07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

66. mál, slysatryggingalög

Halldór Stefánsson:

Ég vil fyrir hönd okkar flm. þessa frv. lýsa yfir ánægju minni yfir afgreiðslu allshn. á málinu. — Málið hefir verið afgr. þaðan ágreiningslaust og ýmsir lagt sig í líma til þess að gera það sem bezt úr garði, og álít ég, að brtt. séu yfirleitt til bóta. Ég vil beina þeirri áskorun til hæstv. forseta, að hraða afgreiðslu þessa máls eins mikið og unnt er, og ég mun við 3. umr. bera fram viðaukatill. þess efnis, að lögin gangi nú þegar í gildi.

N. hefir komið fram með orðabrtt. við 4. gr. Viðvíkjandi henni ætla ég að vekja athygli á því, að ég held, að hv. n. hafi ekki skilið, hvað átt er við með orðinu „framsenda“, fyrst hún leggur til, að „senda“ verði sett í staðinn. Á bak við það liggur það, að málin eiga fyrst að sendast til lögreglustjóra, hann skrásetur tryggingarnar og hefir eftirlit með því, hvort viðkomandi sé tryggður, síðan sendir hann málið áfram — framsendir — til tryggingarinnar. Þetta er því hárrétt greining á því, sem fram fer um afgreiðslu málsins, og getur orðið til leiðbeiningar. Íslenzkan hefir margar hliðstæður við þetta orð, t. d. framleiða. framvísa o. s. frv. Þetta er auðvitað aukaatriði, en ég held, að alveg eins færi vel á því að nota orðið „framsenda“.