19.03.1931
Neðri deild: 28. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (859)

20. mál, búfjárrækt

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þó ég ætli nú ekki að halda eins langa ræðu og hæstv. forsrh., get ég ekki látið málið fara gegnum deildina án þess að svara honum einhverju. Hann var mjög harðorður um þá spillingu á frv., sem hv. landbn. vildi stuðla að. Ef taka ætti öll orð hans bókstaflega, held ég að ekki væri vanþörf á að taka upp sérstakan kafla í þetta frv., til þess að vernda landbúnaðinn fyrir landbn. Nd. Alþ. Það var eins og till. hennar miðuðu ekki einungis að því að stöðva allar framfarir í landbúnaðinum, heldur mundu þær færa hann mörg ár aftur í tímann, ef samþ. væru.

Af ræðu hæstv. forsrh. mátti sjá, að um margar af till. var hann sammala landbn. Það, sem á milli ber, er ekki svo mörg eða stórvægileg atriði, að ég geti á nokkurn hátt skilið, að á þeim velti framtíð hins ísl. landbúnaðar. Ég get ómögulega skilið, að framtíð landbúnaðarins velti t. d. á því, hvort ríkið kaupir eina fjóra kynbótahesta, hvort komið er upp sýslusýningum á 10 ára fresti, hvort láta má kálfa ganga með kúm þangað til þeir eru 8 mánaða o. s. frv. Þetta eru svo smá atriði, að ég held, að hæstv. ráðh. hafi tekið allt of djúpt í árinni, er hann talaði um, hver áhrif mundi hafa að samþ. brtt. okkar nm.

Okkur landbnm. er ljóst, hvað stórkostlegar framfarir hafa orðið í búfjárrækt á síðari árum hjá sumum, sem hana stunda, þeim, sem stunda hana á réttan hátt, eins og t. d. er gert á Hvanneyri. Okkur er líka ljóst, að þær framfarir verða að halda áfram og breiðast út, og þær gera það, hvað sem þessu frv. liður. Að við með brtt. okkar viljum kippa búfjárræktarstarfseminni í sama horf og hún var í 1925, þó þær fari í sömu átt og log, sem þá voru samin, það nær vitanlega engri att. Þó t. d. jarðræktarlögunum væri haldið óbreyttum eins og þau voru upphaflega, þá er ekki hægt að segja, að jarðræktinni væri með því haldið alltaf í sama horfi og hún var í þegar lögin voru samin. Slík löggjöf heldur áfram að hafa áhrif og stuðla að framkvæmdum og framförum, þó henni sé ekki breytt.

Hæstv. forsrh. talaði um jarðabótastyrkinn og styrk til búfjárræktar sem hliðstæður. Ég aftur lít svo á, að jarðrækt og jarðabætur séu undirstaða allra annara framfara í landbúnaðinum, og því sé styrkur til þeirra hluta ekki fyllilega sambærilegur við neina aðra styrki. Íslenzkir bændur þurfa hvorki meira né minna en að umskapa landið, áður en þeir geta farið að búa á þann hátt, sem tímarnir krefjast. Engan hlut er ríkinu eins skylt að styðja. Það getur oft liðið langur tími, þangað til sumar umbætur á sviði jarðræktarinnar fara að sýna þann árangur, sem þær koma til með að bera. Aftur kemur arðurinn af framförum í búpeningsrækt svo að segja strax í vasa þeirra, sem að þeim vinna. Þess vegna hefði hæstv. ráðh. ekki átt að bera saman þá skyldu, sem ríkinu ber til að styðja jarðræktina, og sem því ber til að styrkja þau félög, sem frv. ræðir um, þó þau að vísu séu mjög þörf. Ég lít þannig á, að það sé ekkert atriði í þessu máli, hvort fleiri eða færri krónur eru veittar í verðlaun fyrir góða kynbótagripi, hvort meiri eða minni styrkur er veittur til að ala þá o. s. frv. Aðalatriðið er að hvetja bændur til búfjárbóta, búa til einskonar ramma utan um starfsemi þeirra og beina áhuga þeirra í rétta átt.

Þá skal ég snúa mér að einstökum brtt., sem hæstv. ráðh. talaði um. Hann minntist á brtt. um undanþágu frá ákvæði frv. um það, að hrútar megi ekki ganga lausir að vetrinum. Hann spurði, því ekki mætti gilda það sama um undanþágu frá þessu atriði eins og frá samskonar ákvæðum um naut og kynbótahesta. Það má nú að vísu telja þetta hliðstæð ákvæði. Þó er sá munur á, að örsjaldan mundi verða óskað eftir leyfi til að láta naut ganga laus, en aftur mundu svo margir sækja um undanþágu frá því að þurfa að hafa hrúta í haldi, að það væri bæði óþarft og óviðeigandi, að slíkt þyrfti að koma til kasta atvmrh. Ég geri ráð fyrir, að meiri hluti allra hreppa í landinu mundi æskja þeirrar undanþágu.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að ósamræmi yrði í ákvæðum frv. um laun kynbótanefndanna eftir till. landbn. Ég held, að þar sé aðallega um orðamun að ræða, því heimilt á að vera að greiða bæði nautgripakynbótanefndum og hrossakynbótanefndum þóknun, og í báðum tilfellum ræður hreppurinn, hvað hún skuli vera há.

Aths. hæstv. forsrh. út af brtt. við 13. gr. er þegar svarað. Það var eitt af þeim atriðum í till. landbn., sem hæstv. ráðh. taldi spor aftur á bak. Eins og getið hefir verið um, er í þessu frv. gert ráð fyrir nýjum styrkflokki, fóðurstyrknum. Ætti það að vega á móti því, að þarna væri fellt niður ákvæði um verðlaunagreiðslu úr ríkissjóði.

Um styrkinn til nautagirðinganna er það að segja, að það er að vísu rétt hjá hæstv. ráðh., að eftir till. landbn. yrði hann lægri en styrkur til venjulegra girðinga samkv. jarðræktarlögunum. En hér er ólíku saman að jafna, þar sem annarsvegar er um að ræða nauðsynina til að styrkja jarðræktina. Það er auðvitað ekki meiri ástæða til að veita félagi margra manna háan styrk til að gera litla girðingu heldur en að styrkja einstaka menn til að gera miklu stærri girðingar. Margir einstakir menn verða að kosta á einu ári miklu stærri girðingar vegna jarðræktarframkvæmda heldur en hér er um að ræða.

Þá er fóðurstyrkurinn, sem brtt. við 33. gr. ræðir um. Frv. gerir ráð fyrir tvennskonar styrk til kynbótastarfseminnar, styrk til kaupa á kynbótagripum og til fóðrunar þeirra. Áður hefir verið talað um, hver er tilgangurinn með fóðurstyrknum. Með honum á að stuðla að því, að gripir, sem hafa reynzt sérstaklega vel til undaneldis, séu notaðir sem lengst, með því að veita styrk til að fóðra þá síðustu árin. Nú hefir nautgriparæktarráðunauturinn óskað eftir að halda fóðurstyrknum í sinni grein búfjárræktarinnar, en hrossaræktarráðunauturinn hefir aftur fremur kosið, að veittur verði styrkur til gripakaupa í hans grein. — Hvorttveggja hefir verið tekið til greina. En þar að auki gerir frv. ráð fyrir að veita styrk til fóðrunar kynbótahesta. Fannst okkur landbnm. því ekkert ósanngjarnt, þó sá styrkur næði aðeins til 1. flokks kynbótahestanna.

Umr. frestað.

Á 29. fundi í Nd., næsta dag, var fram haldið 2. umr. um frv. (A. 20, n. 176).