17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jón Þorláksson):

Ég hefir fyrir n. ekkert verulegt að segja út af ummælum hv. 5. landsk. En frá sjálfum mér vildi ég segja það, að það hefir í raun og veru verið frá upphafi þeim mönnum, sem hafa haft löggjöf um fasteignaveðlán til athugunar, allljóst, að lokaniðurstaðan um fjárútvegun til fasteignalána hefði orðið að vera sú, að gefa út skuldabréf, sem mættu vera í erlendri mynt, a. m. k. jafnframt sem þau hljóðuðu upp á ísl. krónur.

Að ekki var horfið að þessu ráði 1925–26, þegar verið var að rétta veðdeild Landsbankans við eftir margra ára niðurlægingu, það stafaði af því, að gengissveiflur bæði hér og í nágrannalöndunum höfðu staðið yfir allt fram til þess tíma, og enginn gat því vitað, hvenær þeim mundi að fullu lokið. Og meðan hvorki var hægt að tala um neitt ákveðið gildi ísl. krónu né heldur fast gullgildi gjaldeyris nágrannalandanna, þá þótti ekki tímabært að setja lagaheimild um að gefa út skuldabréf, sem hljóðuðu bæði upp á ísl. krónu, sem sveiflaðist fram og aftur, og einnig erlendan gjaldeyri, sem sömuleiðis var óstöðugur á þeim tíma. Og það var ekki sízt í samráði við þann fjármálamann, sem undirbjó þetta frv., að farið var inn á þá leið, sem þá þótti sú eina fara leið, nefnilega að nota ríkissjóð beinlínis sem millilið og láta hann koma beinlínis fram sem lántakanda. Nú segir hv. 5. landsk., að lántökurnar fyrir veðdeildina hafi skaðað landið. Ég er alveg sannfærður um, að þetta er misskilningur. Lántökurnar 1926–27 hafa ekki getað skaðað landið eða lánstraust þess á nokkurn hátt heldur en sala á veðdeildarbréfum kemur til að gera, sem þetta frv. fjallar um. Það er sem sé full ábyrgð ríkissjóðs í báðum tilfellum. Þar er enginn mismunur. Spursmálið er, hvort baktryggingin sé nokkuð verri 1926–27 heldur en verður samkv. ríkisveðbankalögunum. En þegar það er nánar athugað, þá sést það, að tryggingarnar, sem ríkissjóður hafði sem lántakandi 1926–27, þær eru a. m. k. eins góðar eins og þær, sem ætlaðar eru gagnvart sölu skuldabréfa eftir þessu frv.

Ég er þess vegna alveg viss um, að það er fullkominn misskilningur hjá hv. landsk., að þessi ráðstöfun hafi á nokkurn hátt skaðað landið. Auðvitað hefir hún aukið skuldbindingar landsins, en það gera öll skuldabréf, sem seld eru samkv. frv., sem er til meðferðar. Og það er ekki hægt að segja, að það á neinn hátt skaði landið, þó að skuldbindingar út á við aukist, svo framarlega sem menn eru sannfærðir um, að þær ráðstafanir séu í heild sinni landinu til gagns.

Þá sagði hv. 5. landsk., sem rétt er, að eftir sé að sjá, hvernig tekst að koma þessum skuldabréfum ríkisveðbankans á erlendan markað. Ég fyrir mitt leyti ber gott traust til þess, að það muni takast, og sérstaklega fyrir þá sök, að stj., sem hefir undirbúið þetta mál, hefir þorað að stíga það spor, sem áður fyrr hefir þótt nokkuð djarflegt, og það er að leggja ríkið í ábyrgð fyrir öllum skuldabréfum. Þetta er ekki gert gagnvart veðdeildarbréfum hinna fyrri flokka. Ríkissjóður hefir lagt til tryggingarfé, en ekki gerzt ábyrgur fyrir slíkum skuldabréfakaupum, nema fyrir þeim flokkum, sem keyptir voru 1926–27, og eitthvað lítils háttar áður. Það hefir áður verið stigið það spor að taka ríkisábyrgð á jarðræktarbréfum. til þess að tryggja, að lánsfé til jarðabóta og annara þeirra framkvæmda, sem ræktunarsjóðslögin kveða á um, fengist ávallt með hinum allra bestu kjörum. Nú hefir hæstv. stj. stigið það spor, að leggja til í þessu frv., að ríkissjóður taki ábyrgð einnig á þessum almennu fasteignaveðskuldabréfum landsins. Og ég er sannfærður um, að þetta ákvæði verður til þess, að þessi bréf verði sæmilega vel seljanleg erlendis. með því að það er líka sæmilega búið um alla tryggingu samkv. frv.

Það er nú enginn fjmrh. til að tala við, fremur en vant er. En ég vil gera ráð fyrir því við framkvæmdina, að hæstv. stj. sjái um það, að gengi þessara skuldabréfa verði skráð, — a. m. k. í einhverri einni kauphöll erlendis. Sú skráning þýðir það, að alltaf sé hægt að fá lánsfé til þess svo aftur að lána út gegn fyrsta veðrétti í fasteignum. En kauphallarverð á bréfum verður breytilegt og segir til, hversu hagstæð eða óhagstæð kjörin geta orðið. Það ástand, sem nú er, að ekki er mögulegt að fá peningalán gegn fyrsta veðrétti í fasteign, þykir nú á dögum svo undarlegt, að útlendingar, sem koma hingað, ætla ekki að trúa því. Nú verður hægt að fá þessi fasteignaveðlán, en kjörin geta orðið mismunandi hagstæð eða óhagstæð. Og það verkar þá náttúrlega þannig, að þegar lánskjörin eru óhagstæð, þá dregur úr byggingum, og menn reyna heldur að byggja og framkvæma á þeim tímum, sem þessi lán fást með hagstæðari kjörum.