08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (775)

14. mál, Brunabótafélag Íslands

Hákon Kristófersson [óyfirl.):

Ég get ekki annað en talið það skrítilegt, að frv. í öðru eins stórmáli og þessu skuli ekki fylgja nein grg., heldur skuli í staðinn fyrir grg. vísað til afgreiðslu málsins í d. í fyrra. Í annan stað er nál. meiri hl. fjhn. næsta ómerkilegt í svo merkilegu máli. Ég vildi gjarnan heyra það frá hv. frsm., hvort n. ætlar sér ekki að gera brtt. við 3. og 14. gr. frv. Í 3. gr. er öllum húseigendum, bæði í kaupstöðum og sveitum, gert að skyldu að tryggja hjá félaginu. Ég get ekki betur seð en að hér sé um að ræða stórkostlega takmörkun á athafnafrelsi manna. (HStef: Þetta er lengi búið að vera í logum). Ekki þó um kirkjurnar; það er algerlega nýtt. (HStef: Hv. þm. hefir samþ. skyldutryggingu á kirkjum fyrir nokkrum dögum í deildinni). Ég sé mér ekki annað fært en að koma fram með brtt. um þetta efni fyrir 3. umr., ef hv. n. eða aðrir verða ekki til þess. Annars ætla ég ekki að tala frekar um málið að þessu sinni. Hæstv. forseti hefir mælzt til þess, að menn yrðu stuttorðir um málið, af því fundartíminn er að verða naumur. Ég vænti, að hv. frsm. taki ekki illa upp fyrir mér það, sem ég hefi sagt, og skilji það, að ég tala ekki svo af neinni óvild til aðalkjarna málsins, en fallist á, að aths. mínar eru á rökum byggðar.