18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (1664)

28. mál, vegamál

Pétur Ottesen:

Ég hefi nú um hríð ekki verið viðstaddur umr. og þess vegna ekki heyrt það, sem fram hefir farið.

Ég vildi aðeins út af ummælum hjá hv. þm. Dal., að vegamálastjóri hafi ekki sýnt nægilega mikla röggsemi í því að koma á í sambandi við vegagerð ýmsum þeim endurbótum, sem nauðsynlegar eru til þess að forðast slys og þess háttar, segja nokkur orð.

Ég held þetta sé alls ekki rétt hjá hv. þm., að hann hafi ekki haft fullkomlega opin augu fyrir þeirri hættu, sem gæti stafað af umferð á vegum víðsvegar um landið, heldur stafar það af því, að hann hefir ekki fengið nægilegt fjármagn til nýbyggingar og viðhalds, til þess að koma þessu í framkvæmd svo sem nauðsynlegt var og æskilegt. Annars verð ég að segja, að í margra ára samstarfi við vegamálastjóra í fjvn. hefi ég aldrei orðið annars var — ætla ég, að þar tali ég fyrir munn fjárveitinganefndarmanna yfirleitt — heldur en vegamálastjóri hefði mjög vakandi auga á því og áhuga fyrir því að reyna að tileinka okkur allar nýjungar í vegagerð og umbótum á vegum, sem framkvæmdar eru í nágrannalöndum okkar, enda hefir honum tekizt það á margan hátt. Má í því efni nefna veghefilinn og annað þess háttar, sem kemur að mjög miklu haldi við viðhald veganna. Og það er fleira í þessu efni, sem fullkomlega bendir til þess, að vegamálastjóri hafi vakandi áhuga um að fylgjast með framförum og nýjungum í vegamálum í nágrannalöndunum. Hitt er öllum kunnugt, að vegamálastjóri er alveg sérstaklega áhugasamur um aliar vegaframkvæmdir í landinu. Það er næstum undravert, að hvar sem maður drepur niður hringinn í kringum landið, þá er vegamálastjóri þar öllu jafnkunnugur og getur fyrirvaralaust gert greið skil allra slíkra hluta. Og ég hefi heldur ekki orðið annars var en að hann vilji í sínum till. gera allt sem réttlátast. Hitt er auðvitað, að fjárveitingavaldið á Alþingi og ríkisstjórnin hefir mjög mikið hönd í bagga, hvað gert er á hverjum stað, og stundum hefir verið gripið í tauma og farið á svig við vegamálastjóra, þannig að miður er farið. Það er því mála sannast, að það er enganveginn fyrir tómlæti eða áhugaleysi vegamálastjóra, að nokkuð skortir á um fullkominn frágang veganna og öryggisráðstafanir á þeim, heldur er það af hinu, að hann hefir ekki fengið fé til þess; það hefir verið látið ganga fyrir að teygja vegina áfram.

Mér þykir ekki ástæða til að fara frekar út í efni till.; ég gerði það í gær, lið fyrir lið. Ég tel heppilegast að vísa þessu máli til stjórnarinnar með rökst. dagskrá, þó ég geti tekið undir með hv. þm. S.-M., að það muni sennilega koma í sama stað niður, hvort . samþ. er dagskrártill. n. eða sú, sem hv. þm. Barð. ber fram.