17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jónas Jónsson:

Það er lítilsháttar misskilningur hjá hv. 1. landsk. um það, að það ástand sé heilbrigt, að ríkið taki lán til þess að kaupa veðdeildarbréf. Það er misskilningur, að þetta hafi ekki skaðað landið. Og ástæðan er beint sú, að þessi lán, sem landið tekur sjálft, þau eru talin skuld landsins. Til þess að lengja ekki umr. um of, vil ég drepa á það, sem ég sagði í vetur á þinginu, að þegar verið var að taka ríkislánið í nóvember í haust, þá kom tilboð meðal annara frá sænskum bönkum. Og milli þeirra lánardrottna og sendiherra Íslands kom það fram, að þeir töldu skuldbindingar ríkisins með fyrir veðdeild, eins og venjulegar ríkisskuldir, sem komi til greina viðvíkjandi lánstrausti landsins. Þar sem landið hefir afarmikla þörf fyrir fasteignalán bæði í bæjum og sveitum, þá hefði það eftir gömlu reglunni stórkostlegu aukið ríkisskuldirnar. Er þá ekki efasamt, að það hefði verulega spillt fyrir landinu og uppsogið lánstraust þess.

Nú er hv. l. landsk. sjálfsagt vel kunnugt, að engin af nágrannaþjóðum okkar hefir tekið upp þessa aðferð. Það má segja, að Danir hafi um alveg sérstaka tegund fasteignalána gengið í þessa átt, viðvíkjandi húsmannabústöðum, og það var af sömu ástæðu og hér er, til að styðja þessa lántakendur. En þessi aðferð, að ríkið væri aðallántakandinn, er alveg óþekkt, og gæti ekki endað í öðru en að verða veruleg hindrun þess, að landið gæti notað sitt lánstraust til annara sjálfsagðra þarfa.

Ég get bætt því við, að bæði þessir sænsku bankamenn og eins franskir héldu því fram við sendiherrann sem sinni skoðun, að borið saman við fólksfjölda væru ríkisskuldir nægilega miklar, þótt þetta lán væri ekki nema 10 millj., í staðinn fyrir 12, eins og heimilað var. Og þessari mótbáru, sem ég talaði um, var líka hreyft í enskum bönkum.

Án þess að ég óski að vekja miklar umr. um þetta, þá get ég sagt, að miklu betur hefði það gefizt, ef hv. 1. landsk. hefði þegar hann var fjmrh. lagt inn á þessa leið, heldur en að taka ríkislán þau, sem hann tók. Og það er af þeim ástæðum, sem ég er búinn að færa fram.

Viðvíkjandi því, að djarft sé að ganga í ábyrgð fyrir þessum bréfum út á við, er það að segja, að betra er að komast hjá því. En þó er sá munur á, að þessi ábyrgð mun að öllum jafnaði ekki verða talin lánstraustsspillandi fyrir landið. Á heimsmarkaðnum er hún ekki talin sem lán. Í nágrannalöndum okkar er það ekki talin skuld ríkissjóðs, þegar ríkissjóður gengur í ábyrgð vegna vissra fyrirtækja, svo sem verkamannabústaða.