að lántaka, eyðsla höfuðstóls eða greiðsla skulda skuli ekki teljast til tekna. Þetta er nú gott út af fyrir sig. En svo kemur viðaukasetningin, sem á við greiðslu skulda, svo hljóðandi: „sem sannazt hefir við gjaldþrot, nauðasamninga eða á annan fullnægjandi hatt, að eignir voru ekki til fyrir“.

Ef þessi aukasetning verður samþ. með þessum lið, þá er því þar með slegið föstu, að eftirgjöf skulda skuli teljast skattskyldar tekjur í öllum öðrum tilfellum en þeim, sem viðaukasetningin gerir ráð fyrir. Hér er augsýnilega ruglað saman tekjum og eignum, því að eftirgefnar skuldir koma fram á næsta ári sem eignaaukning og koma til eignarskatts, þannig að efnahagurinn verður þá betri. T. d. nefni ég eftirgjöf skulda hjá lánsverzlun, sem altíðar eru. Það nær vitanlega engri átt að telja eftirgjöf slíkra skulda til skattskyldra tekna þeim, er eftirgjöfina fá.

Ég sé nú, að hv. tillögumaður er ekki viðstaddur, en ég verð að segja það, að ég hygg, að hann hafi ruglað saman tekjum og eignum. Annars get ég fallizt á fyrra hl. gr., ef eftirsetningin væri felld niður.

Þá vil ég minnast á till., sem komið hafa frá nokkrum þm. á ýmsum þskj. um helmingsfrádrátt á skatti og útsvörum, sem getið er um í 12. gr. h-lið frv. Vilja þeir láta draga alla skatta og útsvör frá.

Nú hefir hæstv. fjmrh. enga áherzlu lagt á, hvort þessar brtt. yrðu samþ. eða ekki. Ég hefi áður bent á, hverri tekjurýrnun samþykkt þessarar till. muni valda, og með því tel ég mig hafa gert skyldu mína. Fyrst stj. er svo ósárt um það, þótt tekjurnar rýrni, þá tel ég mér óskylt að vera að fást um það.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að annaðhvort hlyti að vera rétt að draga frá allt eða ekkert. En þetta er aðeins fyrirkomulagsatriði, sem má haga alveg eftir vild. í skattamálum er ekkert fullkomið réttlæti til; þar verður að byggja allt á mati og taka tillit til ýmsra ástæðna og atvika. Hálfur frádrattur er bil beggja þeirra leiða, sem um þetta hafa gilt, og getur því ekki verið ranglatari en yztu takmörk til beggja hliða.

Vitanlega er þetta einskonar álag á tekjuskattinn að leyfa ekki nema hálfan frádrátt, samskonar álag eins og þegar tekjuskatturinn er hækkaður stig af stigi með stighækkandi skatti. Þetta er alveg samskonar, bara annað form. Það er því engin ástæða til af þessum ástæðum að fallast frekar á þessar till. en till. frv.

Ég minnist þess nú, að hv. 1. þm. Skagf. gerði fyrirspurn til mín fyrir hönd minni hl. fjhn. út af till., sem við berum fram um heimild fyrir ríkisstj. til að hækka eða lækka tekjuskattinn um ákveðinn hundraðshluta. Hann spurði, hvort meiningin væri, að stj. segði til, hvort hún ætlaði að nota heimildina samhliða því, sem fjárlög eru lögð fyrir eða ekki fyrr en eftir a. Vil ég nú fyrst geta þess, að hv. fyrirspyrjandi og aðrir vita, að lík ákvæði þessu hafa verið í l. síðan árið 1928. Mun hafa verið hugsað að nota heimildina eftir a. Eftir till. okkar eins og hún liggur fyrir er þetta alveg óbundið. Það er svo laust og óbundið, að nota mætti heimildina á hvorn veginn sem er, og jafnvel mætti nota hana á báða vegu. (MG: Svo!). Já, þannig, að þegar fjárlagafrv. er lagt fram, geta horfur verið þannig um afkomu ríkissjóðs, að stj. þyki ekki ástæða til að nota heimildina á hvorugan bóginn. En þegar fram líður, gæti ástandið verið orðið þannig breytt, að hún þá vildi nota heimildina, annaðhvort til lækkunar eða hækkunar, eftir því sem á stæði. Annars er þetta að mínum dómi algerlega framkvæmdaratriði.

Hv. frsm. minni hl. gerði mjög að umtalsefni starfsháttu n. og afstöðu hennar til málsins. Ég sé varla ástæðu til að vera að minnast frekar á þetta, úr því að hv. þm. er ekki staddur hér í deildinni.

Þá gekk hv. 2. þm. Reykv. inn á sömu braut, sem sé að tala um starfsháttu n. Ég vildi nú spyrja, hvaðan honum kæmi heimildir fyrir þeirri lýsingu, sem hann hafði um starfsháttu n. Næst er að ætla, að hann hafi þær frá hv. samflm. sínum, sem var í n. Ég ætla nú ekki að fara að afsaka n. að neinu leyti fyrir þessum hv. þm. En ég vil segja það, að hv. þm. var hér að tala um það, sem hann annaðhvort vissi ekkert um eða hafði fengið rangar upplýsingar um. Mér þykir heldur ólíklegt, að hann hafi vizku sína úr samflm. sínum, því að hann á þá vissulega sinn hluta í dómnum um starfsháttu n., enda var hann okkur í ýmsum atriðum sammála, þótt á milli bæri um annað. Þá talaði hv. þm. um stefnu meiri hl. n. og afstöðu til þess máls, skattamálsins. Út af ummælum þm. vil ég taka það fram, að í raun og veru eru allir flokkar í landinu sammála í skattamálunum að vissu stigi, sammála um það að nota þennan skattstofn í svo ríkum mæli, sem skynsamlegt er. Svo skiljast aftur leiðir flokkanna um það, hvar þau skynsamlegu takmörk séu. Munurinn er því frekar stigmunur en stefnumunur. Ég tek því þess vegna ekki sem réttmætu ásökunarefni á meiri hl. n., þótt skoðun hans sé sú, að nú þegar sé lagzt svo þungt á þennan skattstofn, þegar útsvörin eru tekin með, að það sé allt að því yfir skynsamleg takmörk.

Það er rétt að benda á það í þessu sambandi, að í nálægum löndum Evrópu er hvergi lagt eins þungt á þennan skattstofn og her, þegar útsvörin eru tekin með. Hin skynsamlegu takmörk eru þau, að ekki sé lagt þyngra á þennan skattstofn en það, að ekki sé með því dregið úr framtaki einstaklingsins.

Reynslan hefir líka sýnt, enda liggur það í augum uppi, að ef lengra er farið á þessari leið en skynsamlegt er, þá verður það til þess að rýra þennan skattstofn, þegar til lengdar lætur, og þar með tekjurnar af honum. Eins og kunnugt er, eru það alstaðar jafnaðarmennirnir, sem vilja ganga lengst í því að leggja á þennan skattstofn. Mest ber þó á því meðan þeir eru að reyna að vinni sér hylli og ná í völd. En þegar þeir hafa fengið völd og finna ábyrgðina á sér hvíla, þá dregur úr fortölum þeirra um þetta efni og þeir skilja það eins og aðrir, að í þessu efni þarf að halda sér við skynsamleg takmörk.

Eru nú hér eftir brtt. frá hv. þm. Ísaf. Kemur það fram, að hann viðurkennir ekki eða þykist ekki viðurkenna, að útsvörin hvíli á þessum skattstofni. Hann sér ekki yfir nema einn fjórða af því, sem á þessum skattstofni hvílir. Þess vegna er ekki von, að hann haldi sér innan við skynsamleg takmörk í tillögum sínum.

Það er alkunnugt, að Alþýðuflokkurinn hirðir ekkert um framtak einstaklingsins; á því byggist afstaða hans í ýmsum málum. Jafnaðarmenn bera fram ýmsar till. sínar aðeins til að flagga með framan í kjósendur og reyna að kaupa sér með því fylgi hjá alþýðu manna. Þeir vita, að það lætur vel í eyrum, að þeir eigi að greiða öll gjöldin í ríkissjóð, sem hafi „breiðu bökin“, til þess að þeir geti sloppið sjálfir.

Ég er þess fullviss, að ef jafnaðarmenn ættu sjálfir að bera ábyrgð á afkomu landsins, þá myndu þeir meir stilla till. sínum í hóf. Nú standa þeir svo langt frá því takmarki, að þeir telja sig geta gert svona öfgafullar till. Till. jafnaðarmanna í þessum málum er aðeins önnur leið til eignarnáms, sem þeir eru svo fúsir til. Till. þeirra, ef í framkvæmd kæmust, myndu gera hvorttveggja í senn: vera hægfara eignarnám og rýra þannig smátt og smátt sjálfan skattstofninn — éta hann upp — og hefta einstaklingsframtakið.

Þá minntist hv. frsm. minni hl. á það sama og hv. 3. þm. Reykv., að ég vildi í till. mínum í frv. um sveitargjöld leggja svo þungt á þennan skattstofn, að fyrir gæti komið, að skatturinn næmi meira en öllum skattskyldum tekjum. Þetta er ekki með öllu að ástæðulausu sagt. En slíkt kæmi þó ekki fyrir nema í alveg sérstökum tilfellum. Í mínum till. felst ekki það að taka einum eyri meira af þessum stofni en nú er gert. Till. mínar eru að mestu byggðar á því að taka útsvörin eftir sömu reglu og gildir um tekju- og eignarskatt. Og hvers vegna skyldi ekki mega fara eftir þeim reglum? — Er það viðurkenning á því, að þær séu ranglátar? — Nei, það er bara óbein viðurkenning á því, að útsvörin séu óhæfilega há.

Eins og ég hefi synt fram á í grg. fyrir frv. til l. um sveitargjöld, er sumsstaðar lagt á þennan skattstofn í útsvörum ekki þrefalt við það, sem borgað er til ríkisins, heldur fjórtánfalt. Þetta er svo hátt, að það er skiljanlegt að öfgar geti komið fram, þegar heimta á þetta háa gjald eftir skynsamlegum föstum reglum.

Hv. frsm. minni hl. talaði um, að hann myndi ekki aðhyllast till. mínar um sveitargjöld, og get ég ómögulega talið þeim það til lasts. Hitt myndi ég frekar telja, að ég væri á rangri leið, ef ég ætti að vænta stuðnings þaðan.

Ég tel ekki sérstaka ástæðu til að ræða neitt verulega um brtt. hv. þm. Ísaf. frá 20. gr. og aftur úr. — Ég sé ekki réttmæta ástæðu til, að frestirnir séu hafðir lengri í Rvík en annarsstaðar, því þó meira sé að gera viðvíkjandi framtali til skatts og skattakvörðun í Rvík en annarsstaðar, þá veldur það ekki öðru en því, að hafa þeim mun fleiri menn við það á meðan á því stendur.

Við hinar aðrar till. hv. þm. hafa ýmsir þm. borið fram brtt. til lagfæringar, og verði þær, þá er meinlaust, þótt till. hv. þm. Ísaf. verði samþ. þannig breyttar.

Ég hefi í svari mínu til hv. frsm. minni hl. einnig svarað hv. 3. þm. Reykv. viðvíkjandi till. um fasta tekjustofna handa sveitar- og bæjarfélögum og um það, að við álagningu útsvara skuli þræða líkar leiðir og við álagningu skatta til ríkissjóðs. Ef mælt er á móti þeirri till., er jafnframt mælt á móti þeirri reglu, sem skatturinn til ríkissjóðs er á lagður eftir.

En hvaða regla sem notuð er við niðurjöfnun útsvara, og þó haldið verði áfram að heimta þau eftir handahofsmati, til þess að reyna að dylja það, hversu þungt lagzt er á þennan tekjustofn, þá verður það ekki út skafið, að gjaldendur verða alltaf að greiða nálega þrefalda upphæð til þarfa sveitarfélaganna við það, sem þeir greiða í skatt til ríkissjóðs, allt af sama skattstofninum.